Ársreikningur Garðabæjar fyrir árið 2020 var tekinn fyrir á fundi bæjarstjórnar sl. fimmtudag
Niðurstaðan betri en maður þorði að vona
Ársreikningur Garðabæjar fyrir árið 2020 lýsir sterkri fjárhagsstöðu sveitarfélagsins, en síðari umræða um ársreikninginn og afgreiðsla hans var 15. apríl sl. í bæjarstjórn Garðabæjar. Garðapósturinn spurði Gunnar Einarsson, bæjarstjóra, hvort hann væri ánægður með útkomuna eftir þungt Covid ár? ,,Já, það verður að segjast eins og er að ég er ánægður með að útkoma ársreiknings Garðabæjar fyrir árið 2020 er góð og niðurstaðan var betri en maður þorði að vona þegar margir óvissuþættir voru uppi á síðasta ári. Ársreikningurinn lýsir sterkri fjárhagsstöðu sveitarfélagsins þar sem rekstrarafkoma ársins er 774 m.kr. eða 234 m.kr. betri en áætlun hafði gert ráð fyrir, sem verður að tel-jast einstaklega góður árangur á þessum fordæmalausu Covid tímum. Jafnframt er veltufé frá rekstri 2.6 milljarðar sem er um 14.4% í hlutfalli við rekstrartekjur. Framkvæmt var fyrir 3.5 milljarða sem verður að teljast einstaklega góður árangur. Þrátt fyrir miklar framkvæmdir náum við að halda skuldahlutfallinu lágu og mjög langt frá því sem leyfilegt er samkvæmt reglum.”
Fljót að samþykkja aðgerðaráætlun
Nú hefur Covid gert mörgum sveitarfélögum mjög erfitt fyrir og ársreikningar þeirra bera keim af erfiðu árferði. Hvernig stendur á því að Garðabær kemur svona vel út og hafði Covid lítil áhrif á fjárhagsstöðu sveitarfélagsins? ,,Í fyrra þurfti að bregðast við með ýmsum hætti í rekstri bæjarins í tengslum við Covid. Það var ljóst í upphafi faraldursins fyrir um ári síðan að það þurfti að huga að fjárhagslegum aðgerðum samhliða því að ná að halda úti grunnþjónustu á vegum bæjarins við krefjandi aðstæður. Við vorum fljót að samþykkja aðgerðaráætlun í bæjarráði Garðabæjar yfir fjárhags- legar aðgerðir þar sem m.a. var tekið á leiðréttingu á þjónustugjöldum vegna skerðingar á þjónustu t.d. í leik- og grunnskólum, frestun á greiðslum fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði, fjölgun á gjalddögum fasteignagjalda fyrir íbúa og atvinnulíf. Í aðgerðaráætluninni var einnig fjallað um áframhaldandi uppbyggingu nýrra svæða og framkvæmdir, sölu lóða og eigna og hvernig við myndum efla samfélagið áfram. Við fórum strax í að vinna eftir þessari aðgerðaráætlun af fullum krafti hjá bænum og það má segja að við höfum verið á tánum allt síðasta ár að bregðast við aðstæðum sem voru uppi hverju sinni og starfsmenn Garðabæjar eiga miklar þakkir skildar fyrir að standa svona vel vaktina. Rekstrargjöld voru vissulega meiri á síðasta en áætlun sagði til um og fóru 2,6% fram úr fjárhagsáætlun en tekjuhliðin var betri og skilaði sér í 4% hærri rekstrartekjum en gert var ráð fyrir. Mikil óvissa var allt árið um þróun útsvartekna og meiri sveiflur milli mánaða en áður hafa þekkst og því mikið ánægjuefni að þegar upp var staðið var útkoma útsvarstekna yfir árið í heild sinni betri en við áttum von á.”
Nú hafa mörg sveitarfélög óskað eftir styrk og stuðningi úr ríkissjóði vegna ástandsins út af Covid. Hvað með Garðabæ? ,,Við höfum verið sammála því í bæjarstjórn Garðabæjar að það sé mikilvægt að ríkissjóður komi að málum með almennum aðgerðum þ.e. beinum fjárhagslegum stuðningi til að verja þjónustu og starfsemi sveitarfélaganna. Bæjarstjórn samþykkti ályktun þess efnis síðasta haust þar sem við skoruðum á ríkisstjórnina að bregðast við tekju- og kostnaðarvanda sveitarfélag-anna með almennum aðgerðum til viðbótar nauðsynlegum sértækum aðgerðum. Ríkisstjórnin hefur verið að hvetja sveitarfélög til að auka fjárfestingar og örva þannig efnahagslífið en það er ljóst að það eru áfram áskoranir sem Garðabær sem og önnur sveitarfélög landsins þurfa að glíma við í tengslum við Covid-faraldurinn og ekki sér fyrir endann á s.s. aukin útgjöld félagsþjónustu auk annarra þátta.”
664 íbúðir og um 36.000 m² af atvinnuhúsnæði
Nú á framkvæmdum að ljúka við nýtt fjölnota íþróttahús í Vetrarmýri í árslok. Hvað með aðra uppbyggingu í Vetrarmýri, hvernig verður henni háttað? ,,Eins og þeir sem eiga leið fram hjá Vetrarmýrinni sjá þá eru framkvæmdir við fjölnota íþróttahúsið í fullum gangi og framundan er mikil uppbygging bæði í Vetrarmýri sem og Hnoðraholti. Undanfarin ár hefur mikil vinna við skipulag á svæðinu farið fram og nú liggur fyrir samþykkt deiliskipulag fyrir miðsvæði Vetrarmýrinnar og norðurhluta Hnoðraholts.
Í Vetrarmýri er auk fjölnota íþróttasvæðis gert ráð fyrir blandaðri byggð íbúða, verslunar og þjónustu. Áætlað er að á svæðinu verði 664 íbúðir og um 36.000 m² af atvinnuhúsnæði og Vetrarmýrin er hluti af stærra skipulagssvæði Vífilsstaðalands. Unnin hefur verið þarfa- og kostgæfnigreining fyrir verslunar- og þjónustusvæðið í Vetrarmýri þar sem við fengum fasteignaþróunarfélag til liðs við bæinn til að skoða ýmsa valkosti varðandi framtíð Vetrarmýrar og leggja mat á þá. Þessa dagana er Garðabær einmitt að auglýsa eftir umsóknum um þátttökurétt í lokuðu útboði vegna kaupa á þjónustu og ráðgjöf við úthlutun lóðarréttinda og sölu byggingarrétta í Vetrarmýri. Gert er ráð fyrir að nær áramótum verði hægt að hefjast handa við að selja byggingarrétt lóða í Vetrarmýrinni og þegar er ljóst að það er mikill áhugi á þessu svæði enda staðsetningin mjög góð í nálægð við stofnbrautir og nánast í miðju höfuðborgar-svæðisins. En rétt er að nefna að það verður mikil áhersla lögð á að uppbygging atvinnuhúsnæðis í Vetrarmýri auki gæði samfélagsins í Garðabæ og styðji við íbúðarbyggð í nærliggjandi svæðum með áherslu á grænum svæðum í kring og öruggum samgöngumátum. Í Hnoðraholti er einnig stefnt að úthlutun lóða fyrir íbúðarhúsnæði á árinu og þegar að því kemur verður það auglýst og kynnt vel. Nú er verið að hanna gatnakerfið og ég vona að framkvæmdir við gatnagerð hefjist í haust.“
Skilar okkur vonandi góðum tekjum í bæjarsjóð
Og þetta mun sjálfsagt skila góðum tekjum í bæjarsjóð. Sérðu fram á að fjárhagsstaða Garðabæjar eigi eftir að batna enn frekar á næstu árum, bæði með sölu lóða í Vetrarmýri og Hnoðraholti auk þess sem þjóðin er vonandi að rétta úr kútnum, fólk og Garðbæingar að fá vinnu að nýju, eftir því sem bólusettum Íslendingum fjölgar? ,,Sú mikla uppbygging sem er á næstunni í Vetrarmýri, Hnoðraholti og fleiri svæðum skilar okkur vonandi góðum tekjum í bæjarsjóð og er líka mikilvæg fyrir höfuðborgarsvæðið í heild sinni þar sem ljóst er að skortur er á nýjum íbúðum í byggingu. Garðbæingum fer því fjölgandi og í fyrra var fjölgun íbúa einna mest í Garðabæ á landsvísu og hlutfallslega var mest fjölgun hér í samanburði við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu eða 4,5 % fjölgun íbúa. Garðbæingar verða brátt 18000 talsins og með fleiri íbúum koma meiri tekjur til næstu ára en um leið þurfum við að huga vel að þjónustu við nýja íbúa sem og þá sem fyrir eru. Það eru því spennandi uppbyggingartímar framundan og þegar samfélagið færist í eðlilegra horf, vonandi með sumrinu, held ég að við munum öll finna fyrir kraftinum og þeim jákvæðu áhrifum sem fylgja uppbyggingu nýrra svæða í bænum.”
Svo það er bjart framundan í Garðabæ, sannarlega bær í blóma? ,,Vorið fer nú vonandi að koma af alvöru og ég tel að það sé sannarlega bjart framundan í bænum okkar þrátt fyrir þá raunir sem við sem samfélag höfum þurft að ganga í gegnum undanfarið ár. Bærinn okkar er í miklum vexti og vonandi áfram bær í blóma þar sem allir geta dafnað vel,” segir bæjarstjórinn að lokum.