Dúi Þór og Snjólfur í Álftanes

Leikstjórnandinn Dúi Þór Jónsson og Snjólfur Marel Stefánsson er gengnir til liðs við Álftanes. Dúi kemur frá liði Þórs frá Akureyri sem var í Subway-deildinni á síðustu leiktíð. Dúi átti glimrandi tímabil, var í öðru sæti yfir þá leikmenn sem gáfu flestar stoðsendingar í deildinni, en hann gaf 7,6 stoðsendingar í leik og skoraði að auki um 15 stig í leik. Dúi var valinn í 26 manna landsliðshóp Íslands sem æfði í síðustu viku. Hluti hópsins fór svo áfram í lokahóp landsliðsins fyrir mikilvæga leiki í undankeppni HM. 

Dúi Þór er uppalinn Stjörnumaður. Hann var afar sigursæll í yngri flokkunum með félaginu og steig svo sín fyrstu skref í meistaraflokki með uppeldisfélaginu. Fyrir síðustu leiktíð færði hann sig svo norður á Akureyri. 

Samstarf Stjörnunnar og Álftaness skilaði því að Dúi Þór lék með liði Álftanes á venslasamningi tímabilið 2019 – 2020. Hann skoraði þá tæp 18 stig, tók rúmlega sex fráköst og gaf rúmar sex stoðsendingar í leik, en Dúi var 18 ára það leiktímabil. 

Dúi hefur þetta að segja um komandi verkefni með Álftanesi: „Það er gott að spila á nesinu og við erum með best mannaða hópinn í deildinni að mínu mati. Ég er virkilega spenntur að spila stórt hlutverk í liði sem ætlar sér stóra hluti á næstu árum.“ 

Í yngri flokkum Stjörnunnar var Dúi um árabil þjálfaður af Kjartani Atla Kjartanssyni sem nú stýrir liði Álftaness. „Við erum virkilega hamingjusöm á Álftanesi að hafa fengið Dúa til liðs við okkur. Ég hef alltaf fylgst vel með ferli hans og veit að Dúi mun koma inn í deildina af miklum krafti. Mér finnst það virkilega skemmtilegt að verða meistaraflokksþjálfari leikmanns sem ég þjálfaði þegar hann var 10 ára. Ég hef þekkt nokkra í leikmannahópnum okkar ansi lengi og það gefur starfinu aukið vægi. Í ofanálag er leikmannahópurinn okkar virkilega samstilltur, þetta er eins og góður vinahópur, þannig að væntumþykjan verður alls ráðandi í vetur,“ segir Kjartan. 

Snjólfur kemur frá Njarðvík

Snjólfur Marel Stefánsson hefur einnig skrifað undir samning við Álftanes. Snjólfur kemur frá Njarðvík, hvar hans körfuboltauppeldi fór að mestu fram en Snjólfur er ættaður af austurlandi eins og svo margir sem tengjast körfuboltanum á nesinu. 

Snjólfur hefur heldur betur sannað sig í 1. deildinni. Tímabilið 2018 – 2019 var hann á venslasamning hjá Selfyssingum og átti þá glimrandi tímabil. Hann skoraði 15,2 stig, tók 8,2 fráköst og stal 1,2 boltum að meðaltali í leik. Hann var valinn í úrvalslið 1. deildar það tímabil. 

Snjólfur hélt til Bandaríkjanna og lék í háskólaboltanum þar í landi í eitt tímabil. Hann kom svo heim og samdi aftur við uppeldisfélag sitt Njarðvík. Síðasta tímabil gekk þó ekki nægilega vel hjá Snjólfi, hann meiddist á miðju tímabili og missti úr um þrjá mánuði. Þegar hann sneri aftur var farið að líða að úrslitakeppni og breyttist hlutverk hans við meiðslin. Hann lék átta leiki fyrir Njarðvík og var í fínu hlutverki í byrjun tímabils, fyrir meiðslin. 

Snjólfur er margreyndur með yngri landsliðum Íslands, en hann var lykilmaður í u18 og u20 ára landsliðinu. 

Hann þykir vera einstaklega góður varnarmaður og getur dekkað leikmenn í mismunandi leikstöðum. Hann er orkumikill og sterkur frákastari, gefur liðum sínum oft og iðulega fleiri tækifæri í sókn með því að næla í sóknarfráköst upp úr engu. Hann er sömuleiðis góður skorari, en hann var með 57% skotnýtingu þegar hann lék síðast í 1. deild. 

„Ég hef lengi fylgst með Snjólfi og finnst hann virkilega góður leikmaður. Hann hefur marga eiginleika sem er erfitt að kenna. Ég hlakka mjög til þess að sjá hann í bláu og ég er viss um að áhorfendur í Forsetahöllinni muni njóta þess að fylgjast með honum á parketinu,“ segir Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftaness. 

Snjólfur er annar leikmaðurinn sem semur við Álftanes í sumar, en fyrir skemmstu var það tilkynnt að Pálmi Geir Jónsson væri kominn til liðs við félagið. Báðir þessir leikmenn eiga það sameiginlegt að koma úr liðum sem unnu titla á síðustu leiktíð. Njarðvíkingar urðu bikarmeistarar fyrir síðustu leiktíð og unnu deildarmeistaratitilinn og Pálmi Geir varð Íslandsmeistari. Báðir leikmenn eiga það líka sameiginlegt að hafa verið með allra bestu leikmönnum 1. deildar þegar þeir hafa leikið í deildinni. Óhætt er að segja að spenna ríki fyrir því að fá þessa tvo leikmenn á nesið. 

Auk Dúa og Snjólfs hefur Pálmi Geir Jónsson (sem kom frá Val) komið til félagsins á síðustu dögum. „Stjórn körfuknattleiksdeildarinnar er algjörlega frábær og er erfitt að koma því í orð hversu gott það er fyrir þjálfara að hafa svona öflugt teymi með sér í leikmannamálum,“ bætir Kjartan Atli við. 

Mynd: Dúi ásamt Kjartani þjálfara

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar