Íslandsmeistari skiptir yfir í Álftanes

Pálmi Geir Jónsson er genginn til liðs við Álftanes og kemur frá Íslandsmeisturum Vals. Pálmi Geir er reynslumikill leikmaður sem ólst upp á Sauðárkróki. Pálmi, sem leikur í stöðu kraftframherja og miðherja, hóf meistaraflokksferil sinn með liði Tindastóls er hann var 17 ára. Síðan þá hefur hann leikið með Blikum, ÍR, Þór Akureyri og Hamri, auk Vals hvar hann lék á síðasta tímabili. 

Pálmi hefur þó nokkra reynslu af 1. deildinni. Hann var mikilvægur hlekkur í liði Þórs Akureyri sem vann deildina 2018 – 2019. Hann var þá með rúm 15 stig og tæp sjö fráköst að meðaltali í leik. Hann var í 17. sæti yfir þá leikmenn deildarinnar sem skiluðu flestum framlagspunktum og var í fimmta sæti yfir þá sem komu best út úr hinni svokölluðu +/- tölfræði. 

Þessi hávaxni Skagfirðingur var einnig hluti af sterku liði Hamars sem gerði harða atlögu að því að fara upp um deild. Liðið endaði í öðru sæti deildarinnar tvö ár í röð, þar á meðal á leiktíðinni sem þurfti að slaufa vegna Covid-faraldursins. Þá fór aðeins eitt lið upp úr deildinni og var sú ákvörðun KKÍ gagnrýnd harðlega. Með Hamri skoraði Pálmi yfir 11 stig í leik og tók rúm sex fráköst í leik. Tölfræði hans varð betri í úrslitakeppninni, sem sýnir hversu sterkur Pálmi Geir er á ögurstundu. Hann skoraði rúm 13 stig og tók rúm átta fráköst í leik í úrslitakeppninni á þar síðustu leiktíð. 

Hjá Hamri lék Pálmi Geir með Ragnari Jósef Ragnarssyni, skotbakverði Álftaness. Pálmi og Ragnar þekkjast vel og var það hluti af ástæðunni fyrir því að Pálmi vildi skipta yfir í Álftanes. 

Pálmi var hluti af Íslandsmeistaraliði Vals. Hann kom til liðsins frá Leikni í 2. deildinni á lokadegi félagsskiptagluggans í fyrra. Pálmi hóf tímabilið með Hamri, skipti yfir í Leikni og þaðan í Val. Þannig að honum tókst að spila í þremur efstu deildum íslensks körfubolta á síðustu leiktíð. Bestu leikur Pálma Geirs með Valsmönnum var gegn Þór Akureyri. Á tæpum 27 mínútum skoraði hann sex stig og tók átta fráköst, spilaði feykilega vel og hjálpaði sínu liði að sækja sigur. 

„Við gleðjumst virkilega yfir því að Pálmi sé kominn til okkar. Hann þekkir umhverfið í deildinni vel og passar vel inn í leikmannahópinn, hvort sem litið sé til hæfileika hans í körfubolta eða til karaktersins,“ segir Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftaness. 

Pálmi Geir segist spenntur að vera kominn í lið Álftaness: „Hér er verið að byggja upp flott prógramm og ég er mjög ánægður að Kjartan og stjórnin vildi fá mig með til að taka þátt í þeirri vegferð. Eins er leikmannahópurinn hér stútfullur af snillingum svo ég er mjög spenntur fyrir vetrinum.“ 

Mynd: Palmi Geir ásamt Kjartan Atla Kjartanssyni, þjálfara Álftaness

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar