Almar Guðmundsson

Garðar Grásteinn – kynning á frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins fyrir prófkjör sjálfstæðisfélaganna í Garðabæ 5. mars nk.

Hver ert þú og hvaða sæti sækist þú eftir?
Ég heiti Almar Guðmundsson og sækist eftir 1.sæti á lista sjálfstæðismanna í Garðabæ fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor.

Ég er uppalinn í bænum og hef búið hér nánast alla tíð. Ég er kvæntur Guðrúnu Zoega, hjúkrunarfræðingi, og saman eigum við fimm börn á aldrinum 9 til 25 ára. Ég er hagfræðingur að mennt, með MBA gráðu frá London Business School til viðbótar, og bý að góðri reynslu úr fjármálageiranum og við stjórnun félagasamtaka.

Af hverju býður þú þig fram? Ég hef tekið þátt í ýmsu starfi í bænum í gegnum tíðina og brenn fyrir því að gera samfélagið okkar ennþá betra. Hlutverk oddvita snýst um að leiða samstilltan hóp fólks til góðra verka, hóp sem hefur burði til að ljúka verkefnum og ná settum markmiðum. Ég hef mikla reynslu af slíku starfi, bæði í daglegum störfum og félagsmálum eins og t.d. á vettvangi Stjörnunnar. Ég hef setið í bæjarstjórn Garðabæjar frá árinu 2014, í bæjarráði frá 2018 og er formaður fjölskylduráðs og öldungaráðs.

Hverjar eru þínar helstu áherslur?
Ég legg áherslu á traustan, sjálfbæran og ábyrgan rekstur sveitarfélagsins. Góð staða Garðabæjar er ekki sjálfgefin og ég tel mig hafa kraft, þekkingu og reynslu til að tryggja að fjárhagsstaðan skapi okkur tækifæri og getu til metnaðarfullrar uppbyggingar. Verandi fimm barna faðir og uppalinn Garðbæingur þekki ég vel mikilvægi leik- og grunnskóla okkar. Það er stöðugt viðfangsefni að gera þá að meira aðlaðandi vinnustöðum þannig að hjá okkur starfi gott fólk. Íþróttir og útivist eiga í mér sterka taug. Aðstaða til íþrótta og útiveru er góð í Garðabæ og tryggja þarf að öll aðstaða til hreyfingar sé með besta móti. Því verkefni lýkur aldrei.
Það þarf einnig að tryggja sterka rödd Garðabæjar í ýmsum málum sem snerta m.a. fjármögnun ýmissa málaflokka gagnvart ríkisvaldinu og eins í samstarfi okkar við nágrannasveitarfélögin. Þetta eru ekki mestu glansverkefnin, en þau eru mjög mikilvæg og ég treysti mér í þau.

Ég hef reynslu og metnað til að gera Garðabæ að besta sveitarfélagi landsins þar sem hlúð er að ungum sem öldnum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar