Kæru bæjarbúar. Nýjar sóttvarnarreglur fyrir næstu vikur gera það að verkum að kirkjustarfið í Dymbilvikunni og yfir páskana mun riðlast verulega. Það er því ljóst að Garðasókn mun sem fyrr bregast við með því að streyma myndbandsefni á Facebook og Youtube undir Vídalínskirkja Garðabæ. Garðbæingar og landsmenn allir eru hvattir til að fylgjast með á vefnum. Í Garðapóstinum er heilsíðuauglýsing með helgihaldinu á netinu.
Afar mikið áhorf hefur verið á streymi og myndböndin sem Garðasókn hefur birt á Facebook frá því að Covid-19 fór að setja mark sitt á safnaðarstarfið. Frá því á haustdögum og fram yfir áramót fór stór hluti af kirkjustarfinu fram á
netinu og ennþá er viðburðum reglulega streymt eða tekið upp efni til birtingar á samfélagsmiðlum. Segja má að
sóknarbörnin hafi tekið þessari nýbreytni opnum örmum og erum við prestarnir og starfsfólk sóknarinnar uppfull af þakklæti og gleði.
Frá 1. september til áramóta var horft á streymi og myndbönd sem birt voru á Facebooksíðu Vídalínskirkju í samtals
211.675 mínútur sem jafngildir 5.264 klst. Frá áramótum hefur áhorfið hlutfallslega aukist og hafa bæjarbúar horft í samtals 87.093 mínútur eða 1.452 klst. Ef við leikum okkur með tölurnar og miðum við meðal tímalengd kirkjuathafna jafngildir áhorfið fyrir áramót því að haldin hafi verið ein og hálf 50 manna athöfn á viku en frá áramótum jafngildir áhorfið því að 50 manna athöfn hafi farið fram annan hvorn dag. En það er fleira sem gleður
okkur í kirkjunni. Það kemur í ljós að sóknarbörnum Garðasóknar fjölgaði um 5% á síðasta ári og er það talsvert meiri aukning en á undanförnum árum. Frá árinu 2009 hefur sóknarbörnum fjölgað úr 6970 í 8761 og eru nú 74% bæjarbúa skráðir í söfnuðinn. Það er um 10% hærra hlutfall en er innan Þjóðkirkjunnar á landsvísu. Það eru því 8761 bæjarbúi sem greiðir sóknargjöld til kirkjunnar sinnar og renna 1080 krónur af tekjuskatti þeirra í hverjum mánuði til Vídalíns- og Garðakirkju. Þessir peningar eru notaðir til að viðhalda þessum fallegu kirkjuhúsum, reka safnaðarstarfið sem er fyrir allar kynslóðir og viðhalda Garðakirkjugarði. Við erum sérlega þakklát af því að á síðasta ári þurfti að fara í miklar viðgerðir á Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju, sem er mikið menningarhús í Garðabænum
og svo var Garðakirkjugarður stækkaður og framundan þarf að gera nýjan kirkjugarð fyrir bæjarfélagið. Kirkjugarðsgjöld eiga að standa undir rekstri og viðhaldi kirkjugarðsins en vegna niðurskurðar í kjölfar fjármálahrunsins hefur sóknin þurft að leggja til talsverðar upphæðir. Við hvetjum ykkur til að fara inn á island.is til sjá hvort þið eruð skráð í Þjóðkirkjuna og ef svo er þá megið þið trúa því að 12.960 króna árgjaldið fer til góðra mála, uppbyggingar á fólki, barnastarf, styrktarsjóð Garðasóknar, kórastarf fyrir alla aldurshópa, fjölbreytt helgihald, starf fyrir ungt fólk sem hefur misst ástvini, sálgæslu, fallegt helgihald, fræðslustarf og innihaldsríkt fermingarstarf svo eitthvað sé nefnt. Við erum þakklát og tökum fagnandi á móti nýju fólki sem vill standa með okkur á þessu mannlífstorgi sem kirkjan er.
Prestar, sóknarnefnd og starfsfólk kirkjunnar.