Undirritunin fór fram á mörkum sveitarfélaganna

Hönnunarsamkeppni um Fossvogslaug

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs skrifuðu í dag undir viljayfirlýsingu um að finna nýrri sameiginlegri sundlaug bæjarfélaganna stað um miðbik Fossvogsdals í göngufæri frá grunnskólum dalsins, Snælandsskóla og Fossvogsskóla. Undirritunin fór fram á mörkum sveitarfélaganna um miðbik Fossvogsdals. (Á myndinni eru Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur.) 

Sameiginleg hönnunarsamkeppni

Til að kalla fram bestu lausnir í verkefninu ætla sveitarfélögin að efna sameiginlega til hönnunarsamkeppni um Fossvogslaug í samvinnu við Arkitektafélag Íslands. Skipaður verður undirbúningshópur beggja sveitarfélaga með aðkomu skipulags, íþrótta- og tómstundasviða og skólasviða til að leggja grunn að keppnislýsingunni.

Sundlaug byggð samkvæmt grænum stöðlum

Stefnt er að því að sundlaugin verði byggð samkvæmt grænum stöðlum og að bílastæði verði eingöngu fyrir fatlað fólk og aðföng. Að öðru leyti mun laugin þjóna nærliggjandi hverfum og gangandi og hjólandi gestum.

Kostnaðurinn skiptist til helmings

Áætlun um framkvæmdir verður gerð þegar hönnun, endanleg kostnaðaráætlun og fjármögnun vegna laugarinnar liggur fyrir. Gert er ráð fyrir að kostnaður skiptist til helminga, óháð endanlegri staðsetningu laugarinnar. Búist er við að aðgengi og umferð verði sá þáttur hönnunarsamkeppninnar sem verði hvað viðkvæmastur.

„Fossvogsdalur er einstakt svæði, skjólgott og gróðursælt og þarf hönnun sundlaugarmannvirkis, nánari staðsetning og aðkomuleiðir að taka tillit til þeirra sérstöðu sem staðsetningin felur í sér,“ segir í sameiginlegri niðurstöðu skipulagssviða sveitarfélaganna.

Ljóst er að staðsetning Fossvogslaugar kallar á breytingu á skipulagi beggja sveitarfélaga, en þau hafa sameiginlega verið með breytingar á heildardeiliskipulagi dalsins í undirbúningi um hríð. Skipulagsvinnu verður lokið þegar niðurstaða hönnunarsamkeppni Fossvogslaugar liggur fyrir.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar

Vefkökur og persónuvernd

Vefur kgp.is notast við vefkökur í þeim tilgangi að veita þér sem bestu upplifun þegar þú heimsækir okkur á vefnum.  Vefkökurnar eru vistaðar í vafranum þínum og þjóna m.a. þeim tilgangi að kerfið "þekkir þig" þegar þú kemur aftur á vefinn okkar.  Þannig þarftu t.d. ekki að fara aftur í gegnum samþykktarferlið fyrir vefkökur, ert ekki spurð(ur) aftur og aftur hvort þú vilt skrá þig á póstlista eða um aðra virkni sem þú hefur annað hvort samþykkt eða hafnað í fyrri heimsóknum o.fl. o.fl.

Þú getur stillt vefkökurnar hér til vinstri.

Með kærri kveðju,
Starfsfólk KGP.is vefsins