Eigum sterkt kjarnafylgi sem færist ekki svo glatt

Aðeins munaði 12 atkvæðum að Harpa Þorsteinsdóttir, sem skipaði þriðja sæti á lista Garðabæjarlistans, kæmist inn í bæjarstjórn á kostnað sjöunda manns Garðabæjar. Sökum þess hve litlu munaði þá bað Garðabæjarlistinn um endurtalningu sem var samþykkt, en ekkert breyttist eftir endurtalninguna.

En hvað segir Þorbjörg Þorvaldsdóttir, oddviti Garðabæjarlistans, er hún sátt með árangurinn í kosningunum og sérstaklega í ljósi þeirra breytinga sem urðu á flokknum fyrir kosningarnar, þar sem Viðreisn sleit samstarfinu við flokkinn og bauð fram undir nafni Viðreisnar? ,,Já, ég er mjög ánægð með þennan árangur. Við eigum greinilega sterkt kjarnafylgi í bænum sem færist ekki svo glatt þrátt fyrir önnur öflug framboð sem buðu fram í ár.”

Eigum öflugasta varabæjarfulltrúann

Garðabæjarlistinn bauð fyrst fram árið 2018 og fékk þá þrjá bæjarfulltrúa og nú fékk hann tvo og ekki munaði miklu að Harpa Þorsteinsdóttir kæmist inn. Má ekki segja að Garðabæjarlistinn sé kominn til að vera? ,,Við erum komin til að vera, það er alveg ljóst. Það voru auðvitað vonbrigði að Harpa Þorsteinsdóttir kæmist ekki inn, en við gleðjumst þó yfir því að eiga öflugasta varabæjarfulltrúann í bænum,” segir hún.

Engin vonbrigði

Voru það vonbrigði að Viðreisn hafi ákveðið að bjóða sér en ekki með ykkur, væri þá ekki líkegt að flokkurinn hafi fengið fjóra bæjarfulltrúa miðað við fylgi flokkanna tveggja í kosningnum? ,,Nei, það voru svo sem engin vonbrigði, en auðvitað er leiðinlegt hvernig bæjarfulltrúar skiptast miðað við atkvæðafjölda þeirra framboða sem bjóða sig fram gegn Sjálfstæðisflokknum. Yfirburðir hans haldast þrátt fyrir fylgistap. Nú hefur hann 7 af 11 bæjarfulltrúum en aðeins 49% atkvæða. Ég þori ekkert að segja um það hvernig okkur hefði farnast með Viðreisn innanborðs, en við fengum inn Pírata í staðinn sem er mjög ánægjulegt.”

Munum beita okkur af krafti

En hvernig fannst þér kosningabaráttan vera, góð og málefnaleg? ,,Já, kosningabaráttan var mjög góð þótt ég hefði viljað fá fleiri tækifæri til að rökræða við mótherja mína um málefni. Ég er hrikalega stolt af mínu fólki, við vorum samstíga og einbeittum okkur að því að tala fyrir þeim Garðabæ sem við viljum sjá. Nú tekur kjörtímabilið við og við munum svo sannarlega beita okkur af krafti, bæði í bæjarstjórn og nefndum, fyrir fjölbreyttara, ábyrgara og barnvænna samfélagi.”

Hvernig líst þér svo á að setjast í bæjarstjórn og hvað munt þú leggja áherslu á og reyna að koma í gegn? ,,Ég hlakka virkilega til að takast á við þetta hlutverk og mun gera mitt allra besta fyrir Garðbæinga. Ég mun leggja áherslu á fjölbreyttar, öruggar og loftslagsvænar samgöngur, húsnæðisuppbyggingu fyrir alla hópa Garðbæinga, sérstaklega ungt fólk, og að Garðabær sýni samfélagsleg ábyrgð í velferðarþjónustu,” segir Þorbjörg að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar