Bæjarbúar geta ráðstafað 100 milljónum

Rafrænar kosningar í lýðræðisverkefninu Betri Garðabæ eru hafnar og standa yfir til 7. júní nk. Alls eru 23 hugmyndir á rafrænu kjörseðli. 15 ára og eldri með lögheimili í Garðabæ mega kjósa.

Geta ráðstafað 100 milljónum

23 verkefni eru á rafrænum kjörseðli í kosningunum sem hófust 26. maí sl. og standa til 7. júní. Íbúar sem verða 15 ára á kosningaárinu (fæddir 2006) og eldri, með skráð lögheimili í Garðabæ fá þar tækifæri til að ráðstafa allt að 100 milljónum í verkefni sem þeir vilja sjá framkvæmd í sveitarfélaginu næstu tvö árin. Kjósendum er boðið upp á að hjartamerkja eitt verkefni sem gefur því aukaatkvæði. Þá er mögulegt að greiða atkvæði oftar en einu sinni, en það er nýjasta atkvæðið sem gildir.

Allir geta skoðað kosningavefinn en til að kjósa í lokin þegar búið er að velja hugmyndir og ráðstafa fjármagninu þarf að skrá sig inn með öruggum hætti, þ.e. með Íslykli eða rafrænum skilríkjum. Atkvæðið er dulkóðað og aldrei hægt að tengja atkvæði við einstaklinga.
Hægt er að kjósa í eigin tölvum eða snjalltækjum en einnig er hægt að koma og nota tölvur í þjónustuveri Garðabæjar og í Bókasafni Garðabæjar á Garðatorgi og Álftanesútibúi.

Hugmyndir íbúa nýtast áfram

Þess má geta að fjölmargar góðar hugmyndir bárust í hugmyndasöfnun verkefnisins og þó þær falli ekki allar undir skilyrði Betri Garðabæjar lifa þær áfram og nýtast í önnur verkefni á vegum bæjarins eða fara beint í framkvæmd. Þannig verður hverju sviði og forstöðumönnum sendar þær hugmyndir sem tilheyra þeim til frekari skoðunar og einhverjum hugmyndum verður vísað beint til umfjöllunar í fastanefndum bæjarins.

Hægt var að sjá hugmyndirnar sem bárust í vor inn á heimasíðu Garðabæjar þegar hugmyndasöfnun stóð yfir dagana 17. febrúar – 8. mars.  Alls söfnuðust hátt í 250 hugmyndir frá íbúum og yfir 1300 einstaklingar skráðu sig inn á hugmyndasöfnunarvefinn þar sem hægt var að setja inn hugmynd, skoða, líka við eða skrifa rök með eða á móti hugmyndum annarra.

Matshópur skipaður starfsmönnum tækni- og umhverfissviðs fór yfir hugmyndirnar, mat þær og leitaði til annarra sviða og ráðgjafa. Hugmyndir voru metnar út frá þeim skilyrðum sem sett voru í upphafi og að lokum stóðu eftir 23 hugmyndir sem stillt var upp á rafrænan kjörseðil.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar