Gleðileg geðheilsu-jól!

Desember er sá mánuður sem flest fólk vill síst heyra af eða tala um stjórnmál, þó að við sem lifum og hrærumst í sveitarstjórnarmálunum séum reyndar þegar farin að telja niður í kosningar (það eru fimm mánuðir!). Ég dreg því hér fram sálfræðings-sjálfið mitt og hvíli stjórnmálakonuna við pistlaskrifin í þetta sinn.

Ég fer alltaf yfir um jólin
…söng Laddi. – Þá þarf allt að vera fínt, mála eldhúsið og barnaherbergið, konan segir það mjög brýnt. Hátíðunum fylgir óhjákvæmilega gjarnan álag yfir meðallagi. Uppstokkun á rútínu hjá börnum jafnt sem fullorðnum, jólaboð og –viðburðir, hreingerning og gjafakaup. Í ár, líkt og í fyrra, eykur Covid enn frekar á álagið. Þrátt fyrir að við lifum nú eftir fremsta megni eðlilegu lífi er faraldurinn alltaf yfirvofandi, við höfum ef til vill áhyggjur af heilsu og velferð okkar nánustu og viljum auðvitað ekki þurfa að verja hátíðunum í sóttkví eða einangrun fjarri fjölskyldu og ástivnum. Jafnvel í eðlilegu árferði, óháð farsóttum, hafa rannsóknir sýnt að desembermánuður er streituvaldandi fyrir bæði fullorðna og börn (eins og við höfum þurft rannsóknir til að segja okkur það).

Ég fer alltaf yfir um jólin, en kemst aftur á rétt ról.

Hér eru nokkur sálfræðilega gagnleg ráð til þess að hlúa að geðheilsunni yfir jólin.

Hægjum á og deilum verkum. Oft er það einn aðili sem tekur megnið af þriðju vaktinni, sem ósýnilega álagið er, verkefnalistar geta komið að góðum notum.

Veljum orrusturnar okkar. Þegar streitustigið er hátt er auðvelt að láta allt fara í taugarnar á sér. Það er gott að staldra við og hugsa hvort það sé þess virði að eyða orku í að nefna það að einhver skildi eftir óhreina sokka í sófanum.

Gerum eitthvað skemmtilegt saman. Hvort sem það er að grípa í spil, gera jólaföndur eða fara eitthvað út í náttúruna að njóta. Minningar lifa lengur en veraldlegar gjafir.

Verum meðvituð um að geðrænar áskoranir geta versnað á þessum árstíma. Við fáum alls staðar að skilaboð um að við eigum að vera glöð og kát í desember en það getur aukið enn á vanlíðanina hjá þeim sem glíma t.d. við þunglyndi eða kvíða.

Hugsum um það sem við erum þakklát fyrir. Það bætir geðheilsuna og styrkir tengsl okkar við annað fólk.

Það verður ekki allt fullkomið. Það er uppskrift að þunglyndi, kvíða og uppnámi að ætla sér of mikið. Það eru allar líkur á að eitthvað fari ekki eins og áætlað var, það er gangur lífsins yfir hátíðirnar eins og aðra tíma. Nú er mikilvægt að draga upp æðruleysið.

Ef við erum að ganga í gegnum erfiðleika, ræðum málin við okkar nánustu. Það kann að auka á streituna í upphafi en það að byrgja hlutina inni brýst á endanum út með enn verri afleiðingum.

Ég vil bara frið, við jólaborðhaldið… og ég segi gleðileg jól

Síðast en ekki síst er gott að hafa í huga fyrir jólaboðin að það þýðir lítið að reyna að sannfæra fólk sem hefur skoðanir á öndverðum meiði við okkur. Sum okkar kjósa að neyta ekki dýraafurða, sum skilgreina kyn sitt eða kynhneigð utan hefðbundnu tvíhyggjunnar, við höfum allskyns ólík trúarbrögð hvert með sínum hefðjum og venjum, sum hafa áhyggjur af loftslaginu og öðrum finnst bara öruggast að setja nagladekkin undir díseljeppann sinn á veturna. Aukum ekki álagið með því að reyna að rökræða lífsskoðanir samferðafólks okkar í jólaboðunum. Þó við skiljum þær ekki þá skiptir það ekki máli, gefum fólki svigrúm til að vera bara nákvæmlega eins og það er. Áður en langt um líður verður þetta tímabil afstaðið og nýja árið hefst með hækkandi sól og endrkomu rútínunnar. Þá getum við háð þær orrustur sem okkur sýnist á öðrum vettvangi. Jólin eru nú bara einu sinni á ári.

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfullrúi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar