Almar heldur flakkinu áfram

„Þetta hefur verið góð brýning en það sem gleður mig mest er hversu áhugasamir íbúar eru um Garðabæ, um að við gerum vel og sinnum bæjarfélaginu,“ segir Almar Guðmundsson bæjarstjóri sem klárar hringinn á því sem hann kallar skrifborðsflakki um bæinn í næstu viku. Almar hefur boðið íbúum að setjast hjá sér og ræða um þjónustuna í bænum. Þegar þetta er skrifað hefur hann rætt við íbúana og komið sér fyrir í sundlauginni í Ásgarði, sundlauginni á Álftanesi, í Urriðaholtsskóla og á kaffihúsinu Dæinn. 

„Ég hugsa þetta sem stutt samtöl og þó ég muni eflaust ekki geta leyst einstök mál á staðnum þá langar mig að heyra hvað fólki finnst um heildarmyndina,“ segir Almar og nefnir dæmi. „Samtölin eru mjög fjölbreytt, hvort sem það er deiliskipulag í Urriðaholti, snjómoksturinn sem fær mikið hrós, litlar ábendingar um hluti sem betur mætti fara eða leikskólamálin. Svo er allt hitt!  Sumt er stórt, annað er smátt, sumt er gott en annað er flóknara. Ég er þakklátur fyrir allar ábendingar og skrái þær hjá mér og skoða með okkar fólki,“ segir Almar sem hvetur fólk til að setjast hjá sér og fá sér kaffibolla og spjalla.

Skrifborðsflakki Almars lýkur svo á þriðjudaginn, 12. mars í Ásgarðslaug, en þar verður hann á milli kl. 16 og 18.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar