Lýðræðið, lögin, samfélagið og þú

Þrátt fyrir allt pólitískt dægurþras erum við í meginatriðum sammála um þá samfélagsgerð sem við viljum byggja upp og vernda. Markmiðin eru m.a. að veita mönnum frelsi til orðs og athafna, samhliða því að kalla menn til ábyrgðar. Við viljum að börn okkar geti búið við öryggi og að gamla fólkið geti átt áhyggjulaust ævikvöld. Við óskum þess að eiga vinsamleg samskipti við aðra og að gagnkvæmt traust ríki í viðskiptum. Öll höfum við mismunandi hæfileika og styrkleika, en saman getum við stutt hvort annað til góðra verka, sjálfum okkur og öðrum til heilla, þjóðfélaginu til farsældar.

Meðan enginn hefur bent á betri leið en lýðræðið verðum við að vinna að markmiðum okkar á þeim grunni. Í framkvæmd þýðir það að við berjum ekki annað fólk til hlýðni, dæmum engan úr leik vegna útlits, sviptum engan rödd sinni, umberum skoðanir annarra og séum reiðubúin að endurskoða eigin niðurstöður. Af öllu þessu leiðir að lýðræðið er ekki skilvirkasta stjórnarform sem völ er á, en það er besta leiðin til að jafnvægisstilla þjóðarskútuna og halda hvers kyns öfgum í skefjum.

Grundvallarforsenda þess að lýðræðið skili þessu hlutverki er þó sú að borgararnir láti sig varða um samfélagið og þróun þess. Það gerum við með því að taka þátt í samfélagsumræðu, nýta kosningarétt okkar og kjörgengisrétt. Þetta gerum við þó ekki aðeins af hugsjón, heldur vissulega einnig til að gæta eigin hagsmuna, meðvituð um það að góð lög verða ekki til án góðrar umræðu. William Boetcker (1873-1962) taldi alla slíka þátttöku vera líftaug lýðræðis og lagasetningar. Ein frægustu ummæli hans lúta að því sem hann kallaði „sjö glæpi gegn heimalandinu“:

(1) Ég hugsa ekki.
(2) Ég veit ekki.
(3) Mér er sama.
(4) Ég er of upptekinn.
(5) Ég skipti mér ekki af.
(6) Ég hef engan tíma til að lesa og finna út úr því.
(7) Ég hef ekki áhuga.

Ætlar þú að nýta kosningarétt þinn í prófkjörum stjórnmálaflokkanna og í kosningunum nk. haust? Viltu hafa eitthvað um það að segja hvaða fólk og hvaða flokkar komast til valda að loknum þingkosningum? Viltu hafa áhrif á þá stefnu sem hér verður mörkuð og hvaða lagareglur gilda hérlendis? Viltu veita fólki, sem þú treystir, umboð til að starfa í þína þágu? Ef svarið við þessum spurningum er já, skora ég á þig að kjósa í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi, sem fram fer dagana 10.-12. júní nk.

Ég býð mig fram í 2.-3. sæti framboðslistans og vonast eftir að fá umboð þitt til að leggja mitt af mörkum í þágu samfélags okkar.

Arnar Þór Jónsson.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar