Fimmtudaginn 30. september verður boðið upp á langan fimmtudag í Menningarhúsunum í Kópavogi. Í Salnum kl. 17 verður boðið upp á síðdegisjazz og opið verður til 20 í Gerðarsafni, Náttúrufræðistofu og Bókasafni Kópavogs þar sem hægt verður að njóta fjölbreyttra listsmiðja og viðburða. Ókeypis er á Gerðarsafn frá 17 – 20 og á alla viðburði dagsins.
„Þetta verður skemmtileg og fjölbreytt dagskrá sem ætti að höfða margra“ segir Elísabet Indra Ragnarsdóttir verkefna- og viðburðastjóri menningarmála í Kópavogi en þarna munu fléttast saman list- og handverkssmiðjur, fróðleikur um uppstoppun dýra og örplast, frábærar sýningar og tónlist.
Djazzinn dunar í Salnum
Í Salnum má gera ráð fyrir miklu fjöri þegar þrír flinkir tónlistarmenn, þeir Björn Thoroddsen, Þórður Árnason og Jón Rafnsson í Guitar Islancio stíga á svið og flytja íslensk þjóðlög eftir sínu nefi í bland við þekkt lög úr ýmsum áttum sem sum hver hafa aldrei hljómað áður í flutningi tríósins. Tónleikar þeirra félaga fara fram í fallegu fordyri Salarins; þar er frábær hljómburður, notalegt andrúmsloft og hægt að njóta ljúffengra veitinga á meðan.
Úr plasti í tau – vísindaspjall og handverkssmiðja
Á Bókasafni Kópavogs mun Gunnlaug Hannesdóttir textílkennari bjóða upp á taupokasmiðju frá 17 – 19; hægt er að koma með efnisbút, gardínu, sængurver eða gamalt og úr sér gengið fataplagg og lært að sníða og sauma úr efninu margnota taupoka – og þar með leggja einnota pokum fyrir fullt og allt.
Í Náttúrufræðistofu stendur yfir grunnsýningin Heimkynni sem er uppspretta endalauss fróðleiks. Fróðir líffræðingar stofunnar verða svo á staðnum og bjóða upp á vísindaspjall í tilefni plastlauss septemberfrá 18 – 20 : þar verður til dæmis hægt sjá með berum augum allt það plastmagn sem eitt stykki flíspeysa hefur að geyma.
Að grandskoða fugla – leyndardómar hamskeran
Í Gerðarsafni verður boðið upp á spjall hamskerans Brynju Davíðsdóttur klukkan 17 í tengslum við afar áhugaverða yfirlitssýningu á 20 ára ferli þeirra Bryndísar Snæbjörnsdóttur og Mark Wilson sem nú stendur yfir í Gerðarsafni.
„Brynja ætlar að veita innsýn í ferli og aðferðir við uppstoppun dýra sem er svið sem fæst hafa mikla innsýn í” segir Elísabet Indra. „Á sýningunni í Gerðarsafni má sjá fugla sem Brynja hefur stoppað upp fyrir Náttúrufræðistofu Kópavogs en hún er margverðlaunaður hamskeri, menntuð í Skotlandi og Englandi auk þess að vera með meistarapróf í náttúru- og umhverfisfræðum. Hún nálgast fagið sem náttúruverndarsinni og hefur nær einvörðungu stoppað upp dýr sem finnast dauð eða þarf að aflífa auk þess sem hún notar upprunalegar aðferðir að mestu, náttúruleg efni sem valda sem minnstum skaða á náttúrunni.”
Listsmiðja fyrir fullorðna
Frá 18 – 20 verður svo boðið upp á listsmiðju fyrir fullorðna með Guðlaugu Miu Eyþórsdóttur myndlistarkonu.
„Gerðarsafn bauð upp á listsmiðju fyrir fullorðna í ágústlok og sló viðburðurinn alveg í gegn. Það er eftirsókn eftir viðburðum af þessu tagi, þar sem fullorðið fólk fær að láta listamanninn í sér leika lausum hala og oft þarf bara örfáar kveikjur til að opna fyrir sköpunarkraftinn. Guðlaug Mia er mjög áhugaverð listakona og mikill fengur að því að fá hana til að leiða listsmiðjuna. Ég hvet öll til að kynna sér dagskrána á síðunni okkar meko.is og taka þátt í fimmtudagsgleðinni með okkur.” segir Elísabet Indra að lokum og minnir í leiðinni á að auðvitað verði opið á Reykjavík Roasters þar sem hægt verður að tylla sér niður yfir hressingu.
Forsíðumynd: Guitar Islancio kemur fram á Síðdegisjazzi í Salnum