Hversu oft höfum við heyrt orðin: „Við lifum við nýjan veruleika“? Heimsfaraldurinn gaf svo sannarlega tilefni til að nota þau. Við höfum lært að breyta hegðun okkar, lært að umgangast hvort annað á nýjan máta. Þessi nýi veruleiki hefur verið fjölbreyttur og það réðst ekki síst af því hvar í heiminum við bjuggum þegar hann skall á okkur. Sum okkar þurftum að loka okkur af, ein inni í íbúðum okkar, svo vikum skiptir.
En heimsfaraldurinn er ekki eini nýi veruleikinn sem við þurfum að aðlagast. Heimurinn er nefnilega að breytast hraðar en nokkur sinni fyrr. Tæknin er að gjörbylta lífi okkar og því hvernig við vinnum. Bætt fjarskipti og frelsið til að vinna hvaðan sem er opnar upp nýja veruleika fyrir dreifðari byggðir. Eftir að hafa hunsað umhverfið og loftslagið í áratugi þá er Móðir Jörð að minna okkur á með harkalegum hætti að við getum ekki haldið sömu mengandi hegðun áfram. Ferðalög milli landa eru orðin mun auðveldari og blöndun samfélaga hefur stóraukist, sem aftur leiðir til kröfunnar um fjölmenningarleg samfélög.
Allt eru þetta nýir veruleikar sem við þurfum að aðlagast. Sumir þessir veruleikar munu orsaka krisur ef við búum okkur ekki nægilega vel undir þá. Sumir þessir veruleikar munu taka ár eða áratugi að þróast á meðan aðrir skella á okkur mun hraðar en við gerðum nokkurn tímann ráð fyrir.
Ný tól, ný hugsun
Til þess að búa okkur betur undir að takast á við þessa nýju veruleika þurfum við fólk við stjórnvölin sem er ekki fast í veruleika fortíðarinnar. Sem heldur að aðferðirnar og tólin til þess að takast á við þá séu þegar til í verkfærakistu fortíðarinnar. Sannleikurinn er sá að við þurfum fólk sem að skilur þessar öru breytingar og þau tól og aðferðir sem virka á vandamál nútímans og vandamál framtíðarinnar.
Þegar þið hlustið á stjórnmálamenn tala nú í aðdraganda kosningana, hlustið eftir því hvaða „tíð“ þeir nota. Tala þeir um loftslagsmálin sem úrlausnarefni framtíðar eða nútímans, eins og við Píratar? Horfa kosningastefnurnar þeirra til næsta kjörtímabils eða næstu áratuga, eins og okkar Píratar? Tala þeir í innantómum slagorðum eins og “lækkum skatta” eða eru þeir með aðgerðaáætlanir sem taka á loftslagsmálum, sjálfvirknivæðingu og fjórðu iðnbyltingunni, eins og við Píratar?
Við þurfum nefnilega nýjan veruleika. Veruleika þar sem stjórnmálafólk hugsar til framtíðar. Veruleika þar sem við lifum ekki í viðjum fortíðarinnar, heldur tökumst á við áskoranir og krísur nútímans með alla hina nýju veruleika að leiðarljósi. Við þurfum stjórnmálafólk framtíðarinnar – ekkert kjaftæði.
Gísli Rafn Ólafsson
Höfundur skipar 2. sæti framboðslista Pírata í Suðvesturkjördæmi