872 glaðir nemendur á Barnamenningarhátíð

Skólahópar fylltu miðbæ Garðabæjar af lífi þegar skólabörn sóttu dagskrá á fyrstu Barnamenningarhátíð í Garðabæ.

Arabískt danspartý

Ekki aðeins á söfnum bæjarins fór fram dagskrá heldur einnig á yfirbyggingum á Garðatorgi. Nemendur í 1. bekk sóttu til að mynda ullargreinasmiðju undir handleiðslu Gunnhildar Höllu Ármannsdóttur gullsmíðanema og einbeiting skein úr andlitum barnanna eins og myndirnar bera vitni um. Þriðju bekkingar sóttu dagskrá í Hönnunarsafninu á sýningunni Deiglumór þar sem þau leituðu að dýrum á leirgripum sýningarinnar og teiknuðu myndir af fyrirmyndunum en það voru þær Þóra Sigurbjörnsdóttir safnafræðingur á Hönnunarsafninu og Ásgerður Heimisdóttir vöruhönnunarnemi sem tóku á móti áhugasömum nemendum. Á sama tíma sóttu unglingar í Garðabæ stærðfræðiþrautasmiðju og unnu verkefni undir handleiðslu Jóhönnu Ásgeirsdóttur sem hannaði stærðfræðiþrautaborð í anda Einars Þorsteins arkitekts og stærðfræðings. Það var svo hinn snjalli rithöfundur Gunnar Helgason sem leiddi nemendur í 7. bekk í gegnum hvernig söguþráður er byggður upp og án efa margar góðar sögur sem urðu til í smiðjunum. Arabískt danspartý var svo í boði fyrir nemendur í 5. bekk en það voru þau Friðrik Agni og Anna Claesen sem leiddu dansinn en bæjarstjóri tók þátt í dansinum.

Birgitta Rós og Ólöf Breiðfjörð á Garðatorgi þar sem var líf og fjör

Er í sjöunda himni

Ólöf Breiðfjörð menningarfulltrúi á veg og vanda að skipulagningu hátíðarinnar og hefur alla vikuna verið á hlaupum á milli dagskrárliða. Hún gaf sér þó tíma til að segja nokkur orð við Garðapóstinn um hátíðina: „Ég er í sjöunda himni með þátttökuna hjá skólunum en auk sýninganna tveggja, Kílómeter upp í himininn á Bókasafni Garðabæjar og Hverafuglar á bjargi á Garðatorgi 1, tóku 872 börn þátt í öllum þessu frábæru smiðjum og viðburðum. Það er ekkert sjálfgefið að kennarar og skólastjórnendur leyfi nemendum að taka þátt í slíkri dagskrá enda nóg að gera í skólastarfinu. Ég er því mjög þakklát fyrir móttökurnar og finnst eftir þennan fyrsta vetur minn í starfi menningarfulltrúa eins og ákveðið traust sé nú þegar til staðar milli mín og kennara og skólastjórnenda“ segir Ólöf um frábæra þátttöku skólanna.

Gunnar tekur þátt í arabískum dans á Garðatorgi ásamt nemendur á Barnamenningarhátíð

Ólöfu til aðstoðar í skipulagningu á hátíðinni var Birgitta Rós Skarphéðinsdóttir en hún er nemi í viðburðastjórnun í Háskólanum á Hólum en vinnan við Barnamenningarhátíð var verknám hennar en samhliða viðburðastjórnun útskrifast Birgitta Rós úr sálfræði frá Háskóla Íslands nú í vor.

Hlakkar til að skipuleggja dagskrá haustsins

„Ég hlakka til að skipuleggja dagskrá haustsins með frábæru samstarfsfólki á Bókasafni Garðabæjar, Hönnunarsafninu og í tónlistarskóla Garðabæjar,“ segir Ólöf að lokum.

Gunnar Helgason rithöfundur á Bókasafni Garðabæjar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar