Ég var á gangi í miðbæ Reykjavíkur um daginn og hitti þar kunningja. Við heilsuðumst og hann spurði mig frétta, bara eins og gengur. Ég segi honum að ég hafi verið að festa kaup á íbúð á Kársnesinu, gamla hverfinu okkar sem við ólumst bæði upp í. Viðbrögðin voru nú ekki alveg þau sem ég bjóst við; hann hváði og sagði: Af hverju Kópavogur? Þú veist að það gerist ekki neitt í Kópavoginum!
Ég varð auðvitað hissa á þessum viðbrögðum, enda fékk hann sama Kópavogsuppeldi og ég, en er fluttur burt. Ég náði engu að svara, umlaði eitthvað en gekk svo mína leið.
Það var ekki fyrr en ég var komin langt í burtu að ég var loks tilbúin með svarið, hver þekkir þetta ekki. Maður er með fullkomið svarþegar tækifærið er runnið hjá.
Nú svarið er náttúrulega Borgarlínan!
Það verður frábært að búa innan þess svæðis sem borgarlínan mun þjóna. Það er svo þægilegt að búa við góðar almenningssamgöngur. Strætó sem bara kemur. Þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að hafa misst af vagni því að næsti kemur rétt bráðum.
Ég hef sjálf búið nokkuð víða; í Kaupmannahöfn, Spáni og nú síðast í Vesturbænum í Reykjavík. Ég hef vanist því að hafa allt við höndina, að hafa alla þjónustu sem ég sæki í göngu- eða hjólafæri og búa við skjótar almenningssamgöngur. Ég lifði fullkomlega bíllausum lífsstíl í 13 ár, og kunni því vel.
Ég er mjög spennt fyrir uppbyggingunni á Kársnesinu og ég heyri það sama í mínu umhverfi, straumurinn liggur á Kársnesið.
Lykilinn að þessu öllu er Borgarlínan, valkostur fyrir fólk á öllum aldri.
Við þurfum að minnka notkun einkabílsins, þetta vitum við, og vorum minnt hressilega á það í dögunum með svörtum niðurstöðum IPCC-skýrslunnar. Samfylkingin hefur talað fyrir flýtingu borgarlínu og ég stend svo sannarlega með því og ekki bara vegna eigin hagsmuna. Það er mikilvægt að við sköpum aðstæður svo við getum öll nýtt okkur vistvænar samgöngur, minnkað umferð og losun gróðurhúsalofttegunda.
Drífum þessa borgarlínu í gang! Þá getum við sem þurfum að ferðast til vinnu eða skóla nýtt tímann í að lesa, hekla, klárað heimavinnu og allt mögulegt þessar tíu, fimmtán mínútur sem það tekur að ferðast til vinnu okkar eða skóla.
Sólveig Skaftadóttir.
Höfundur er í 5. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi