6791 bókaðir rástímar á vellinum í sumar

Skýrsla formanns Golfklúbbs Álftaness fyrir starfsárið 2021 – 20. aðalfundur GÁ.

Ágætu fundargestir,

Árið í ár var fyrsta starfsár nýrrar stjórnar. Eins og þið flest vitið þá var skipt um í brúnni fyrir þetta sumar og nýtt fólk kom inn. Við sem tókum við reyndum eftir fremsta megni að nýta þekkingu fyrri stjórnar og halda áfram því góða starfi, þó með breyttum áherslum. COVID setti stundum strik í reikninginn því við þurftum að fylgja reglugerðum yfirvalda hvað varðaði fjöldatakmarkanir og sóttvarnir. En við erum svo sem farin að þekkja leikreglurnar í þessum faraldri og með stolti getum við sagt að ekkert smit hefur verið rakið til klúbbsins hingað til. Við höld-um því þennan aðalfund með 50 manna takmörkum vegna ástandsins.

Snemma í vor fór undirbúningur véla af stað undir dyggri verkstjórn Snæþórs þá voru allar vélar klárar í slaginn þegar við opnuðum völlinn. Allir valsar brýndir, vélar smurðar og allt klárt. Við byrjuðum með miklum látum í byrjun apríl. Þá komu stórar vinnuvélar, vörubílar og her manna og kvenna og bjuggu til nýja teiga á 5,6 og 8 holum. Aðeins seinna var gerður nýr herrateigur á 7 braut. Þessar framkvæmdir tóku stuttan tíma því meðlimir klúbbsins mættu vel og tóku þátt. Almennur vinnudagur var svo haldinn eftir miðjan apríl þar sem völlurinn var gerður klár ásamt húseignum klúbbsins. Þriðji vinnudagurinn var svo þann 4. maí og var völlurinn opnaður eftir það. Eigendur Verkþings eiga gríðarlegar þakkir fyrir að leggja til vélar og starfsmann, án þessarar að-stoðar hefði þetta tekið okkur hálft sumarið. Ekki voru keyptar vélar sem gengu fyrir hefð-bundinni olíu heldur var ákveðið að kaupa slátturóbota og sérstaka sláttuvél á teiga sem er handdrifin. Reynslan okkar er það góð af róbotunum að við höfum ákveðið að fjárfesta í fjórum slíkum í viðbót fyrir næsta sumar. Með komu þeirra minnkar olíunotkun og viðhaldsþörfin með. Þetta eru jú starfsmenn sem vinna allan sólahringinn og fá aldrei COVID. Snæþór stóð sig alveg ótrúlega vel sem umsjónarmaður véla. Þær slógu ekki feilpúst og legg ég nú til að fundurinn klappi fyrir honum.

Vallarstarfsmenn voru áfram fjórir en ekki var ráðinn sérstakur verkstjóri yfir þeim. Þetta eru allt strákar sem kunnu sitt fag og hafa verið hjá okkur undanfarin ár. Opnunartími skálans var aukinn og við fengum góðan hóp stúlkna sem sinnti þeim störfum mjög vel. Þær höfðu sérstakt orð á því í haust þegar þær snéru aftur í skólann að þeim hafi þótt gaman að vinna hjá okkur í sumar. Sumir voru hissa þegar þær hlupu út á teig með posann og spurðu hvort viðkomandi væri ekki örugglega búinn að borga.

Aftur var sett loðnunót yfir flatirnar og þegar við opnuðum völlinn í byrjun maí þá kom hann mjög vel undan vetri, flatir grænar og flottar. Fuglinn lék okkur aftur grátt og skeit vel á brautir og át flatir. Það tók okkur nokkurn tíma að saxa niður fulgaskítinn en á endanum varð hann fínasti áburður. Hampiðjan var að styrkja okkur með fleiri nótum og fara þær á fljótlega.

Frá verðlaunaafhendingu í meistaramóti GÁ 20201. F.v. Björg, Eyrún, Sveinn, Ingólfur, Björn, Sigríður, Samúel, Björn Breki, Anton, Óliver Elí, Einar, Ásgeir og Kjartan.

Í heild sinni gekk sumarið ljómandi vel. Við tókum upp rástímabókun í vor og voru meðlimir langflestir fljótir að tileinka sér þá nýjung. Alls voru bókaðir 6791 rástími á vellinum í sumar. Þetta hlýtur að vera algjört met. Veðurlagið í sumar var upp og ofan eins og gengur og gerist. Kvennagolfið átti sinn venjulega sess á mánudögum og var metmæting nánast öll skiptin sem þær hittust. Mikið var hlegið og mörg glæsihöggin voru slegin. Siggi Eggerts, okkar besti maður smíðaði nýja brú yfir þverskurðinn á þriðju sem eykur mjög öryggi þeirra sem aka á golfbílum um völlinn. Ástand vallarins var með besta móti í allt sumar. Það gerist ekki að sjálfu sér að völlurinn sé góður og stóð stjórnin sig mjög vel í að aðstoða vallarstarfsmennina þegar til þurfti. Eins og ég nefndi áðan þá var ekki ráðinn sérstakur verkstjóri á völlinn heldur tóku strákarnir við þessari ábyrgð sjálfir.

Mótahald gekk vel. Metþátttaka var í stigamótum og meistaramóti. Haldið var Jónsmessumót, Seylumót og stelpurnar héldu sitt árlega kvennamót þar sem færri komust að en vildu. Aflýsa þurfti Bændaglímu í tvígang, í fyrra skiptið vegna veðurs en vegna dræmrar þátttöku í seinna skiptið. Hugsanleg skýring var sú að annaðhvort voru meðlimir búnir að spila yfir sig eða flúnir á heitari slóðir í enn meira golf. Stigamótin voru með aðeins breyttu sniði því allur aðgangseyrir fór beint í verðlaun í öllum flokkum. Verðlaunin voru gjafabréf í Golfbúðina í Hafnarfirði og kom það sér vel. Klúbbmeistari unglinga var Björn Breki Halldórsson, öldungaflokkinn sigraði Ögmundur Gunnarsson, 2 flokk karla sigraði Anton Kjartansson, klúbbmeistari kvenna varð Sigríður Lovísa Sigurðardóttir og klúbbmeistari karla varð Björn Halldórsson. Við eigum einnig tvo drengi sem sigruðu sína flokka í meistaramóti Keilis þá Óliver Elí Björnsson og Markús Marelsson. Segja má að Markús hafi fyllt herbergið sitt af bikurum því hann varð Íslandsmeistari í höggleik og holukeppni ásamt því að vera stigameistari á unglingamótaröðinni. Framtíðin er því björt hjá okkar drengjum. Vonandi náum við fleiri ungum stúlkum á völlinn í framtíðinni

Við sendum kvennasveit í fyrsta skipti í sögu klúbbsins í Íslandsmót golfklúbba. Þær spilu á Grundarfirði og stóðu sig með stakri prýði. Annað árið í röð er niðurstaða karlasveitar sú að bætinga er þörf. Svo mörg voru þau orð. Liðsstjórar voru heiðurshjónin Snæþór og Guðný og þakkar klúbburinn þeim fyrir gott skipulag og vel unnin störf.

355 félagsmenn

Fjöldi meðlima er kominn í 355 manns, nóg finnst sumum en við getum rætt hér á eftir hvort þörf sé á því að loka klúbbnum. Persónulega finnst mér pláss fyrir allt að 400 meðlimum því biðtíminn var sárasjaldan meira en eitt holl á teig.

Klúbburinn keypti nýtt afgreiðslukerfi í sjoppuna og gaf það góða raun. Auðvelt er að halda bókhald og birgðahald og líkur á rýrnum eru nánast engar. Klúbburinn stendur vel fjárhagslega þrátt fyrir 3 milljóna króna reikning sem við þurftum að borga fyrir leigu á landi Sviðholts. Einar gjaldkeri mun fara betur yfir ársreikning og fjárhagsáætlun.

Fyrsta starfsár þessarar stjórnar er því á enda. Allir eru ennþá vinir og samstarfið hefur gengið með ágætum. Við höfum náð að framkvæma fullt og erum hvergi nærri hætt. Næst á dagskrá er að byggja upp nýtt klúbbhús í Þórukoti með fjárhagssaðstoð frá Garðabæ og þar verður vonandi líf og fjör í framtíðinni. Þrjár nýjar brautir verða lagðar í landi Þórukots og Einars í Gestshúsum og byggðar upp teigar og flatir. Gerum ráð fyrir að sú framkvæmd verði komin í gagnið þarnæsta vor ef allt gengur eftir.

Stjórnin þarf aðstoð frá meðlimum og auglýsi ég eftir henni hér, við lærðum á þessu ári að margar hendur vinna létt verk og stefnum því að að gera eins og stóru klúbbarnir og fastmóta nefndir. Stjórnarmeðlimir munu vera formenn nefnda og munum við auglýsa eftir nefndarfólki til að taka þátt í þessu skemmtilega félagsstarfi. Nefndirnar sem um ræðir eru þessar:
Vallarnefnd, mótanefnd, aganefnd, húsanefnd, kvennanefnd, öldunganefnd og skemmtinefnd.
Semsagt eins og einn góður maður sagði, FULLA FERÐ ÁFRAM OG TAKK FYRIR SKEM-MTILEGT LEIKTÍMABIL.

Kærar þakkir, Björn Halldórsson formaður GÁ

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar