Öflugt menningarstarf verður enn betra með þessum breytingum

Tillögur bæjarstjóra að nýjum sóknarfærum í starfsemi menningarhúsa Kópavogsbæjar voru samþykktar á fundi bæjarstjórnar þann apríl sl., en meðal þess sem felst í tillögunum er frekari samþætting á starfsemi menningarhúsanna samfara því sem fjármunum verður forgangsraðað með öðrum hætti.

Gert er ráð fyrir nýju upplifunar- og fræðslurými á fyrstu hæð Bókasafns Kópavogs sem tekið verður í notkun á árinu 2024. Rík áhersla verður lögð á viðburði, sýningar og fræðslu þar sem bókmenntir, myndlist, náttúruvísindi og tónlist mætast í einu og sama rými sem miðar við börn og fjölskyldur. Með nýrri nálgun á þjónustu og starfsemi stofnana samhliða aukinni samþættingu fækkar stöðugildum húsanna úr 33 í 29. Þá verður Héraðsskjalasafn lagt niður og farið í samvinnu við Þjóðskjalasafn um að taka við safnkostinum. Safneign Náttúrufræðistofu, fræðsla, miðlun og rannsóknir á henni mun færast undir forstöðumann Gerðarsafns. Önnur rannsóknarstarfsemi á Náttúrufræðistofu og vöktun á vatnalífríki verður lögð niður og færð öðrum í samstarfi við Kópavogsbæ.

Við gerð tillagnanna var byggt á greiningarvinnu KPMG og umsögnum forstöðumanna menningarhúsanna. Þá var menningarstefna Kópavogsbæjar höfð að leiðarljósi.

Kópavogspósturinn ræddi við Elísabetu Sveinsdóttur, formann Lista- og menningarráðs Kópavogs og spurði hana nánar út í þessar breytingar á starfsemi menningarhúsanna í Kópavogi.

Endurhugsa starfsemina í takt við tímann

Við byrjuðum á því að spyrja hana af hverju sé verið að fara í svona miklar breytingar á starfsemi menningarhúsanna, sem hafa verið mjög vel sótt enda fjölbreytt og metnaðarfull dagskrá í boði í húsunum? ,,Í mínum huga eru þetta ekki stórkostlegar breytingar og hvað þá neikvæðar. Þetta eru annars vegar nauðsynlegar breytingar og hins vegar ósköp eðlileg endurnýjun eða uppfærsla sem þarf að eiga sér stað reglulega. Mér finnst ekkert óeðlilegt við það að endurhugsa starfsemina reglulega í takt við breyttar þarfir bæjarbúa. Það er í raun óeðlilegt að gera það ekki. Miklar breytingar hafa orðið á svona starfsemi, bæði í rekstri, í neyslu á menningunni, í umfangi og öðru sem þýðir þá auðvitað að við þurfum að aðlaga hlutina á hverjum tíma. Þá erum við einnig að horfa til Norðurlandanna í þessum efnum en menningarhúsin þar tekið miklum breytingum undanfarin ár“ segir Elísabet.

Lengi verið í umræðunni að loka Héraðsskjalasafni

Þetta virkar engu að síður nokkuð róttækar breytingar, rannsóknarstarfsemi á Náttúrufræðistofu og vöktun á vatnalífríki verður lögð niður og þá sérstaklega að Héraðsskjalasafn Kópavogs verður lagt niður, en Sagnfræðingafélag Íslands harmar þessar ákvörðun ykkar og skorar á bæjarstjórn Kópa- vogs að endurskoða þessa ákvörðun sína – verður þetta skoðað eitthvað frekar eða liggur endanlega ákvörðun fyrir? ,,Forstöðumaður Þjóðskjalasafnsins hefur opinberlega sagt að áhyggjur sagnfræðinga og annarra séu óþarfar. Öll gögn sem koma til þeirra verði jafn vel varðveitt og aðgengileg þótt Þjóðskjalasafnið yfirtaki það. Umræða um lokun Héraðsskjalasafnsins er búin að vera í gangi, í mörg herrans ár. Húsnæði Héraðsskjalasafnsins er ónýtt og hefði bærinn fyrir löngu átt að aðhafast í þeim efnum. Ég er í sjálfu sér gáttuð yfir aðstöðuleysi safnsins og það í fjölda ára. Það hefur enginn mótmælt því? Við lítum sem svo á að með þessum breytingum sé verið að bjarga verðmætum og teljum skynsama leið að fylgja nærliggjandi sveitarfélögum og hefja samvinnu við Þjóðskjalasafn um að eftirleiðis verði safnkostur og viðtaka skjala hjá þeim. Í mínum huga er þessi tilfærsla ekki bara bráðnauðsynleg breyting heldur löngu tímabær. Það er nefnilega ekki nóg að tala bara um að það þurfi að gera eitthvað – það þarf líka að framkvæma,” segir hún.

Málið fór í eðlilegan farveg

Nokkur gagnrýni hefur komið fram varðandi hvernig staðið var að þessum tillögum – hvað segirðu um þá gagnrýni? ,,Við getum ekki tekið undir það, enda fór málið í eðlilegan farveg í stjórnkerfinu. Staðreyndin er sú að málið var fyrst kynnt í lista- og menningarráði með bókun frá meiri- og minnihluta þar sem úttektinni var fagnað. Þegar tillögur bæjarstjóra lágu fyrir voru þær kynntar og ræddar tvívegis í ráðinu og í bæjarráði. Í millitíðinni var skýrsla KPMG gerð opinber að beiðni minnihlutans til að unnt væri að fá álit forstöðumanna, sem svo skiluðu inn skriflegri umsögn. Eftir það tóku tillögurnar breytingum þar sem tekið var tillit til umsagna forstöðumanna. Þá var þeim vísað til bæjarstjórnar mótatkvæðalaust. Það var einnig gagnrýnt að trúnaður hafi ríkt á tillögunum, en ástæðan er sú að breytingarnar höfðu áhrif á stöðugildi bæjarstarfsmanna og fannst okkur ekki í lagi að starfsfólkið myndi fyrst heyra af þessum breytingum í fjölmiðlum. Að okkar viti stóðum við vel að þessari kynningu og fórum að stjórnsýslulögum.”

Blásið í lúðra af enn meiri krafti

En hvaða tækifæri felast í þessum skipulagsbreytingum, hverju eiga Kópavogs-búar von á í framhaldinu? ,,Það eru mikil tækifæri í þessum tillögum sem bæjarstjóri kemur með. Í fyrsta lagi hvað menningarhúsin varðar þá verður meira samstarf og samstaða þeirra á milli. Það hefur kannski að einhverju leyti gerst með Mekó, sem er sameiningartákn fyrir öll húsin og menningu í Kópavogi, en nú á að blása til sóknar af enn meiri krafti þannig að það verði meira flæði þarna á milli, bæði á meðal starfsfólks og þeirra sem heimsækja húsin, að þetta verði meira svona ein heild, menningarkvos í okkar bæjarfélagi,” segir hún og heldur áfram ,,Það sem við erum við líka að gera er að framfylgja þeirri menningarstefnu sem var mótuð fyrir rúmu ári. Hún hefur ekki verið almennilega innleidd en með þessum breytingum erum við að stíga fyrstu skrefin af mörgum með því að útfæra aðgerðir í samræmi við stefnuna. Það eru vissulega mikil tækifæri í Kópavogi.”

Að fjölskyldur og börn upplifi eitthvað áþreifanlegt

Hefur þessi menningarstrúktur sem við þekkjum verið að breytast á undanförnum árum, eins og t.d. bókasöfnin með allt aðra stefnu í dag en fyrir nokkrum árum þegar gestir komu eingöngu til að leigja bækur eða lesa á bókasöfnunum og ekki mátt heyrast múkk frá nokkrum? ,,Já, þessi menningarstrúktur sem við þekkjum er að breytast. Á Norðurlöndunum er alls ekki óalgengt að gestir með bókasafnskort geti sótt bókasöfnin hvenær þeim hentar, að nóttu sem degi. Þeim er treyst fyrir því að ganga vel og fallega um safnið, sýna því virðingu og á móti færðu aðstöðu til að læra, lesa eða stunda það sem þú þarft á bókasafninu. Sjálfsaf-greiðsla er orðin svo algeng víða og fólki bara græjar sig sjálft,” segir hún og heldur áfram: ,,Stóra málið í þessu öllu saman er þó að við erum að horfa til þess að búa til upplifunar- og fræðslurými sem tengir saman bókmenntir, náttúruvísindi, list og tónlist. Þar geta fjölskyldur og aðallega börn upplifað eitthvað áþreifanlegt. Það er svo mikilvægt að neyta og njóta listar og menningar, sem getur falist í svo mörgu. Í þessu upplifunarrými, sem á eftir að móta aðeins betur, verður mikil gagnvirkni sem hægt verður að spreyta sig á, því eitt er að horfa og hitt er að prófa,” segir Elísabet.

,,Auðvitað er það þannig að með nýju fólki koma nýjar áherslur. Við erum vel flest ný í bæjarstjórn og ég held að það sé alltaf gott að stokka aðeins upp. Ef svona starfsemi fær að vera óáreitt er tilhneiging til ákveðinnar værukærðar og stöðnunar. Það er bara hollt fyrir alla að endurhugsa hlutina reglulega,“ segir Elísabet um fyrirhugaðar breytingar á menningarstarfinu.

Safnhluti Náttúrufræðistofu verður efldur enn frekar og fræðsla tengt náttúruvísindum

En hvað segir Elísabet, er ákveðinn sparnaður í þessu fyrir Kópavogsbæ? ,,Í sjálfu sér er það ekki megin markmiðið. Jú, það verður til einhver sparnaður en við ætlum líka að verja fé til að byggja upp þetta nýja rými þannig að ég býst við að þetta jafnist út. Ég mundi segja að dreifing fjármuna verði betri og þá í þágu þarfa bæjarbúa. Við sjáum fyrir okkur að efla enn frekar Náttúrufræðisafnið, gera fleiri viðburði tengt safninu og fræðsluefni. Rannsóknarstarfsemi sem ekki tengist safnhlutanum verður hins vegar lögð niður, enda kannski ekki hlutverk skattgreiðenda í Kópavogi að niðurgreiða rannsóknir á Tjörninni í Reykjavík og Þingvallavatni. Við munum þó kappkosta við að koma þessari starfsemi í góðar hendur.”

Kröftugri og markvissari samvinna á milli menningarhúsanna

Og með þessum breytingum að þá eruð þið m.a að efla samstarfið enn frekar og gera það skilvirkara á milli menningarhúsanna? ,,Já, við bindum miklar vonir við það að samstarfið eflist enn frekar og verði markvissara enda hefur verið ákall um slíkt. Aukin samvinna myndar kröftugra og skilvirkara teymi – og þegar samvinnan er meiri verður betri árangur sem aftur verður hagstæðara fyrir alla.”

Frágangurinn verður til sóma

Hvenær taka svo þessar breytingar gildi? ,,Við ætlum að hefja vegferðina strax. Breytingar við Héraðsskjalasafnið munu taka lengri tíma. Aðrar breytingar taka gildi fljótlega. Varðandi hið nýja upplifunarrými þá er áformað að hönnun hefjist á þessu ári en að rýmið verði opnað á árinu 2024. Fram undan er stefnumótunarvinna í tengslum við rýmið og við ætlum að hefja þá vinnu fljótlega með lista- og menningarráð sem mun halda vinnufund ásamt starfsfólki þar sem hugmyndir verða ræddar. Þá er einnig á döfinni að kalla eftir hugmyndum frá bæjarbúum, heyra þeirra sjónarmið og hvað þeir vilja sjá í þessu rými. “

Það verður ákveðin værukærð yfir hlutum sem látnir eru óáreittir

Og er formaður Lista- og menningarráðs ánægð með þessar breytingar, eiga þær eftir að efla enn frekar menningarstarfið í Kópavogi og ánægju og upplifun Kópavogs af starfi menningarhúsanna? ,,Já, auðvitað er það þannig að með nýju fólki koma nýjar áherslur. Við erum vel flest ný í bæjarstjórn og ég held að það sé alltaf gott að stokka aðeins upp. Ef svona starfsemi fær að vera óáreitt er tilhneiging til ákveðinnar værukærðar og stöðnunar. Það er bara hollt fyrir alla að endurhugsa hlutina reglulega. Bæði ég og forstöðumaður menningarmála í Kópavogi erum sannfærðar um að þessar breytingar munu hafa gott eitt í för með sér og efla menningarmálin til muna. Við erum mjög stolt af menningarlífinu í bænum, en það er alveg hægt að gera betur. Við viljum fá fleiri Kópavogsbúa til að heimsækja húsin og taka þátt í starfseminni. Margir hverjir hafa aldrei komið í Salinn eða Gerðarsafn, en hafa samt búið í Kópavogi í tugi ára. Það er óásættanlegt. Ég er sannfærð um að þessar tillögur munu bæta menningarlífið og efla það til muna. Eigum við ekki bara að spyrja að leikslokum og sjá hvernig þetta fer,” segir Elísabet brosandi að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar