Betri Garðabær

Ég tók að mér það verkefni að útbúa spurningar um samráðsverkefnið “Betri Garðabær” og mig langar til þess að segja ykkur aðeins betur frá því hvað þetta framtak snýst um. Ég byrjaði á því að taka viðtöl við nokkra af starfsmönnum bæjarskrifstofunnar sem komu að því verkefni og skrifaði svör þeirra niður á blað. Út frá viðtölunum vann ég síðan þessa grein og er markmið mitt að upplýsa fólk betur um verkefnið “Betri Garðabær”, svara þeim spurningum sem eflaust brenna á vörum margra og fá betri innsýn í þetta frábæra framtak.

Betri Garðabær er samráðsverkefni íbúa og stjórnsýslu um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri framkvæmda í nærumhverfi íbúa í Garðabæ. Verkefnið var sett fyrst á laggirnar árið 2019 svo þetta var í annað sinn sem ráðist var í verkefnið. Verkefnið skiptist í nokkra þætti: í hugmyndasöfnun þar sem íbúar geta sett fram sínar hugmyndir um verkefni inn á sérstakan hugmyndasöfnunarvef, sérstakur matshópur skipaður starfsmönnum bæjarins fer yfir hugmyndirnar og svo er ákveðnum fjölda hugmynda stillt upp í rafrænar kosningar þar sem íbúar kjósa sín uppáhalds verkefni áfram og hugmyndirnar sem hljóta kosningu fara svo í framkvæmd.

Eflaust veltu margir fyrir sér hver kom með þessar hugmyndir sem notast var við í kosningunum, en það gátu allir sem vildu sett inn hugmynd á hugmyndavefinn. Matshópur skipaður starfsmönnum tækni- og umhverfissviðs Garðabæjar fór yfir hugmyndirnar, mat þær og leitaði til annarra sviða og ráðgjafa. Hugmyndir voru metnar út frá þeim skilyrðum sem sett voru í upphafi og að lokum stóðu eftir 23 hugmyndir sem stillt var upp á rafrænan kjörseðil. Ekkert aldurstakmark var sett til þess að mega senda inn hugmynd en það þurfti þó rafræn skilríki til að skrá inn hugmynd á hugmyndavefinn. Tvær hugmyndir sem voru kosnar áfram komu t.d. frá 11 ára nemendum sem sendu hugmyndirnar inn með aðstoð kennara síns. Hugmyndasöfnunin fór fram dagana 17. febrúar – 8. mars 2021 og alls söfnuðust hátt í 250 hugmyndir frá íbúum Garðabæjar. 

Hugmyndin af þessu verkefni kom frá Sigríði Huldu Jónsdóttur, bæjarfulltrúa og formanns skólanefndar grunnskóla og Almari Guðmundssyni, bæjarfulltrúa og formanns fjölskylduráðs, en þau komu fram með tillögu fyrir bæjarstjórn árið 2018 þess efnis að farið væri í slíkt verkefni í Garðabæ. Mörg sveitarfélög á Íslandi hafa verið með sambærileg verkefni, þar má nefna Reykjavíkurborg með lýðræðisverkefnið “Hverfið okkar”, í Kópavogi heitir það “Okkar Kópavogur” og einnig hafa Seltjarnarnes og Mosfellsbær verið með verkefni af þessu tagi.

Þetta framtak hefur gengið vel síðustu ár og hafa verkefnin vakið mikla athygli á meðal bæjarbúa en yfir 1300 einstaklingar skráðu sig inn á hugmyndasöfnunarvefinn þar sem hægt var að setja inn hugmynd, skoða, líka við eða skrifa rök með eða á móti hugmyndum annarra. Búast má við því að verkefnin sem kosin voru áfram verði öll framkvæmd á næstu tveimur árum en fyrstu verkefnin verða framkvæmd strax í sumar. Það mætti í raun segja að íbúar sjálfir fái þarna tækifæri til að gera Garðabæ að betri bæ með því að koma hugmyndum sínum á framfæri og forgangsraða þeim með því að taka þátt í íbúakosningunni. Áætlað er að öllum framkvæmdum verði lokið haustið 2022.

Að lokum er vert að taka fram að á vef Garðabæjar, gardabaer.is, er hægt að lesa nánar um verkefnið og sjá lista yfir þau verkefni sem voru kosin áfram. Vonandi njóta bæjarbúar þeirra hugmynda sem þeir hafa kosið áfram til þess að efla og bæta nærumhverfi okkar allra í Garðabæ.

Alexander Eðvald Magnússon

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar