Breytingar á póstþjónustunni í Garðabæ

Á síðustu árum hefur póstþjónusta á Íslandi tekið stórfelldum breytingum. Frá árinu 2010 hefur fjöldi bréfasendinga dregist saman um 74% en á sama tíma hafa pakkasendingar margfaldast. Pósturinn leggur kapp á að aðlagast hratt og örugglega og kappkostar að þróa þjónustu sína í takt við breyttar þarfir og kröfur neytenda.

Á næstu misserum hyggst Pósturinn gera breytingar á póstþjónustu, m.a. í Garðabæ. Þar stendur til að loka pósthúsinu en leggja þess í stað meiri þunga á aðrar þjónustulausnir.

Kjartan Flosason, forstöðumaður pósthúsa hjá Póstinum, segir lokanir alltaf erfiðar: „Ég er svo gott sem fæddur og uppalinn á pósthúsi; ólst upp á pósthúsinu á Bíldudal og svo fluttumst við fjölskyldan á efri hæð pósthússins á Búðardal. Ég hóf svo formlega störf hjá Póstinum fyrir tvítugt og hef unnið þar nær alla tíð síðan. Þess vegna skil ég vel að svona lokanir séu sárar enda snerta þær svo marga,“ segir Kjartan og bætir við: „Á sama tíma gera breyttir tímar kröfu um breytta þjónustu sem við verðum víst að laga okkur að.“

Verulega hefur dregið úr eftirspurn eftir afgreiðsluþjónustu pósthúsa á sama tíma og notkun annarra þjónustulausna fer sívaxandi. Viðskiptavinir gera auknar kröfur um sveigjanleika og einfaldar sjálfsafgreiðslulausnir. Þessu ákalli hefur Pósturinn svarað með nýjungum á borð við Póstbox: „Póstboxin okkar hafa alveg slegið í gegn, enda er þar bæði hægt að sækja og senda, hvenær sem viðskiptavinum hentar. Nú eru okkar ánægðustu viðskiptavinir einmitt þeir sem nota Póstbox. Um þessar mundir leitum við leiða til að fjölga Póstboxum á svæðinu,“ segir Kjartan. „Þau fyrirtæki sem eru í þjónustu hjá okkur hafa líka notið góðs af þessari nýbreytni og fyrirtækjaþjónustan verður sívinsælli. Við bjóðum nú þegar upp á að sækja og senda vörur heim að dyrum fyrirtækja og nú geta fyrirtækin boðið sínum viðskiptavinum upp á að sækja vörur í Póstbox, hvenær sem þeim hentar. Þjónustukannanir sýna mikla ánægju með þessa viðbót,“ segir Kjartan.

Samspil fjölbreyttra þjónustulausna mun sjá neytendum fyrir póstþjónustu í takt við breyttar áherslur: „Pósturinn er ekki að fara neitt, enda ætlum við okkur að sjálfsögðu að halda áfram að veita framúrskarandi þjónustu. Auk Póstboxa og Pakkaporta munu bréfberar halda áfram að sjá um dreifingu. Þeir sem það kjósa geta svo að sjálfsögðu óskað eftir heimsendingu og okkar besta fólk klárt á útkeyrsluvaktinni til að afhenda pakka heim að dyrum 6 daga vikunnar. Fyrir þá sem eru á ferðinni úr Garðabæ, og vilja nýta sér afgreiðslu á pósthúsi, er svo stutt í pósthúsin í Hafnarfirði, Kópavogi eða í Reykjavík,“ segir Kjartan að lokum.

Með einföldum hætti geta viðskiptavinir skráð sig inn í Póst-appið eða Mínar síður á vef Póstsins. Þar er hægt að stjórna afhendingarvali, skrá sjálfvirkar greiðslur til að senda pakka með Póstboxi og nýta sér ýmsar aðrar lausnir sem stytta bið, lækka gjöld og gera þjónustuna enn þægilegri.

Á posturinn.is má finna ítarefni og upplýsingar um fjölbreyttar þjónustulausnir Póstsins. Auk þess er alltaf velkomið að hafa samband við þjónustuver í síma 580 1000.

Mynd:Kjartan Flosason, forstöðumaður pósthúsa hjá Póstinum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar