Tvíburasysturnar Sigurbjörg Erla og Guðbjörg Viðja voru dúx og semidúx MK
Um sl. helgi voru haldnar tvær útskriftarathafnir við Menntaskólann í Kópavogi, annars vegar fyrir nemendur í kvöld- og fullorðinsnámi og hins vegar fyrir nýstúdenta og verðandi nýsveina.
Sá skemmtilegi og sérstæði viðburður átti sér stað að Sigurbjörg Erla Pétursdóttir Biering varð dúx skólans með meðaleinkunnina 9,89 og tvíburasystir hennar Guðbjörg Viðja varð semidúx með einkunninna 9,70, en árangur Sigurbjargar er sá besti í sögu skólans til þessa. Á forsíðumynd eru systurnar við útskriftina.
Athafnirnar fóru fram í Digraneskirkju og var hægt að fylgjast með þeim í streymi en ánægjulegt var að nýjar reglur leyfðu einnig viðveru gesta í fyrri athöfninni.
Kvöldskóli og fullorðinsnám
Skólameistari fagnaði nýjum lögum um háskóla
Þann 27. maí útskrifuðust 49 iðnmeistarar, 10 matsveinar, 3 matartæknar, 5 ferðaráðgjafar og 27 leiðsögumenn. Í ræðu sinni fagnaði skólameistari, Guðríður Eldey Arnardóttir, nýjum lögum um háskóla þar sem lokapróf á 3. þrepi er nú jafngilt stúdentsprófi sem inntökuviðmið í háskóla. Jafnframt fjallaði skólameistari um nýja reglugerð um vinnustaðanám sem færir skólanum meira forræði yfir heildstæðu námi til sveinsprófs.

Eftirtaldir nemendur hlutu sérstaka viðurkenningu fyrir afburða námsárangur: Auður Þórhildur Ingólfsdóttir fyrir verklega matreiðslu; Júlía Khlamova fyrir aðferðafræði matreiðslu; Elva Björk Magnúsdóttir fyrir besta árangur á lokapróf meistaraskóla; Sóley Huld Árnadóttir fyrir góðan námsárangur í ferðamálanámi; Kerstin Geiger fyrir góðan árangur í almennri leiðsögn og Helga Medek, fyrir góðan árangur í gönguleiðsögn.
Valgerður Ingibjörg Hafstað flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnema í ferðagreinum og Helga Haraldsdóttir mælti fyrir hönd útskriftarnema í matvælagreinum.

Megi maturinn ykkar smakkast vel, megi kökurnar verða sætar, veislurnar dýrðlegar og ferðirnar frábærar
Það var létt yfir gestum athafnarinnar og bjartsýni fyrir framtíðinni. „Megi maturinn ykkar smakkast vel, megi kökurnar verða sætar, veislurnar dýrðlegar og ferðirnar frábærar“. Með þessum orðum kvaddi skólameistari nemendur inn í sumarið og þakkaði veturinn sem var á margan hátt erfiður en lærdómsríkur.
Nýstúdentar og verðandi iðnsveinar
Þann 28. maí voru alls útskrifaðir 57 stúdentar og 9 með lokapróf í bakstri, 11 í framreiðslu og 22 í matreiðslu. Hjá verknámsnemum eru síðan framundan sveinsprófin sem haldin verða á næstu dögum.


Fagpróf nemenda gildir til jafns við stúdentsprófið
Í útskriftarræðu vakti skólameistari, Guðríður Eldey Arnardóttir, athygli á mikilvægi nýrra laga um háskóla þar sem lokapróf í iðngrein hefur nú jafna stöðu og stúdentsprófið sem inntökuviðmið í nám á háskólastigi. „Þetta þýðir það að standi hugur nemenda að loknum grunnskóla til verknáms getur viðkomandi óhræddur klárað sitt fagnám vitandi það að fagprófið hans gildir til jafns við stúdentsprófið.“

Árangur Sigurbjargar sá besti í sögu skólans
Egill Orri Elvarsson, nýstúdent, og Jakob H. P. Burgel Ingvarsson, bakari, fluttu ávörp fyrir hönd útskriftarnema og veittar voru viðurkenningar fyrir framúrskarandi námsárangur. Nisarat Sengthong Bjarnadóttir fékk verðlaun fyrir hæsta meðaleinkunn á lokaprófi í matreiðslu. Sá skemmtilegi og sérstæði viðburður átti sér stað að Sigurbjörg Erla Pétursdóttir Biering varð dúx skólans með meðaleinkunnina 9,89 og tvíburasystir hennar Guðbjörg Viðja varð semidúx með einkunninna 9,70 en árangur Sigurbjargar er sá besti í sögu skólans til þessa.
Myndirnar tók Íris Mjöll Ólafsdóttir.
