Árlegur kostnaður Garðabæjar er um 100 milljónir vegna gjaldfrjálsra skólamáltíða í grunnskólum

Í síðustu viku birtist grein í Morgunblaðinu þar sem tuttugu og sex oddvitar Sjálfstæðisflokksins í sveitarfélögum um land allt gagnrýna  formann Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir að fara gegn vilja sveitarfélaganna í aðkomu sinni að kjarasamningum á almennum vinnumarkaði og snérist það fyrst og fremst að ókeypis skólamáltíðum, en oddvitarnir fagna þó nýgerðum kjarasamningum.
 
„Stjórn Sambandsins óskar eftir því að ríkisvaldið leiti annarra leiða við að útfæra markmið um gjaldfrjálsar skólamáltíðir en beint í gegnum gjaldskrár sveitarfélaga. Stjórnin er reiðubúin til samtals um málið á breiðum grundvelli með það að leiðarljósi að tryggja barnafjölskyldum kjarabætur og velferð.“ segir í grein odvitanna, en Almar Guðmundsson, bæjarstjóri í Garðabæ og oddviti Sjálfstæðisflokksins er einn af þeim sem skrifar undir greinina.

Oddvitarnir segja formanninn Sambands íslenskra  sveitarfélaga hins vegar ekki hafa unnið samkvæmt vilja sveitarstjórna né bókun stjórnar og þá hafi hún haldið því ranglega fram í fjölmiðlum að sátt ríkti um framkvæmdina.

Málið var illa kynnt og ekki unnið í nægilegu samráði

Garðapósturinn spurði Almar hvort hann væri ósáttur með þessar málalyktir að  gjaldfrjálsar skólamáltíðir væru hluti af kjarasamningunum? ,,Já við erum ósátt við hvernig staðið var að ákvörðun Sambands sveitarfélaga um að sveitarfélög komi að málum með þessum hætti. Málið var illa kynnt og ekki unnið í nægilegu samráði. Þetta er fordæmalaust má,“ segir hann.

Hafa áður tekið vel í að halda gjaldskrárhækkunum innan tiltekinna marka

,,Sveitarfélög hafa áður tekið vel í að halda gjaldskrárhækkunum innan tiltekinna marka í tengslum við kjarasamninga og það gerum við einnig nú. Það er hins vegar allt annað mál að sveitarfélög leggi meira til málanna sem þriðji aðili í tengslum við samninga á almennum markaði, sem við höfum ekki aðkomu að. Formaður Sambands sveitarfélaga og stjórn hafa hreinlega ekki umboð til að skuldbinda sveitarfélög til þessa og ef við viljum fara í slíka vegferð er eðlilegast að sveitarfélögin komi sér saman um það á landsþingi sveitarfélaga. 
  Það er ekki byggt á neinni stefnumörkun í þessu og það er ekki góð stjórnsýsla að málið sé unnið svona. Um það voru fjölmargir bæjar- og sveitarstjórar sammála og fór það alls ekki eftir flokkslínum, þótt það sér sjálfstæðisfólk sem er mest áberandi út á við,“ segir hann og bætir við: ,,Það er ósamið við okkar viðsemjendur á opinbera markaðnum og það er eðlilegra að beina kröftum okkar í að ná góðum langtímasamningum þar, eins og náðist á almenna markaðnum.
Varðandi gjaldfrjálsar skólamáltíðir efnislega þá er það lagt fram sem jöfnunarmál því það sé góður stuðningur við efnaminni fjölskyldur. Það er út af fyrir sig alveg rétt. Við höfum reyndar gætt þess sérstaklega hjá okkur að grípa inn í aðstæður varðandi greiðslur fyrir skólamat ef aðstæður kalla á það. En það getur ekki verið góð nýting á fjármunum að gera máltíðir fyrir öll börn gjaldfrjálsar til að ná þessu markmiði.“

2600 grunnskólanemendur og kostnaður um 100 milljónir

Hvað er margir grunnskólanemendur í Garðabæ og hvað mun þetta kosta bæjarfélagið ef allir fá máltíðir? ,,Í Garðabæ eru 2600  grunnskólanemendur og er hluti þeirra er í sjálfstætt reknum skólum. Þetta mál er óútfært og ríkisstjórn og Samband sveitarfélaga eiga eftir að skýra stöðuna. Talað er um að ríkisvaldið hafi skuldbundið sig til að greiða 75% af kostnaðinum sem nú fellur á foreldra og áætla um 4 milljarða í verkefnið og áætlaður hlutur sveitarfélaganna í heild er rúmur milljarður. Ætla má að árlegur kostnaður Garðabæjar upp undir 100 m.kr. Það er mikilvægt að taka fram að bæjarstjórn þarf að samþykkja hlut bæjarins og við þurfum að bíða eftir endanlegum útfærslum,“ segir Almar.

Mánaðaráskrift um 13500 kr.

Hvað kostar skólamáltíðin í dag og hver er hlutur Garðabæjar, þ.e.a.s. er Garðabær að niðurgreiða að hluta til skólamáltíðina? ,,Að meðaltali kosta skólamáltíðir 966 kr. fyrir hverja máltíð en Garðabær er með nokkra samninga við fyrirtæki sem veita þessa þjónustu samkvæmt útboðum fyrir hvern skóla fyrir sig. Garðabær niðurgreiðir að meðaltali 368 kr. fyrir hverja máltíð. Foreldrar greiða 640 kr. fyrir hverja máltíð og greiða því um 13500 kr. fyrir fulla áskrift fyrir barn á mánuði“.

Um 2000 börn að njóta máltíðanna í dag

Hvað eru margir að kaupa skólamáltíðir í dag? ,,Það er mikil þátttaka yngri barnanna, eða um 90% en minni hjá þeim eldri. Við erum ekki með nákvæmar tölur en það má telja að alls séu yfir 2000 börn að njóta máltíðanna.“ 

Langtímakjarasamningar eru fagnaðarefni

En að öðru leiti er Garðabæ ánægður með kjarasamningana sem hafa verið gerðir? ,,Já, langtímakjarasamningar eru fagnaðarefni. Eins og ég nefndi áðan á eftir að semja við opinbera aðila og mikilvægt að það takist að semja á sömu nótum við þá varðandi hækkanir og tímalengd samnings. Þá er við með góða stöðu til að verðbólga og vextir lækki,“ segir Almar að lokum

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar