Villandi umræða um leikskólamál

Fellur ekki undir góða og vandaða starfshætti, segir Áslaug Hulda Jónsdóttir um villandi málflutning minnihlutans um leikskólamál í Garðabæ

Á síðasta fundi bæjarstjórnar Garðabæjar var tekist á varðandi leikskólamál en Áslaug Hulda Jónsdóttir fannst umræða minnihlutans um leikskólamál um bænum mjög villandi og lagði hún fram eftirfarandi bókun á síðasta fundi bæjarráðs fyrirhönd meirihlutans. 

Ómálefnalegur og rangur málflutningur
,,Á fundi bæjarstjórnar sem haldinn var sl. fimmtudag hélt oddviti Garðabæjarlistans, Sara Dögg Svanhildardóttir, því fram að það vanti 300 rými fyrir leikskólabörn í Garðabæ á þessu ári og að staðan væri alvarleg. Hér leyfir bæjarfulltrúi sér að fara með rangfærslur úr ræðustól á fundi bæjarstjórnar sem streymt er beint á vef Garðabæjar. Við innritun leikskólabarna sem fædd eru árið 2020 kom í ljós að árgangurinn var mun fjölmennari en fyrri árgangar. Í desember á síðasta ári var því strax hafin vinna til að fjölga leikskólaplássum í sveitarfélaginu m.a. með því að kanna möguleika á nýtingu á húsnæði til bráðabirgða og með því að taka í notkun lausar kennslustofur. Þess má einnig geta að hönnunarsamkeppni um nýjan leikskóla í Urriðaholti var sett af stað á síðasta ári. 
Málflutningur bæjarfulltrúans um innritunarvanda eða ,,alvarlega stöðu“ er því ekki bara ómálefnalegur heldur einfaldlega rangur og fellur ekki undir góða og vandaða starfshætti. Fjölgun leikskólabarna í Garðabæ er jákvæð þróun og verkefni sem verið er að leysa og ekkert sem bendir til annars en að börn fædd árið 2020 komist inn í leikskóla í Garðabæ á þessu ári,“ segir í bókun Áslaugar.


Áslaug Hulda segir m.a. að fjölgun leikskólabarna í Garðabæ sé jákvæð þróun og verkefni sem verið er að leysa og ekkert sem bendir til annars en að börn fædd árið 2020 komist inn í leikskóla í Garðabæ á þessu ári

Öll börn 14 mánaða og eldri komin með leikskólapláss í haust
Garðapósturinn hafði í framhaldinu samband við Áslaugu Huldu og spurði hana m.a. hver staðan væri í raun og veru, vantar mörg rými fyrir leikskólabörn í Garðabæ í dag? ,,Það er búið að innrita öll börn sem fædd eru á fyrri hluta ársins 2020 inn í leikskóla, það er þau börn sem  fædd eru í janúar til loka júní. Það þýðir að öll börn sem verða orðin 14 mánaða og eldri í haust  eru nú þegar komin með leikskólapláss og byrja í haust. Við erum að vinna í lausnum til að bjóða börnum sem fædd eru á seinni hluta ársins 2020 leikskóladvöl. Það eru 149 börn sem eiga eftir að fá úthlutuðu leikskólaplássi. Málflutningur  minnihlutans er  óábyrgur, oddiviti minnihlutans heldur því t.d. fram að 300 börn séu á biðlista og enn séu börn fædd 2019 ekki komin inn á leikskóla og á biðlista. Þetta er einfaldlega rangt og gerir ekkert nema að ala á óöryggi hjá barnafjölskyldum í bænum. Það þykir mér aum pólitík. Lokaútfærslan skýrist vonandi á næstu vikum og foreldrar verða látnir vita um leið og þetta liggur fyrir. Á þessu ári innritum við um 30% fleiri börn en við útskrifum úr leikskólunum. Ég gef mér að það sé nýtt met. Þannig að staðan er góð þrátt fyrir mikla fjölgun barna í bænum, sem við fögnum. „

Mikil áherlsa lögð á góða þjónustu í leikskólum
Hefur meirihlutinn sofið á verðinum með að láta þjónustuna t.a.m. leikskóla fylgja eftir hraðri uppbyggingu í Urriðaholti? ,,Það er jákvætt að Urriðaholtið er eftirsótt hjá ungum barnafjölskyldum og að leikskólabörnum fjölgi, hröð uppbygging kallar á hröð og vönduð vinnubrögð. Undirbúningur hófst á síðasta ári, á sama ári og þessi börn voru að fæðast. Garðabær hefur um langt skeið lagt mikla áherslu á góða þjónustu í leikskólum sveitarfélagisns og á því er engin breyting. Og áfram munum við bjóða yngstu börnunum leikskóladvöl.“

Nágannasveitarfélögin að bjóða 15-20 mánaða gömlum börnum plássi í haust
En hver er staðan almennt í samanburði t.d. við nágrannasveitarfélögin, Hafnarfjörð, Kópavog, Mosfellsbæ og Reykjavík? ,,Nágrannasveitarfélögin eru að bjóða 15 til 20 mánaða gömlum börnum leikskólavist í haust. Reykjavík sker sig úr og þar fer inntaka eftir hverfum og er staðan í nokkrum hverfum Reykjavíkur mjög slæm þar sem tveggja ára börn eru enn ekki komin inn á leikskóla. Það er ekki staðan hér í Garðabæ. Stefna okkar sjálfstæðismanna hefur verið að bjóða börnum leikskólavist frá 12 mánaða aldri og sú stefna er óbreytt. Innritun í leikskóla á líka ekki eingöngu að vera á haustin, þá gerist það að þau börn sem eru fædd eftir haustið þurfa að bíða fram á næsta haust, eitt ár er langur tími í lífi ungra barna og fjölskyldna þeirra. Þessu höfum við verið að breyta. Sumaropnun leikskólanna í Garðabæ er mikilvægur hlekkur í því að bjóða upp á góða þjónustu. Það eru ekki allir sem hafa kost á því að taka frí í júlí eða það einfaldlega hentar ekki öllum og því mikilvægt að bjóða upp á þetta val. Síðan er auðvitað ekki hægt að tala um leikskólana okkar án þess að hrósa öllu því góða fólki sem þar starfar, við eigum mikinn mannauð í skólum sveitarfélagsins. Það eru þau sem gera leikskólana okkar svona góða. Garðabær hefur verið í forystu í leikskólamálum um langt skeið og á því verður engin breyting,“ segir Áslaug Hulda að lokum. 

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar