Það er vissulega gott á búa í Garðabæ. En eitt skyggir þó á kosti þess að vera Garðbæingur og á það reyndar við alla íbúa á Suðvesturhorni landsins. Við erum í raun með aðeins hálft atkvæði miðað við aðra íbúa landsins okkar.
Hefur þú, ágæti lesandi hugleitt hversu fráleitt það er að við búum við ójafnt vægi atkvæða, eingöngu vegna þess að við erum búsett hér á þessu svæði. Hvernig stendur á því að íbúarnir á Suðvesturhorni landsins eru aðeins um hálfdrættingar miðað við aðra í vægi atkvæða. Skýringanna er eflaust að leita um hundrað ár aftur í tímann þegar samgöngur voru litlar milli landssvæða. Í dag hefur þetta breyst auk þess að landsmenn allir eru tengdir gegnum netið og geta unnið störf sín óháð búsetu.
Bara á Íslandi
Engin dæmi eru um viðlíka misvægi atkvæða og hér á landi í öllum heiminum. Við erum öll með sama vægi í forsetakosningum, sveitarstjórnarkosningum og í þjóðaratkvæðagreiðslum. En ekki í Alþingiskosningum! Finnst þér þetta ásættanleg mismunun ágæti lesandi þessa pistils?
53.000 atkvæði
Misvægi atkvæða í alþingiskosningum á Íslandi hefur verið deiluefni í áratugi. Lengi hefur verið reynt að útskýra þetta augljósa mannréttindabrot en nýlega birti dr. Haukur Arnþórsson áhugaverða grein um þetta mál sem skýrir misvægið á mannamáli sem allir skilja.
Þar segir Haukur meðal annars um ójafnan atkvæðisrétt kjósenda að „miða megi við að þrjú atkvæði þurfi frá höfuðborgarsvæðinu á móti tveimur frá landsbyggðinni. Það jafngildir því að 53.000 kosningabærra manna á höfuðborgarsvæðinu (Reykjavík og Suðvesturhornið) hafi ekki kosningarétt“.
Það samsvarar því í raun að öll greidd atkvæði Hafnfirðinga, Kópavogsbúa og Garðbæinga yrðu ekki talin í kosningunum sem eru framundan. Þeim yrði einfaldlega stungið undir stól!
Þorkell Helgason ræðir málið í annarri grein og segir hann að „ójafn atkvæðisréttur kjósenda er á skjön við almennt jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar“. Og síðar segir hann að misvægi atkvæða fær ekki staðist til lengdar enda hafa stjórnvöld fengið ákúrur frá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu vegna þessa ójafna kosningaréttar. Spyrja má hvort Mannréttindadómstóll Evrópu kunni að taka í taumana, eins og gerst hefur í öðrum stórmálum okkar segir Þorkell.
En það er von
Viðreisn vill jafna atkvæðisréttinn og lögðu þingmenn flokksins fram frumvarp í því skyni á Alþingi haustið 2020. Þar sagði meðal annars: „Jafnt vægi atkvæða er ekki eingöngu mikilvægt til að styrkja lýðræðið og tryggja jafnan rétt borgaranna óháð efnahag, kyni, uppruna eða búsetu. Það er einnig liður í því að auka samkennd, skilning og réttlæti í samfélaginu. Við byggjum ekki upp réttlátt samfélag með því að viðhalda misskiptingu í kosningakerfinu. Einn einstaklingur – eitt atkvæði er sjálfsögð krafa í nútímalegu lýðræðissamfélagi.“ Þessi tillaga var felld af núverandi stjórnarflokkum af því að það hentaði þeirra sérhagsmunum enda tryggir misvægi atkvæða þessum flokkum fleiri þingsæti.
Viðreisn hefur gert þetta mál að grundvallaratriði á stefnuskrá sinni og mun krefjast fullrar jöfnunar atkvæðisréttar í landinu.
Það væri fróðlegt fyrir þig, kæri lesandi á Suðvesturhorninu, að vita hvort þinn flokkur, ef hann er ekki Viðreisn, styðji að þú sért aðeins með hálft atkvæði. Kannaðu málið!.
Höfundur er Thomas Möller, verkfræðingur, MBA og frambjóðandi í fjórða sæti Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi.