Við fulltrúar Viðreisnar, Pírata, Vina Kópavogs og Samfylkingar höfum gagnrýnt harðlega vinnubrögð meirihlutans við úthlutun á lóðum bæjarins á reit 13 á Kársnesi án útboðs. Bæjarstjóri, Ásdís Kristjánsdóttir, var ekki viðstödd afgreiðslu málsins í bæjarstjórn og var því ekki til svara um samning sem hún sjálf hafði undirritað með fyrirvara um samþykki bæjarráðs. Þrátt fyrir þriggja klukkustunda umræður í bæjarstjórn fengust engin svör af hálfu stjórnsýslunnar. Ósk um frestun var borin upp í upphafi fundar en fulltrúar meirihlutans höfnuðu því. Í aðdraganda bæjarstjórnarfundarins var meðal annars óskað eftir kostnaðargreiningu sem er forsenda innviðagjaldsins. Óvenju hár innviðakostnaður fylgir þessum reit. Til að mynda liggur fyrir að hækka þurfi landið um allt að 1,5 metra, færa hafnarkant/grjótgarð um allt að 4 metra ásamt því að reka niður stálþil fyrir landfyllingu upp á 500 fermetra. Engin kostnaðargreining fékkst þó afhent, og raunar bíðum við hennar enn, ásamt öðrum svörum.
Það er ámælisvert að ósk okkar um frestun málsins hafi verið hafnað í bæjarstjórn þar sem við töldum okkur ekki fært að taka upplýsta ákvörðun vegna skorts á gögnum. Eftir að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar samþykkti samkomulagið með sex atkvæðum gegn fimm, sáum við okkur ekki annan kost færan en að óska formlega eftir skriflegum svörum við spurningum okkar. Á fundi bæjarstjórnar nú í vikunni gerði bæjarstjóri tilraun til þess að svara spurningum okkar. Þau svör voru þó ýmist engin eða ófullnægjandi. Bæjarstjóri lætur hjá líða að svara einstökum spurningum en þess í stað er farið um víðan völl í textanum.
Þrátt fyrir að hafa nú aftur rætt málið í um þrjár klukkustundir í bæjarstjórn erum við litlu nær. Við höfum því sent inn ítrekun ásamt óskum um frekari skýringar til bæjarstjóra og bíðum nú svara við þeim.
Theodóra S. Þorsteinsdóttir
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir
Bergljót Kristinsdóttir
Helga Jónsdóttir
Mynd: Fulltrúar Viðreisnar, Pírata, Vina Kópavogs og Samfylkingar hafa gagnrýnt harðlega vinnubrögð meirihlutans við úthlutun á lóðum bæjarins á reit 13 á Kársnesi án útboðs. F.v. Helga, Bergljót, Sigurbjörg og Theodóra.