Heilbrigð samkeppni og frjáls viðskipti eru undirstaða gagnsæis í efnahagslífinu og neytendaverndar. Það er hlutverk hins opinbera að veita aðhald og eftirlit svo að samkeppni fái að blómstra, okkur öllum til hagsbóta. Umgjörð og leikreglur sem stjórnvöld setja á markaði verða alltaf að stuðla að bættum hag almennings.
Samfylkingin er andsnúin hvers kyns geðþóttaafskiptum stjórnvalda af atvinnulífi sem jafnan verða til þess að sérhagsmuna er gætt umfram almannahagsmuni. Jafnræði á að ríkja milli fyrirtækja og atvinnugreina.
Virk samkeppni skilar sér í lægra vöruverði og betri kaupmætti launafólks. Við kjöraðstæður keppa fyrirtæki ekki síður um hylli neytenda með því að bjóða aukin gæði, þjónustu, aðgengi og úrval. Meðal annars vegna þess hvað hagkerfi okkar er smátt og því hætt við fákeppni er virk samkeppni eitt af mikilvægustu kjaramálum almennings á Íslandi.
Frumkvöðlar og smærri fyrirtæki hafa einnig ríka hagsmuni af virkri samkeppni. Á veikari samkeppni græða engir nema eigendur stórfyrirtækja sem hafa komið sér vel fyrir í skjóli einokunar eða fákeppni, en slíkt dregur úr hvata til fjárfestinga og aukinnar framleiðni.
Samfylkingin er stjórnmálaflokkur launafólks og almannahagsmuna. Við viljum brjóta upp skaðlega fákeppni til hagsbóta fyrir allan almenning. Til þess þurfum við að styrkja samkeppniseftirlit, bæta regluverk og ryðja úr vegi aðgangshömlum og öðrum hindrunum sem halda aftur af lifandi samkeppni á öllum sviðum. Þá viljum við endurskoða skattaumhverfi smærri fyrirtækja til að stuðla að auknu jafnræði á mörkuðum.
Vinnandi fólk á Íslandi á mikið undir því að samkeppni á milli fyrirtækja sé virk. Hún er besta tryggingin fyrir lágu vöruverði og góðri neytendavernd.
Þórunn leiðir framboðslista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar 25. sept. nk.