Byggðasamlagið Sorpa og urðun úrgangs

Í nýlegri grein í Garðapóstinum staðhæfir bæjarfulltrúinn Sara Dögg Svanhildardóttir, oddviti Garðabæjarlistans, að ekki hafi legið fyrir upplýsingar eða ákvarðanir varðandi útflutning á brennanlegum úrgangi hjá Sorpu. Ég vísa því algjörlega á bug enda hefur þetta verkefni verið samþykkt og kynnt rækilega fyrir öllum bæjar- og borgarfulltrúum á höfuðborgarsvæðinu á þessu kjörtímabili.

Urðun lífræns- og brennanlegs sorps hætt

Samkvæmt lögum ber sveitarfélag ábyrgð á söfnun heimilisúrgangs og afsetningu þess. Undanfarin misseri hefur töluvert verið fjallað um Sorpu þar sem unnið er að heildarlausn úrgangsmála á höfuðborgarsvæðinu og hafa miklar breytingar verið innleiddar til að auka endurvinnslu og endurnýtingu.

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sem eiga Sorpu gerðu samkomulag árið 2013 um að hætta urðun lífræns- og brennanlegs sorps árið 2020 . Árið 2020 var gerður viðauki við samkomulagið þar sem urðun var framlengd með takmörkunum til ársins 2023. En þá skal allri urðun hætt í Álfsnesi. Þessi viðauki var kynntur og samþykktur í öllum bæjarráðum og borgarráði. Í þessu samkomulagi kemur fram að hefja þurfi útflutning á brennanlegum úrgangi. Að hætta að urða sorp er stærsta umhverfisverkefni sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, með því er komið í veg fyrir losun gróðurhúsalofttegunda sem nemur um 90 þúsund tonnum af koltvísýringi árlega.
Eins og áður sagði hefur þetta stóra og metnaðarfulla verkefni verið samþykkt og kynnt rækilega fyrir öllum bæjar- og borgarfulltrúum á þessu kjörtímabili, meðal annars með sameiginlegum fundum í júní 2020, janúar 2021 og í maí 2021. Sú ákvörðun að hætta að urða allan lífrænan og brennanlegan úrgang þýðir að flytja þarf út brennanlegan úrgang tímabundið. Það hefur verið ljóst allt frá árinu 2020 og áætlun um magn úrgangs legið fyrir. Kostnaður vegna heimilisúrgangs mun hækka við útflutning. Samkvæmt lögum verður Sorpa að innheimta raunkostnað af meðhöndlun úrgangs.

Undirbúningur að útflutningi hefur verið í hefðbundnum farvegi og lögum samkvæmt er verkefnið boðið út á evrópska efnahagssvæðinu.

Gas- og jarðgerðarstöðin (Gaja)

Kostnaðaráætlun vegna byggingu GAJA, gas- og jarðgerðarstöð Sorpu, fór fram úr áætlun og stjórn SORPU fékk innri endurskoðun Reykjavíkurborgar til að framkvæma rannsókn á verkefninu og skila skýrslu. Þar hafa allar upplýsingar legið fyrir.

Gaja hefur verið starfrækt í um það bil ár og má segja að innleiðingarferlinu þar sé nú lokið. Þar hafa komið upp byrjunarörðugleikar sem í flestum tilfellum hafa verið leystir.
Gengið hefur vel að vinna metan úr Gaju og sama má segja um moltu.

Heimilisúrgangur er forflokkaður í Móttöku- og flokkunarstöðinni í Gufunesi með búnaði sem þar hefur verið settur upp og næst milli 85 og 90% árangur í flokkun.

En komið hefur í ljós að það er ekki nóg, moltan verður ekki nógu hrein og því nauðsynlegt að sérsöfnun á lífrænum úrgangi hefjist sem fyrst.

Samræmd flokkun á höfuðborgarsvæðinu

Sveitarfélögin hafa unnið að því á undanförnu misseri að koma á samræmdri flokkun á höfuðborgarsvæðinu sem vonast er til að komi til framkvæmda fljótlega á næsta ári.
Það er líka stórt umhverfisverkefni þar sem öll heimili koma að því að flokka allan úrgang sem berst frá heimili.

Þegar urðun hættir þá má segja að „létta ljúfa leiðin að henda öllu í holu og moka yfir“ sé ekki lengur í boði. En tækifærin eru til staðar með aukinni flokkun heimilanna sem skilar minni úrgangi í blandaðan farveg og þá um leið meira til endurnýtingar sem mun minnka kostnað.

Jóna Sæmundsdóttir, bæjarfulltrúi og fulltrúi Garðabæjar í stjórn Sorpu.

                        

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar