36 fyrirtæki hafa fengið nýja eða uppfærða rampa í Garðabæ

Alls hafa 36 fyrirtæki hafa fengið nýja eða uppfærða rampa í Garðabæ á undanförnum dögum á vegum Römpum upp Ísland. Frá því að verkefnið var sett af stað hafa 450 rampar hafa verið settir upp á landsvísu en markmiðið er að ramparnir verði 1.500 á fjórum árum.

Rakarastofa Garðabæjar fékk þann heiður að fá ramp númer 450, þeir Sævar Jóhann Sigursteinsson og Hlynur Guðmundsson, hársnyrtar, reka stofuna og buðu þeir Hákoni Atla Bjarkasyni íbúa á Garðatorgi að vígja rampinn formlega á föstudag.

Löngu tímabært framtak og mikilvægt jafnréttismál

„Mig langar auðvitað að þakka Römpum upp Ísland fyrir þeirra góða framlag hér í bænum, það hefur verið gaman að fylgjast með þeim að störfum. Römpum upp verkefnið er gott og löngu tímabært framtak og mikilvægt jafnréttismál,“ segir Almar Guðmundsson bæjarstjóri og bendir á að hreyfihamlað fólk leggur oft mikla vinnu á sig til að komast að því hvort staðir séu aðgengilegir, í stað þess að það sé sjálfsagt. „Að tryggja gott aðgengi er samfélagslegt verkefni okkar allra.“

Meðal þeirra sem hafa fengið uppfærslur á römpum í Garðabæ eru hársnyrtistofur, verslanir, kaffihús og ísbúð.

Um Römpum upp Ísland

Römpum upp Ísland sem er í beinu framhaldi af Römpum upp Reykjavík er verkefni sem miðar að því að setja upp 1500 rampa á fjögurra ára tímabili um land allt. Stofnaður var sjóður með aðkomu opinberra aðilia og fyrirtækja í einkaeigu sem stendur straum af kostnaði fyrir verslunar- og veitingahúsaeigendur sem taka þátt í verkefninu.

Með römpunum er öllum gert kleift að komast á þægilegan hátt inn á veitingastaði, verslanir og þjónustu á landinu öllu. Verkefnið verður framkvæmt í góðu samstarfi við eigendur viðkomandi bygginga og skipulagsyfirvalda. 

Haraldur Þorleifsson, stjórnandi hjá Twitter og stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno, er hvatamaður verkefnisins.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar