Áttaviti til árangurs

Kópavogur er farsælt bæjarfélag í fremstu röð og leiðarstef í nýju samstarfi Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks byggir á því að gera gott samfélag enn betra. Við komum fram með nýjar og ferskar hugmyndir og munum láta verkin tala.

Með það að leiðarljósi munum við bæta upplýsingaflæði til bæjarbúa, auka samráð og hlusta á sjónarmið þeirra. Það er meginhlutverk sveitarfélaga að þjónusta íbúa sína og því ætlum við að fjárfesta í Kópavogsappinu þar sem bæjarbúar munu geta fylgst með því sem fram fer í bænum, haft aðgang að nauðsynlegum upplýsingum og átt í gagnvirku samtali við þá sem vinna í framlínu bæjarins.

Undir okkar forystu verður áfram staðið vörð um traustan og ábyrgan rekstur. Frekari skuldsetningu bæjarins verður stillt í hóf og lán eingöngu tekin til fjármögnunar brýnna og arðbærra verkefna. Við ætlum að lækka fasteignaskatta og leita leiða til að rými skapist til að lækka aðrar álögur og tryggja áframhaldandi uppbyggingu innviða bæjarins.

Mikilvægt er að vanda vel til verka þegar kemur að skipulags­, samgöngu­ og umhverfismálum við uppbyggingu næstu ára og áratuga. Þétting byggðar, vistvænir ferðamátar, greið og skilvirk umferð og virðing gagnvart umhverfinu leika þar lykilhlutverk. Við ætlum að vanda sérstaklega til við kynningu, samtal og samráð við íbúa á fyrstu stigum skipulagsgerðar á þéttingarreitum og nýjum hverfum.

Við setjum markið hátt í menntamálum til að tryggja bjarta framtíð fyrir börnin okkar og í því skyni leggjum við ríka áherslu á að skólar í Kópavogi verði áfram í fremstu röð með áframhaldandi framþróun á sviði tækni og nýsköpunar. Ákalli foreldra um að brúa bilið frá því fæðingarorlofi lýkur og þar til börn fá leikskólavist verður svarað með því að bjóða foreldrum raunverulegt val um heimgreiðslu og dagvistun.

Gerum góðan bæ enn betri

Kópavogur er leiðandi í íþrótta­ og æskulýðsmálum og verður áfram. Börnum á aldrinum 5 til 6 ára verður tryggð gjaldfrjálst að stunda eina íþrótt eða tómstund og þá mun frístundastyrkur barna og ungmenna á aldrinum 7 til 18 ára hækka í 70.000 krónur á kjörtímabilinu. Þá ætlum við að tryggja viðhald og uppbyggingu íþróttamannvirkja samfara fjölgun bæjabúa.

Eldri bæjarbúar er ört vaxandi og fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir og ákaflega mikilvægt að þjónusta við þá sé í samræmi við þarfir þeirra. Við ætlum að útvíkka og styðja verkefnið „Virkni og vellíðan“ sem miðar að því að styrkja líkamlega, andlega og félagslega heilsu eldri bæjarbúa. Mikilvægt er að verkefnið nái til stærri hóps þannig að fleiri fái tækifæri til heilsueflingar allt árið um kring. Þá höfum við áhuga á því að byggja upp lífsgæðakjarna fyrir eldri bæjarbúa þar sem heimili og þjónusta fer saman. Eldri bæjarbúar eiga það skilið að fá þá þjónustu sem þeir þurfa til að geta notið lífsins og elst með reisn í bænum okkar.

Listir, menning og blómlegt mannlíf gera góðan bæ enn betri og spila lykilhlutverk
í því að búa til fallegan bæjarbrag sem bæði bætir ímynd og eykur hróður Kópavogs zog um leið gerir bæinn eftirsóknarverðan stað til að búa á. Við leggjum áherslu á aukið aðgengi allra bæjarbúa að viðburðum og ein hugmynd að leið til þess er að Kópavogsbúar fá menningarávísanir sem hvetja bæjarbúa til að njóta listar og menningar í eigin bæjarfélagi.

Lýðræðislegt samfélag byggir á þeim grunni að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta sömu mannréttinda. Við ætlum að standa vörð um möguleika bæjarbúa af erlendum uppruna til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu og mynda nýtt ráð, Fjölmenningarráð, með það að markmiði. Hlutverk ráðsins er meðal annars að skapa vettvang fyrir fólk af erlendum uppruna til að koma skoðunum sínum og tillögum á framfæri við bæjarfélagið.

Hér höfum við aðeins nefnt nokkur af þeim verkefnum sem við ætlum að setja í forgang á kjörtímabilinu. Málefnasamningur nýs meirihluta ber heitið “Áttaviti til árangurs” þar sem settar eru fram átta megin áherslur og fjölmörg verkefni sem við ætlum að framkvæma á kjörtímabilinu. Verkefnin eru lögð fram af skynsemi og ábyrgð og við lofum því að bæjarbúar geta fylgst með framgangi þeirra á kjörtímabilinu. Hægt er að lesa málefnasamning okkar á www.kopavogur.is

Ásdís Kristjánsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins
Orri Vignir Hlöðversson oddviti Framsóknarflokksins

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar