Bæði liðin voru snemma klár og hóparnir eru mjög spennandi

Íslandsmótið í körfunattleik er komið af stað, en Stjarnan leikur í Subway-deildinni í bæði karla- og kvennaflokki í ár, en eins og flestum ætti að vera kunnugt um tryggði kvennalið Stjörnunnar sér sæti í Subway-deildinni eftir síðasta tímabil. Hinn reyndi þjálfari, Arnar Guðjónsson, er þjálfari beggja liða og Garðapósturinn heyrði í honum hljóðið, en næsti leikur karlaliðsins er í kvöld, fimmtudag, á móti Þór Þolákshöfn í Umhyggjuhöllinni í Ásgarði og kvennaliðið á heimaleik þriðjudaginn 17. október.

Garðapósturinn byrjaði á því að spyrja Arnar hvort hann hafi verið ánægður með undirbúningstímabilið hjá liðunum? ,,Undirbúningstímabilið gekk mjög vel, karlaliðið fór í vel heppnaða æfinga- ferð til Barcelona sem Ingi Þór skipulagði og strákarnir söfnuðu fyrir, var mjög skemmtileg og vel heppnuð. Kvennaliðið byrjaði aðeins seinna að æfa þar sem að stór hluti stelpnana var í landsliðsvekefnum fram á haustið. Bæði liðin voru snemma klár og eru hóparnir mjög spennandi,” segir Arnar.

Hvernig metur þú liðin í dag miðað við liðin sem þú varst með í höndunum í fyrra, ertu að mæta með sterkari lið í vetur eða er þetta svona fyrirfram á pari við liðin í fyrra? ,,Kvennaliðið er mjög svipað. Það er komin nýr ameríkani í stað Riley sem og að Unnur Tara Jónsdóttir tók fram skóna. Einnig er Bo Guttormsdóttir að koma upp í meistaraflokk úr okkar sterka yngri flokka starfi. Hinsvegar var ansi stórt skarð höggvið í liðið þegar Diljá okkar meiddist á hné og verður hún frá keppni í vetur. Hún var búinn að festa sig í sessi sem einn aðal skorari A-landsliðs kvenna. Katarzyna var því fengin til liðsins til að reyna að fylla hennar skarð.

Karlaliðið er talsvert betur saman sett en í fyrra og með fleiri leikmenn sem hafa möguleika á að spila að hárri ákefð lengi. Ber þar helst að nefna heimkomu Antti Kanervo og Ægis Þórs, sem okkar fólk kannast vel við.”
Á árlegum fundi félaganna í Subway-deildinni þá var karlaliði Stjörnunnar spáð fjórða sætinu og kvennaliðinu 6. sæti. Hvað segirðu um það og hafa liðin sett sér einhver markmið fyrir veturinn? ,,Ég held að þessar spár séu bara ansi nálægt lagi. Við stefnum á kvennamegin að festa liðið í sessi sem gott úrvalsdeildarlið og vera orðið eitt besta lið landsins á næstu þremur árum. Karlaliðið ætti, ef allt fer á besta veg, að geta keppt um þá titla sem í boði eru.”

Nú kjálkabrotnaði nýi erlendi leikmaðurinn ykkar, Kevon Kone, í æfingaleik við Tindastól á dögunum og hann fer sjálfsagt ekki aftur að leika körfubolta fyrr en eftir tvo mánuði. Þetta hlýtur að breyta upplaginu hjá ykkur eitthvað og þá hafa einhverjar sögur gengið um að þið ætlið jafnvel að reyna að finna nýjan erlendan leikmann í þennan tíma ef velunnarar körfuboltans leggja eitthvað í púkkið? ,,Meiðslin eru talsvert högg fyrir okkur, það ber auga leið þegar einn af atvinnumönnunum meiðist. Stefnan var að taka inn amerískan leikmann um jólin, en ef það finnst peningur til að koma með hann fyrr, þá verður farið í það verkefni,” segir Arnar.

Þið töpuðu fyrir Njarðvík í fyrstu umferðinni, en lékuð skínandi vel. Nú eiga strákarnir leik við Þór Þorlákshöfn í Ásgarði Garðabæ í kvöld – hvernig leggst sá leikur í þig og hvernig leik áttu von á góðum stuðningi? ,,Leikurinn í Njarðvík var að mörgu leyti fínasta frammistaða, þó svo við höfum ekki haft sigur upp úr krafsinu. Ég er mjög spenntur fyrir leiknum gegn Þór, bæði lið spila af mikilli ákefð og ég er viss um að þetta verði besta skemmtun fyrir alla þá sem mæta á völlinn.”

Rúmlega helmingur hópsins er ekki enn kominn á bílprófsaldur

Kvennalið Stjörnunnar er búið að spila fjóra leiki í deildinni, en það tapaði fyrstu tveimur leikjunum en vann svo Fjölni nokkuð sannfærandi og Snæfell á útivelli sl. þriðjudag. Ertu ánægður með hvernig þetta fer af stað hjá stúlkunum sérstaklega í ljósi þess að það er stórt skref að taka að fara upp úr 1. deild í Subway-deildina? ,,Ég er nokkuð sáttur, fannst við full lengi í gang í fyrsta leik gegn Þór Ak, en annars hefur þetta verið nokkuð gott. Við erum að finna betur hvernig við viljum spila og hvernig nýju leikmennirnir nýtast okkur sem best. Þetta er auðvitað talsvert stökk fyrir stelpurnar, manni reiknast til að rúmlega helmingur hópsins er ekki enn kominn á bílprófsaldur þannig að verkefnið er stórt. Hinsvegar hef ég fulla trú á því að þær séu klárar í það.”

Liðið er skipað mjög ungum og efnilegum stelpum eins og þú kemur inn á, hver er helsti styrkleiki liðsins og er framtíðin björt í kvennaboltanum í Garðabæ? ,,Ég held að styrkleikar okkar felist í því hversu hárri ákefð og með hversu mikilli árásargirni þessar stelpur geta spilað á í 40. mínútur. Einnig hafa þær verið ansi góðar í að spila mjög óeigingjarnan körfubolta og eru tilbúnar að gera hlutina fyrir hvora aðra. Framtíðin er björt, það hefur verið hugsað vel um kvennastarfið undanfarin ár plús að það hafa verið mjög hæfileikaríkir stelpur sem hafa valið körfuboltann.”

Nú er næsta leikur kvennaliðsins þriðjudaginn 17. október á móti Val í Umhyggjuhöllinni, þetta verður væntanlega krefjandi leikur á móti góðu Valsliði? ,,Það er alltaf gaman að fá að mæla sig við bestu liðin. Valur varð Íslandsmeistari í fyrra og því frábært að fá þær í heimsókn og sjá hvort við stöndumst þeim ekki alveg snúninginn.”

En hvernig finnst svo þjálfarunum að vera þjálfa tvö meistaraflokkslið í fremstu röð? ,,Það er fyrst í stað bara ótrúlega gaman að vera treyst fyrir þessu, en það er alveg á hreinu að ef ekki væri fyrir bæði góðu samstarfsfólki, í Auði og Sóley kvennamegin og Inga og Ármanni karlamegin þá gæti ég þetta ekki.”.

Trúir á góðan stuðning í vetur

Og þú átt yfir höfuð von á góðum stuðningin í vetur? ,,Ég trúi ekki öðru, kvennaliðið fékk ótrúlegan stuðning í fyrra og var mætingin þar til fyrirmyndar. Karlamegin var hún heldur döpur enda liðið ekki að skemmta þeim sem þó mættu nægjanlega. Ég hins vegar lofa því að karlaliðið verður mikið skemmtilegra á að horfa í vetur, líkt og sást í Njarðvík,” segir Arnar að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar