Í gegnum erfiða tíma hafa ráðherrar Vinstri grænna sýnt hvað í þeim býr og haldið vel á málum í gegnum þennan ólgusjó. Við sem þjóð höfum líka áttað okkur betur á hvað sé okkur kært og mikilvægi þess að hlúa að og næra eigin heilsu og okkar nánustu. Að geta notið þess að vera til, heilbrigð og hamingjusöm. Viljir þú tryggja öllum sömu tækifæri er skynsamlegt að horfa til okkar í VG í komandi kosningum. Það er stefna okkar og markmið að hlúa betur að þessum þáttum, eins og við höfum sýnt í verki.
Hlúum að heilsunni í heimabyggð
Á tímum heimsfaraldurs sáum við hversu mikilvægt það er að hafa öruggan aðgang að heilbrigðis- og félagsþjónustu, óháð efnahag. Við höfum tekið til í heilbrigðiskerfinu á kjörtímabilinu og eitt af stóru málum næstu ríkisstjórnar verður að tryggja áframhaldandi uppbyggingu og aukið gjaldfrelsi. Á kjörtímabilinu lækkuðum við komugjöld á heilsugæslunni og lögðum þau niður fyrir aldraða og öryrkja og viljum ganga lengra. Efla þarf heilsugæsluna enn frekar sem fyrsta viðkomustað, framlög hafa hækkað um 23 milljarða á kjörtímabilinu en betur má ef duga skal. Tryggja þarf geðheilbrigðisteymi á öllum heilsugæslum og fjölga tækjabúnaði. Við þurfum aukna breidd í meðferðarúrræðum, t.a.m. sjúkraþjálfun og endurhæfingu nær heimahögum.
Styrkjum heimahjúkrun aldraðra
Efla þarf heimahjúkrun enn frekar og byggja upp milliþjónustustig fyrir eldra fólk. Einstaklingar sem kjósa að búa í eigin húsnæði eiga rétt á heilbrigðisþjónustu í takt við getu sína og þarfir. Við í VG viljum tryggja eldra fólki tækifæri til að búa lengur í nálægð við fjölskyldu sína og vandamenn. Þar spilar öflug heilsugæsla lykilhlutverki en einnig þarf að huga að félagslegum þáttum, efla félagsstarf og dagvistarúrræði og stemma stigum við félagslega einangrun. Á sama tíma þurfum við samt sem áður að fjölga hjúkrunarrýmum í nágrenni Reykjavíkur svo að eldra fólk þurfi ekki að skipta um póstnúmer sökum aldurs.
Velferðarkerfi sem eykur velsæld
Að okkar mati er mikilvægt að við sem þjóð tryggjum að opinber þjónusta, mennta- og velferðarkerfi stuðli að jöfnuði og félagslegu réttlæti í samfélaginu. Ein af þeim leiðum sem við viljum fara er að tryggja gjaldfrjálst nám á öllum skólastigum enda er jafnrétti til náms ein af forsendum félagslegs réttlætis í samfélaginu. Tryggja þarf öllum jöfn tækifæri, góða heilsu og þjónustu við hæfi. Atkvæði greitt VG er atkvæði greitt öflugu velferðarkerfi sem tekur mið af þörfum fólks. Atkvæði greitt VG er atkvæði greitt aukinnar velsældar fyrir okkur öll. Það skiptir máli hver stjórna.
Una Hildardóttir og Ingvar Arnarson. Höfundar skipa 2. og 19. sæti á lista VG í Suðvesturkjördæmi. 2. sæti