Börn hvött til að setja sér lestrarmarkmið

Sumarlestur, lestrarátak Bókasafns Garðabæjar hefur farið virkilega vel af stað, en það hófst 28.maí og las þá Bjarni Fritzson úr hinum vinsælu bókum sínum. Hátt á annað hundrað börn hafa nú þegar skráð sig og er mjög ánægjulegt að sjá hve áhugasöm þau eru um þátttöku í átakinu og hve staðráðin þau eru í að lesa mikið í sumar til að vera í góðu lestrarformi í haust.

Börnin eru hvött til að setja sér lestrarmarkmið, standa við það og hafa gaman um leið. Þau geta komið á bókasafnið og fengið límmiða í lestrardagbókina sína fyrir hverja lesna bók og fyllt út umsagnarmiða til að setja í lukkukassann. Lestrarhestur vikunnar verður síðan dreginn út hvern föstudag í sumar til 12.ágúst og fær hinn heppni bók í verðlaun.

Þema Sumarlesturs í ár er sjávardýr í undirdjúpunum og hvetur hákarlinn á bókasafninu, hann Bauni bókó, alla krakka til að dýfa sér á bólakaf í bókaflóð og sækja sér skemmtilegar bækur á bókasafnið því Sumarlestur er hafsjór af fróðleik og fjöri. Leyfilegt er að lesa hvað sem er, hvaðan sem er, því allur lestur er góður lestur. Lesum allt, alltaf, alls staðar.

Hægt er að skrá sig í lestrarátakið í allt sumar. Sumarlestri lýkur svo með uppskeruhátíð laugardaginn 20.ágúst og þá munu allir virkir þátttakendur fá glaðning og þrír lestrarhestar verða dregnir úr umsagnarmiðum sumarsins. Gunnar Helgason rithöfundur kemur og les úr bráðskemmtilegri nýrri bók sinni. Stígum lestrarölduna og lesum saman í sumar.

Rósa Þóra Magnúsdóttir,
Bókasafn Garðabæjar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar