Samtal yfirvalda við íbúa

Áhugi íbúa á skipulagsmálum hefur aukist mjög með tilkomu þéttingar byggðar. Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa síðustu ár stígið sín fyrstu skref í skipulagðri þéttingu og eru enn að þreifa sig áfram með það hvernig best er að haga samráði við íbúa varðandi þær miklu breytingar sem þétting hefur í för með sér.

Kynningarfundir

Reykjavíkurborg hefur sýnt gott fordæmi og heldur opna kynningarfundi með íbúum sem eiga hagsmuna að gæta í hverfum borgarinnar. Boðið hefur verið upp á kynningar á þéttingaráformum í opnum rýmum í hverfunum og gefið út gott kynningarrit um öll þau þéttingarverkefni sem eru á áætlun. Skipulagsyfirvöld í Reykjavík sáu meira að segja ástæðu til að senda öllum nágrönnum sínum í Kópavogi þetta veglega rit.

Heimsmarkmiðin hundsuð

Þetta rímar vel við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 11.3 um meiri þátttöku íbúa í skipulagsmálum. Kópavogur hefur einmitt tekið mið af heimsmarkmiðunum í ný samþykktri stefnumótun sinni. Samt hafa valdhafar þar ekki stigið skrefið til fulls þegar kemur að samtali við íbúana. Kópavogsbær stendur fyrir stórum þéttingarverkefnum í dag, á Kársnesi, við Auðbrekku og Nýbýlaveg og það stærsta sem er þétting á miðbæjarsvæði Kópavogs á Digraneshálsi. Þar var hluti verkefnisins tekinn fram fyrir stóra verkefnið sem er endurhönnun miðbæjarsvæðisins. Þessi hluti er annars vegar það húsnæði sem hýsti áður bæjarskrifstofur Kópavogs og Traðarreitur vestari hins vegar. Bæjarskrifstofubyggingarnar voru seldar verktökum til niðurrifs og nýrrar uppbyggingar á síðasta bæjarstjórnarfundi fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Annar verktaki keypti upp sex lóðir af átta á Traðarreit vestari. Bærinn á enn tvær lóðir. Lóðarhöfum var síðan falið að hanna deiliskipulag reitanna tveggja sem eru innan þéttrar byggðar á milli Hamraborgar, Fannborgar og Kópavogsskóla. Svæðið er viðkvæmt þar sem íbúabyggð liggur þétt upp að þessum tveimur reitum, núverandi bílastæðahús er sameiginlegt með lóðarhöfum aðliggjandi lóða og sprengja þarf upp harða klöpp til að byggja nýtt bílastæðahús.

Ekkert samtal

Mikill ólga hefur verið meðal íbúa í nágrenninu og óskum þeirra um samráðsfundi hefur ekki verið svarað. Ýmis aðgengismál eru enn óútkljáð og íbúar vita ekki hvað bíður þeirra. Bæjaryfirvöld vilja ekki tala við íbúana fyrr en búið er að samþykkja deiliskipulagið og skrifa undir samkomulag um uppbyggingu við lóðarhafa. Þessi aðferðafræði rímar illa við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 11.3. Nútíma stjórnsýsla snýst meir og meir um samtal við íbúana og að hlusta eftir þeirra vilja. Valdhöfum í Kópavogi hefur gengið illa að koma á virku samtali við almenning þrátt fyrir góða hvatningu frá minnihlutanum. Nýtt deiliskipulag fyrir þessa tvo miðbæjarreiti sem fengu sérmeðhöndlun verður lagt fram til samþykktar á næsta bæjarstjórnarfundi. Það mun ekki hljóta samþykki fulltrúa Samfylkingarinnar.

Bergljót Krisinsdóttir
Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar