Ég held að þið séuð ótrúlega fyndnar, hvað finnst ykkur um það að þið gerið sýningu saman?

Una María Magnúsdóttir og Katla Einarsdóttir opna sýninguna Skilaboð á Hönnunarsafni Íslands í dag, föstudaginn 24. nóvember.

Með tilkomu nýrra miðla hafa samskipti á milli heimilisfólks breyst og þróast. Samtölum, símtölum og post-itmiðum fækkar og talblöðrur taka við. Í „heimsókninni” Skilaboð skoða grafísku hönnuðirnir Katla og Una María skilaboð á milli heimilisfólks á samskiptamiðlum og eru þeirra skondnu hliðar sérstaklega dregnar fram.

Hvernig kynntust þið? ,,Það er eiginlega ótrúlega mikil tilvilju að við skulum þekkjast, við höfum alveg hlegið að því að það lítur út fyrir að alheimurinn hafi viljað að leiðir okkar lægju saman. Við hittumst fyrst þegar Una var að læra grafíska hönnun í Gerrit Rietveld listaháskólanum í Amsterdam og Katla var þar í skiptinámi frá Listaháskóla Íslands í samskonar námi. Sumarið þar á eftir lágu leiðir okkar óvænt aftur saman þegar við unnum saman á Hönnunarsafninu. Við eigum í ákveðnu ástarsambandi við Hönnunarsafnið þar sem við finnum okkur alltaf þar saman aftur og aftur í allskonar spennandi verkefnum. Nýjasta verkefnið okkar er þessi sýning Skilaboð sem við erum ótrúlega spenntar fyrir,” segir Katla.

Hvað kom til að þið séuð að vinna þetta verkefni saman? ,,Þetta byrjaði allt á því að Sigríður forstöðumaður safnsins potaði í okkur þegar við vorum í sumarvinnunni, og sagði: „Ég held að þið séuð ótrúlega fyndnar, hvað finnst ykkur um það að þið gerið sýningu saman?“ Hún var byrjuð að pæla aðeins í því að skoða þetta efni, samskipti heimilisfólks á samfélagsmiðlum, en svo tókum við við keflinu og úr varð þessi sýning,” segir Una.
Hvernig virkar svona heimsókn á sýningu? ,,Núna er ein af sýningunum á Hönnunarsafninu föst sýning, og mun hún standa í fjögur ár. Þetta er sýningin Hönnunarsafnið sem heimili og er yfirlitssýning yfir muni úr safneign Hönnunar-safnsins sem hafa með heimilið að gera. Til þess að virkja sýninguna og hafa hana meira lifandi í þau fjögur ár sem hún mun standa verða reglulega settar inn í hana svokallaðar „heimsóknir” þar sem hönnuðir og listamenn setja upp tímabundnar sýningarheimsóknir inn á sýninguna Hönnunarsafnið sem heimili. Sýningin okkar Skilaboð er einmitt sú fyrsta af þessum „heimsóknum”, í desember mun Lilý Erla Adamsdóttir lífga upp á heimilið með veggteikningum í sinni „heimsókn” og svo koma fleiri eftir áramót,” segir Una.

Hvað voruð þið helst að skoða fyrir þessa sýningu? ,,Kjarninn að rannsókninni fyrir þetta verkefni var að skoða samskipti heimilismanna á samskiptamiðlum. Við byrjuðum á því að skoða þá spjallþræði sem við erum sjálfar í með okkar fjölskyldumeðlimum, og við skemmtum okkur alveg konunglega yfir því. Við köstuðum svo út aðeins stærra neti og fengum innsent efni frá fólki í kringum okkur. Við erum búnar að vera eins og kjánar í kasti yfir þessum orðsendingum, þetta er búið að vera mjög fyndið allt saman. Það kom ákveðinn tímapunktur þar sem við urðum hræddar um að við værum búnar að ríla hvor aðra upp og værum þær einu sem fyndist þetta í alvöru fyndið en við erum búnar að prufukeyra þetta dæmi og þessi skilaboð vekja mikla gleði. Það er líka svo skemmtilegt hvernig maður tengir við skilaboð frá öðrum og fólk hefur mikið farið að deila eigin skilaboðum og sögum með okkur. Maður sér það líka þá hvað það eru eiginlega allir að tala um það sama í fjölskylduspjöllunum sínum. Þetta er eitt skemmtilegasta verkefni sem við höfum unnið, það er svo gaman að sjá fólk kætast við að skoða það sem við höfum tekið saman og bara hlæja með okkur. Þessi sýning er fyndin, eða við vonum allavega að fólki muni finnast hún fyndin og að sem flestir geti tengt við hana. Fólkið sem á skilboðin er á öllum aldri, allt frá krökkum með takkasíma yfir í heldri borgara. Okkur hefur fundist gaman að skoða líka hvernig mis-munandi aldurshópar tjá sig í skilaboðum og höfum tekið eftir alls konar mynstrum. Ungt fólk tjáir sig með styttingum, án þess að nota sérstafi og notar orðaforða sem tilheyrir eiginlega internet-slangri, á meðan eldra fólk tjáir sig í formlegri textasem er málfræðilega réttur og vand- aður,” segir Katla.

Hvernig lítur sýningin út? ,,Skilaboðin verða sýnd á prenti, og lögð inn í föstu sýninguna á viðeigandi staði, þannig að skilaboðin sem hafa með kvöldmat að gera eru til dæmis í borðstofunni og skilaboðin sem tengjast fötum eru í fataherberginu og svoleiðis. Útlitið á prentefninu er svo innblásið af útliti á algengum samskiptamiðlum og pælingum um það hvernig maður túlkar eitthvað sem á heima í digitalheiminum á prenti. Við ákváðum að fara alla leið í hina áttina með það og prenta sýninguna með prentaðferð sem er mjög ólík því sem fólk al-mennt tengir við síma og samskiptamiðla, það er prentaðferðin risoprent, en hún er frekar gróf og verður lúkkið oft dálítið gamaldags. Okkur fannst það passa skemmtilega við letrið sem við völdum sem er frekar nýstárlegt og bláa litinn sem er mjög bjartur og hefur sterka tengingu við bláa liti sem maður sér mikið í tengsl- um við samfélagsmiðla. Svo er líka gaman að segja frá því að við höfum tekið hugmyndina aðeins lengra og erum búnar að gera gólfmottu, sem verður til sýnis á sýningunni og einnig til sölu í safnbúð Hönnunarsafnsins. Mottan er unnin upp úr útliti sýningarinnar og á henni er ein af setningunum úr skilaboðunum sem við höfum safnað saman. Mottan er orðagrín og frekar grilluð hugmynd sem við gátum ekki sleppt takinu af svo við gerðum hana bara en það verður bara hægt að skoða hana á safninu,” segir Katla og bætir við: ,,Við ætlum að opna sýninguna 24. nóvember með stuði og stemmningu á Hönnunarsafninu. Það verða drykkir á boðstólnum og plötu- snúður. Húsið opnar kl. 17:00 og allir velkomnir að koma og skemmta sér með okkur.”

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar