93 leikskólapláss voru laus um áramótin en örðugt hefur reynst að fullmanna alla leikskóla frá hausti

Linda Udengård sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs í Garðabæ gerði grein fyrir minnisblaði um stöðu innritunar í leikskólum Garðabæjar á fundi bæjarráðs sl. þriðjudag.

Fram kom að um áramót eru á virkum biðlista 160 börn, fædd 2022 eða eldri. Þar af eru 20 með leikskólapláss í öðrum sveitarfélögum og 11 hjá dagforeldum. Stærsti aldurshópur barna á biðlista eru börn fædd á seinni hluta ársins 2022 eða 119 börn.

17 leikskólar í Garðabæ

Í minnisblaði Lindu koma m.a. fram að leikskólar í Garðabæ eru 17, 11 reknir af sveitarfélaginu og sex sjálfstætt reknir leikskólar með samninga við Garðabæ. Nýr leikskóli í Urriðaholti opnar um miðjan febrúar og það verður sjöundi sjálfstætt starfandi leikskólinn en hann verður samrekinn undir hatti Urriðabóls (Urriðaból I og II).

,,Garðabær er eitt leikskólasvæði en við innritun er mikilvægt að skoða búsetu fjölskyldu og taka tillit til systkina. Til þess að tryggja betri nýtingu á húsnæði, koma systkinum saman og leitast við að mæta óskum foreldra um leikskólaval verða allir leikskólar í Urriðaholti aldursblandaðir líkt og meginhluti leikskóla í Garðabæ.
Börn með lögheimili í Garðabæ hafa forgang Leikskólaplássum er úthlutað miðlægt frá fræðslu- og menningarsviði. Börn með lögheimili í Garðabæ hafa forgang í leikskólapláss í öllum leikskólum innan sveitarfélagsins. Foreldrar geta sent inn umsókn um leikskóladvöl fyrir eins árs aldur en barnið fer ekki á virkan biðlista fyrr en 12 mánaða.

Nýtt innritunarkerfi, Vala – leikskóli verður tekið í notkun 15. febrúar. Með því kerfi verður auðveldara fyrir notendur að hafa yfirsýn og fylgjast með stöðu mála til dæmis á biðlista,” segir í minnisblaðinu.

Nýr leikskóli í Urriðaholti, Urriðaból 1 opnar um miðjan febrúar

Leikskólapláss í Garðabæ eru 1354

Fram kemur í upptalningu Lindu að leikskólapláss í Garðabæ séu 1354 en í byrjun janúar voru börn í 1261 plássi. ,,Fjöldi lausra leikskólaplássa um áramót eru 93 en örðugt hefur reynst að fullmanna alla leikskóla frá hausti. Urriðaból II tekur til starfa í febrúar og þar eru 126 leikskólapláss. Samtals eru því til úthlutunar rúmlega 200 leikskólapláss, þegar tekist hefur að fullmanna skólana.

Um áramót eru á virkum biðlista 160 börn, fædd 2022 eða eldri. Þar af eru 20 með leikskólapláss í öðrum sveitarfélögum og 11 hjá dagforeldum. Stærsti aldurshópur barna á biðlista eru börn fædd á seinni hluta ársins 2022 eða 119 börn.

Með ný samþykktri aðgerðaráætlun um betra starfsumhverfi í leikskólum og öflugri auglýsingherferð er takmarkið að laða að fólk til starfa.

Gert er ráð fyrir að börnum á virkum biðlista fædd 2022 og eldri verði boðin leikskólavistun á næstu mánuðum samhliða fjölgun starfsfólks og opnun á nýjum leikskóla.

Af þeim börnum sem nú þegar eru í leikskólum liggja fyrir óskir frá 143 foreldrum um flutning á milli leikskóla, flestar um pláss í leikskólum í Urriðaholti.”

252 börn útskrifast úr leikskólum í ágúst

,,Í ágúst útskrifast 252 börn sem fædd eru 2018 úr leikskólum Garðabæjar og hefja grunnskólanám. Um áramótin voru að sama skapi 267 börn fædd 2023 með lögheimili í Garðabæ.

Stærstu innritunartímabilin fyrir nýtt skólaár fyrir börn fædd 2023 (janúar-ágúst) eru mars og apríl en einnig er innritun í ágúst í laus pláss. Börn í þessum innritunarhópi hefja leikskólagöngu ágúst. Vert er að taka fram að innritun af virkum biðlista á sér stað allan ársins hring ef laus eru pláss í leikskólum.

Mesta fjölgun barna í Urriðaholti og Ásahverfi

Í nokkrum hverfum í Garðabæ þar sem nýjar íbúðir eru byggingu er sýnileg fjölgun barna á leikskólaaldri. Mesta fjölgunin er í Urriðaholti (115 börn) en einnig er fjölgun í Ásahverfi (32 börn) þar sem nýjar íbúðir eru í byggingu. Auk þessa þarf að gera ráð fyrir nokkrum fjölda barna á mismunandi aldri sem eiga eftir að flytja í nýtt húsnæði sem er í byggingu á Álftanesi síðla árs 2024,” segir í minnisblaðinu en eins og fram kom að ofan opnar nýr leik-skóli í Urriðaholti um miðjan febrúar. Því til viðbótar er til sérstakrar skoðunar hjá bænum að bæta við leikskólaplássum á Álftanesi og í Ásahverfi, eftir því sem þörfin kallar á.

Bæjarráð vísaði minnisblaðinu til umfjöll- unar leikskólanefndar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar