HSG eignast tvo nýja Buggy-bíla

Í haust eignaðist Hjálparsveit skáta í Garðabæ (HSG) í fyrsta skiptið tvo sérútbúna Buggy-bíla sem fengu nöfnin Huginn og Muninn. Síðustu misseri hafa nokkrar aðrar hjálparsveitir aflað reynslu á slíkum björgunartækjum, þar á meðal á Akureyri og Suðurnesjum. Buggy-bílar reyndust meðal annars afar vel í eldgosagæslu við Geldingadali á árinu sem er að líða.

HSG ákvað að kaupa tvo Polaris Pro XP frá Stormi sem sá um að breyta þeim eftir þörfum björgunaraðila. Bílarnir eru á stærri dekkjum en almennt gerist og komnir með öflug leitarljós og fjarskiptabúnað, svo sem Tetrastöðvar (talstöðvakerfi 112), VHF talstöðvar og GPS staðsetningartæki. Í GPS tækjunum er hægt að sjá staðsetningu hvors bíls fyrir sig á skjá sem er nauðsynlegt til að tryggja samvinnu og öryggi þeirra sem eru í bílunum, skipuleggja leit og bregðast við upplýsingum í leit með skipulögðum hætti.
Bílarnir eru einstaklega léttir og kraftmiklir en það sem gerir þá einna helst sérhæfða er gríðarlega öflugur fjöðrunarbúnaður. Með honum þolir bíllinn mikið álag í ójöfnum og fer vel með farþega í aðstæðum sem önnur tæki komast að jafnaði ekki yfir.

Þar sem bílarnir eru mjög sérhæfð aksturstæki var ákveðið að stofna sérstakan flokk innan HSG til að þjálfa leitarfólk í notkun þeirra, en bílarnir nýtast sérstaklega vel í slóðaleit og hraðleit þar sem stórir bílar eiga erfitt um vik og tækjalaust fólk kemst hægt yfir. Þannig er hægt að leita stór og erfið svæði þegar á þarf að halda en einnig liggur oft fyrir í upphafi útkalls hvar bjarga er þörf og þá er hægt að komast á staðinn á skömmum tíma með tæki, búnað og björgunarfólk.

Reynslan sem komin er frá því bílarnir komu til HSG í haust lofar mjög góðu en þjálfun og æfingar björgunarfólks standa enn yfir. Bílarnir hafa á þessum tíma tekið þátt í nokkrum leitum og sýndi sig strax að þeir hafa kosti sem önnur björgunartæki hafa ekki. Með bílunum verður til nýtt sérsvið innan HSG og um leið eykst geta sveitarinnar til að bregðast við með fjölbreyttari hætti en áður og þannig sanna Huginn og Munninn gildi sitt.

Hrafnhildur og Guðmundur Freyr

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar