Fyrsta vikan í október var alþjóðleg vika bannaðra bóka. Vikan er haldin ár hvert til að fagna lestrarfrelsi og rétti einstaklingsins til að velja sér lesefni án ritskoðunar. Á Bókasafni Kópavogs var vikan nýtt í að vekja athygli á þeim verkum sem hafa verið bönnuð, fjarlægð eða aðgangur að þeim takmarkaður á einhvern hátt, hvort sem það hafi verið gert hérlendis eða erlendis.
Það kemur mörgum á óvart hve margar bækur hafa verið bannaðar og fjölmargar af þekktum og vinsælum bókum eru á þeim lista, t.d. Harry Potter, Dagbók Önnu Frank, Lolita og Fimm-bækurnar. Þá er allt of algengt að bækur með hinsegin persónum séu bannaðar líkt og barnabókin Ég er Jazz. Sú fjallar, á sjálfsævisögulegan hátt, um barnæsku höfundar sem er trans. Jazz Jennings, höfundur bókarinnar, hefur sjálf barist gegn banninu og útskýrt að bókin hjálpi transbörnum að skilja sína sjálfsmynd og styður við fjölskyldur sem eiga transbörn. Á Bókasafni Kópavogs ritskoðum við ekki og segjum fullum fetum að fólk megi lesa nákvæmlega það sem það vill. Við kaupum inn eftir aðfangastefnu en okkar stærstu hömlur eru í raun pláss, myndum glaðar fylla Fífuna af bókum ef við bara mættum – og Kórinn líka! Við eigum þó alltaf pláss fyrir vænar „bannaðar“ bækur og svo nýjar bækur. Nú þegar sumarið lætur undan fyrir haustinu fer jólabókaflóðið að flæða inn á safnið og bókelskir bæjarbúar geta farið að hliðra til á náttborðinu fyrir bókaveislunni sem er byrjuð að berast á safnið og er væntanleg á næstu vikum og mánuðum!