Mæðrstyrksnefnd Kópavogs afgreiddi um 200 umsóknir

Mæðrastyrksnefnd Kópavogs sem starfað hefur í rúm 60 ár var með jólaúthlutun eins og undanfarin ár fyrir þá sem minna mega sín og eru með lögheimili í Kópavogi.

,,Um 200 umsóknir voru afgreiddar, bak við hverja umsókn voru bæði einstaklingar og barnafjölskyldur með allt að fimm börn. Voru börnin rúmlega 200 og fengu öll jólapakka sem starfsfólk frá Íslandsbanka og Kópavogsbæjar, þar með talin Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri, pökkuðu inn. Hver úthlutun innihélt þrjá matarpoka auk gjafakorta þar sem upphæð fór eftir tekjum og barnafjölda. Um tíu sjálfboðaliðar störfuðu við úthlutunina sem dreift var á þrjá daga en við undirbúning störfuðu þó fleiri,“ segir Anna Kristinsdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar Kópavogs, sem stóð í ströngu fyrir jólahátíðina.

Voru í vondum málum

,,Mæðrstyrksnefnd Kópavogs var í vondum málum í októbermánuði sl. þegar lekinn í húsnæðinu, sem nefndin hefur til afnota, gerði það að verkum að starfskonur nefndarinnar gátu ekki verið í húsnæðinu. Við leituðum til Kópavogsbæjar vegna húsnæðisins og í nóvember fékkst niðurstaða sem var að við fengjum tímabundna aðstöðu í  kjallara Digraneskirkju til að hafa þar jólaúthlutunn.Þá var farið í flutningi með borð,frystikistur, skrifstofu og fatnað þann 14. nóvember,“ segir Anna og bætir við: ,,Við gátum því opnað þar og tekið við umsóknum en lokadagur umsókna var skráður 28. nóvember. Eins og með umsóknirnar þá bættust við nokkrir tugir á listann aukalega eftir lokun.“

Starfsmenn Kópavogsbæjar þ.m.t. bæjarstjóri Kópavogs tóku vaktir, pökkuðu inn jólagjöfum og undirbjuggu úthlutun á mat. F.v. Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri og Anna Kristinsdóttir formaður Mæðrastyrksnefndar Kópavogs

Hjá Mæðrastyrksnefnd Kópavogs starfa eingöngu sjálfboðaliðar og byggir starfsemin á velvild þeirra er hana styrkja. Helstu styrktaraðilarnir Mæðrastyrksnefndar eru: Þjónustumiðstöð Kópavogs, Kópavogsbær, Kaupfélag Skagfirðinga, Krónan, Íslandsbanki ásamt ýmsum fyrirtækjum og einstaklingum. ,,Nefndin vill þakka öllum sem hafa lagt starfseminni lið,“ segir Anna.

Einnig er vert að minnast á að seld eru notuð föt fyrir mjög lítinn pening til styrktar nefndinni, en það er t.d. hægt að fylla innkaupapoka fyrir 2500 kr.

Þar sem ekki er vitað nákvæmlega hvenær Mæðrastyrksnefndar Kópavogs getur snúið til baka í húsnæði sitt að að Fannborg 5 þá verður opnun ekki auglýst fyrr en það liggur fyrir.

Foríðumynd: Stjórn Mæðrastyrksnefndar Kópavogs hafði í nógu að snúast fyrir jólin og afgreiddi um 200 umsóknir. F.v. Elín Sigríður, Guðrún, Þórunn og Anna.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar