Waldorfskólinn í Lækjarbotnum fær Foreldraverðlaunin

Foreldraverðlaun Heimilis og skóla voru afhent í 27. sinn við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu sl. fimmtudag. Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra ásamt Elizu Reid forsetafrú, ávörpuðu samkomuna og afhentu verðlaunin. Í ár hlaut Waldorfskólinn í Lækjarbotnum í Kópavogi Foreldraverðlaun Heimilis og skóla fyrir verkefnið ,,Vinnudagar Lækjarbotna og gróðursetning plantna á skólasetningu“. Einnig var Hlín Magnúsdóttir útnefnd Dugnaðarforkur Heimilis og skóla 2022. Sérstök dómnefnd fór yfir allar tilnefn-ingar líkt og vant er og valdi verðlaunahafa.

Waldorfskólinn í Lækjarbotnum er einkarekinn skóli sem fer eftir uppeldisfræði Rudolf Steiners. Á hverju ári við skólasetningu skólans leggur skólinn til trjáplöntur sem eru gróðursettar af nemendum og foreldrum. Þannig hefur skólasamfélagið í Lækjarbotnum grætt upp Lækjarbotnaland í rúm 30 ár og sýnt hverjum nemanda og foreldri að allt skiptir máli þegar græða á upp landið. Veðurfar í Lækjarbotnum hefur breyst í tímans rás eftir því sem tjáplönturnar vaxa og dafna. Tveir vinnudagar eru teknir í verkið fyrir nemendur, foreldra og starfsfólk skólans. Mikil og góð samstaða myndast á þessum dögum, nemendur taka virkan þátt á þessum dögum undir handleiðslu foreldra, kennara og starfsfólks. Með samveru og samstarfi nemenda, foreldra og starfsfólks verða samskiptin opnari og traust eykst á milli aðila. Vinnudagar sem óhefðbundnir námsdagar eru mikilvægir til að börnin okkar beri virðingu fyrir sjálfum sér, umhverfi sínu og húsakosti. Það má til gamans nefna að það er vinnuhelgi í Lækjarbotnum næstkomandi laugardag kl 10-15. Þangað mæta nemendur, foreldrar og kennarar og vinna sameiginlega að svæði skólans.

Mikilvægt að vekja athygli á því sem vel er gert

,,Við óskum vinningshöfum innilega til hamingju og þökkum kærlega fyrir þeirra starf í þágu skólasamfélagsins. Mikilvægt er að vekja athygli á því sem vel er gert í okkar samfélagi og ekki hvað síst nú þegar við þurfum að fást við ýmsar áskoranir meðal annars í foreldrastarfi þegar aðgangur foreldra að skólum hefur verið takmarkaður. Saman áorkum við miklu meiru en sundruð og Foreldraverðlaunin minna okkur á hverju samtakamátturinn fær áorkað,” segir Arnar Ævarsson framkvæmdastjóri Heimili og skóla.

Mynd: Frá vinstri: Eydís Heiða Njarðardóttir formaður dómnefndar, Eliza Reid forsetafrú, Hildur Margrétardóttir skólastjóri Waldorfskóla, Ásmundur Daði Einarsson mennta- og barnamálaráðherra, Sigrún Edda Eðvarðsdóttir formaður Heimilis og skóla. Mynd: MOTIV

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar