Í haust kynnti Garðabær breytingar á starfsemi leikskóla bæjarins. Breytingarnar eru gerðar með það að markmiði að bæta enn frekar skipulag og starfsumhverfi leikskóla þannig að tryggja megi stöðugleika í starfinu, farsæld barna og vellíðan starfsfólks. Þegar hafa farið fram nokkrir foreldrafundir þar sem þessar breytingar voru kynntar.
Liður í þessu eru breytingar á opnunartímum leikskólanna auk þess sem dvalartími verður að hámarki 40 klukkustundir á viku. Foreldrar/forráðafólk þurfa að skoða hvernig þau vilja hafa daglega viðveru barna sinna fyrir mánuðinn og skrá það inn í nýtt leikskólakerfi „Vala – leikskóli“ sem tekið verður í notkun 15. febrúar n.k. Nákvæmar leiðbeiningar um skráningu í Völu koma í byrjun febrúar.
Breytingar á dvalarsamningum
Leikskólastjórar munu afhenda foreldrum nýja dvalarsamninga til undirritunar í leikskólunum fyrir mánaðarmótin febrúar-mars og eldri samningum verður sagt upp. Allir foreldrar fá nýjan dvalarsamning jafnvel í þeim tilfellum þar sem dvalartími barna breytist lítið.
Breytingar á dvalartíma
Foreldrar/forráðafólk þurfa að skoða hvernig dvalartíma barna verður háttað– það er hvenær börnin mæta að morgni og hvenær þau ljúka leikskóladeginum. Þetta getur verið breytilegt.
Það sem þarf að hafa í huga varðandi skráningar áður en Vala verður tekin í gagnið er að:
- Skráningar á dvalartíma í nýju kerfi fara fram á tímabilinu 15.-20. febrúar.
- Breytingarnar taka gildi 1. mars 2024 samkvæmt nýrri gjaldskrá.
- Foreldrar/forráðafólk þurfa að hafa í huga merkja við í Völu hvort barnið verður til kl. 14 í leikskólanum á föstudögum eða lengur. Þetta er í samræmi við breyttar áherslur í starfsumhverfi leikskólanna.
- Með þessu breytta fyrirkomulagi er hægt að hafa dvalartíma mismunandi langan innan vikunnar og á milli vikna.
- Hámarks dvalartími er 40 stundir á viku og lágmarks dvalartími er 20 tímar (meðaltal fjögurra vikna).
Dæmi:
- Ef barn dvelur 37 klst. á viku þá getur skráningin verið 7 tímar á mánudögum, 8 tímar á þriðjudögum, 8 tímar á miðvikudögum, 8 tímar á fimmtudögum og 6 tímar á föstudögum.
- Ef barn dvelur 40 klst. á viku í leikskóla getur skráning verið 9 klukkustundir fyrir fjóra daga og fjórir tímar fimmta dag vikunnar.
- Aðra vikuna getur barn dvalið 42 klukkustundir en þá næstu 38 klukkustundir.
- Leikskólar í Garðabæ koma til með að loka kl. 16:30 mánudaga til fimmtudaga og kl. 16 á föstudögum frá 1. mars.
- Fyrir 20. febrúar 2024 þarf að vera búið að láta vita hvernig dvalartíma barna verður háttað í marsmánuði.
- Ef breytingar verða á dvalartíma barna á milli mánaða þarf að gera breytingu fyrir 20. hvers mánaðar en að öðrum kosti flyst hún á milli mánaða óbreytt.
- Aðeins þarf að skrá breytingar milli mánaða.
Skóladagatal
Breytingar á skóladagatali 2023-2024 verða kynntar í janúar. Helstu breytingar eru:
- Leikskólar í Garðabæ loka í Dymbilvikunni, en það þýðir að dagana 25.-29. mars verða leikskólar í Garðabæ lokaðir.
- Skipulagsdagur leikskóla verður 23. Febrúar. Þá eru allir leikskólar lokaðir.
- Gert er ráð fyrir því að leikskólabörn séu í leyfi 19.-22. febrúar þegar vetrarfrí er í grunnskólum. Þeir foreldrar sem ætla að nýta þjónustuna þurfa að skrá börn í dvöl í samráði við leikskólastjóra. Leikskólagjöld eru felld niður ef börnin eru í fríi alla dagana
Garðabær þakkar fyrir skilninginn á meðan innleiðingin á þessu nýja kerfi gengur í garð og vonum að þessar breytingar muni styrkja gott leikskólaumhverfi enn frekar.
Ef einhverjar spurninga vakna hafið þá samband við leikskólastjóra á ykkar leikskóla.
Opnunartími leikskóla Garðabæjar frá 1. mars 2024:
Mánudagur | Þriðjudagur | Miðvikudagur | Fimmtudagur | Föstudagur |
---|---|---|---|---|
7.30-16.30 | 7.30-16.30 | 7.30-16.30 | 7.30-16.30 | 7:30-16.00 |
Forsíðumynd: Skráningar á dvalartíma í nýju kerfi fara fram 15.-20. febrúar. Myndina tók Alexander Gray