Áslaug Hulda þiggur ekki 2. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins

Áslaug Hulda Jónsdóttir, sem hafnaði í öðru sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ, ætlar ekki að þiggja sætið, en hún sóttist eftir því að leiða listann áfram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins 5. mars sl. Ekki munaði nema 41 atkvæði á Áslaugu Huldu og Almari Guðmundssyni, í fyrsta sætið.

Áslaug Hulda, sem er formaður bæjarráðs Garðabæjar, segir í tilkynningu sem hún sendi frá sér í dag að öflugur hópur fólks hafi náð góðum árangri í prófkjörinu og framboðslistinn fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar verði sterkur. 

„Úrslitin voru hins vegar ekki þau sem ég hafði vonast eftir hvað mig varðar þótt litlu hafi munað. Framundan eru önnur verkefni sem ég hyggst einbeita mér að og um leið skapa rými fyrir nýtt fólk á listanum. Ég hef því ákveðið að þiggja ekki sæti á listanum. Garðabær verður áfram bærinn minn og Sjálfstæðisflokkurinn verður áfram flokkurinn minn,“ segir Áslaug Hulda sem ætlar að starfa áfram með Sjálfstæðisflokknum og halda áfram að hafa skoðun á sveitarstjórnarmálum.

Það verður mikill missir af Áslaugu Huldu fyrir Sjálfstæðisflokkinn, en hún er afar reynslumikill sveitarstjórnarmaður. Hún tók fyrst sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins árið 1994 og í sveitarstjórnarkosningunum 2010 skipaði hún svo 1. sæti á framboðslista flokksins og hefur gert allar götur síðan. Hún hefur gegnt embætti forseta bæjarstjórnar og verið formaður bæjarráðs Garðabæjar undanfarin ár.

Reikna má með að Stella Stefánsdóttir varabæjarfulltrúi, sem endaði í 9. sæti í prófkjörinu, færist upp í 8. sæti og aðrir frambjóðendur fyrir utan Almar færist upp um eitt sæti, en verið er að leggja lokahönd á listann sem verður lagður fyrir fulltrúaráð flokksins á fimmtudaginn.

Sjálfstæðisflokkurinn er í meirihluta í Garðabæ með 8 bæjarfulltrúa af 11 í bæjarstjórn.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar