Fuglasöngvasmiðja í Salnum

Tónlistarkonan Sóley Stefánsdóttir hélt fuglasöngvasmiðju fyrir börn og fjölskyldur þeirra í fordyri Salarins þar sem innsetning hönnunarteymisins ÞYKJÓ stóð yfir en sýningin var opnuð um miðbik maímánaðar og stóð yfir fram í júní. Á meðan á sýningunni stóð tók Sóley, ásamt starfsfólki Salarins, á móti fjölda leikskólabarna í Kópavogi, skóp þeim hljóðvef úr söng himbrima og hrossagauks og veitti þeim leiðsögn um sýninguna.

Á sýningunni Fuglasöngvar mátti uppgötva hljóð og tóna úr litríkjum Tóneggum sem hönnuðir ÞYKJÓ gerðu í samstarfi við Sóleyju. Þar gátu krakkar og fjölskyldur þeirra líka kúrt í sérhönnuðum Krakkahreiðrum sem unnin voru af ÞYKJÓ í samstarfi við Blindravinnustofu. Þar mátti einnig uppgötva og sjá egg og hreiður af Náttúrufræðistofu Kópavogs og skúlptúra Gerðar Helgadóttur.
 
Hönnuðir ÞYKJÓ hafa verið staðarlistamenn Menningarhúsanna í Kópavogi en til þess naut hópurinn styrks frá Lista- og menningarráði Kópavogs. Eitt af markmiðum hópsins var að tengja húsin enn betur saman, flétta saman náttúruvísindum, tónlist, bókmenntum og tónlist eins og sjá mátti á sýningunni Fuglasöngvar. Meðfylgjandi myndir tala sínu máli.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar