Það hefur verið brotið á okkur, konur

Reynslusaga úr heilbrigðiskerfinu. Það hefur verið brotið á okkur, konur, dætur, systur og mæður. Af okkur hefur verið tekin þjónusta sem við velfelstar þekkjum. Þjónusta Leitarstöðvar Krabbameinsfélagisins var lögð niður nýverið. Það fát og rugl sem hefur einkennt þessa ákvörðun er þungbært og óskiljanlegt í ljósi þess að þjónustunni var breytt án betri sjáanlegrar lausnar.

Þar sem að maður áður gekk inn á Leitarstöðina í Skógarhlíð, einkenndist umhverfið hlýleika í viðmóti, mildri lýsingu og róandi tónlist. Sloppar og einkaklefar til að aflæðast í sem leiddu svo til ákveðinnar meðhöndlunar sem fáum konum hlakkar til að taka þátt í. Allt var gert til að láta konunni líða vel í óþægilegri meðferð. Ég fór nýverið á heilsugæsluna í þessum erindagjörðum og tek það fram að hér um að ræða mína upplifun. Ég gekk inn á biðstofu með fólki sem beið lækninga við flensu og öðru því tengt, sat þar og satt best að segja vildi miklu frekar verða með kvef heldur en að fara í „kjallaraskoðun“. Var svo kölluð inn á neonbjarta læknisstofu og beðin um að fara úr að neðan. Enginn klefi, ekkert tjald, ekki einu sinni snagi fyrir buxurnar og nærhaldið. Þeim fannst ég koma með góða ábendingu um að snagi væri mikilvægur.

Handtökin voru fagmannleg, það vantaði ekki og vonandi eru heilsugæslurnar að reyna að gera bragarbót á aðstöðunni. En ég gekk út með sorg í hjartanu að dætur mínar, dætur okkar allra, ungar konur, sérstaklega þær sem eru brotnar og hræddar skyldu aldrei fá að upplifa nærgætinnar þjónustu Leitarstöðvarinnar. Að þessi viðkvæma þjónusta skuli vera sett sem hliðarverk almennrar heilsugæslu er ekki ásættanlegt að mínu mati og er mikill hnekkir á annars mjög góðu kjörtímabili ríkisstjórnar Íslands. Það er gríðarlega mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn taki við Heilbrigðisráðuneytinu sem mun ekki bara beita vinstra auganu á þær lausnir sem hægt að nota innan heilbrigðiskerfisins. Sú meðhöndlun og það viðhorf sem við konur höfum fengið vegna reglugerðarbreytinga núrverandi heilbrigðsráðherra er að mínu mati algerlega óásættanleg.

Karen Elísabet Halldórsdóttir, bæjarfulltrúi í Kópavogi.

Höfundur gefur kost á sér í 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvestur kjördæmi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar