Af hverju Píratar?

Eftir að ég tilkynnti um þá ætlun mína að bjóða mig fram til Alþingis þá er nær óbrigðult að ég fæ sömu spurninguna frá fólki sem ég hitti. Af hverju Píratar?

Þegar ég tók þá ákvörðun í upphafi þessa árs að bjóða mig fram til Alþingis því ég vildi sjá breytingar í stjórnarfari á Íslandi, þá byrjaði ég á kynna mér flokkana og það var auðvelt að sjá muninn á Pírötum og öðrum flokkum. Í Pírötum koma saman ólíkir einstaklingar með mismunandi skoðanir. Í Pírötum má finna fólk sem hefur verið skráð í Sjálfstæðisflokkinn, jafnt sem Vinstri Græna, í góðu blandi við fyrrum Framsóknarfólk, Sósíalista, nú og auðvitað anarkista.

En hvað fær þetta ólíka fólk til þess að koma saman undir merkjum Pírata? Það er sú staðreynd að innan Pírata er allt starfið og hugmyndafræðin byggð á grunngildum sem ganga út á lýðræðisleg og siðferðileg vinnubrögð. Grunngildi sem fá þetta ólíka fólk til þess að finna hinn gullna meðalveg sem tryggir að allar hliðar séu sáttar. Leggja áherslu á gögn og góð rök, í stað þess að setja fyrir sig að hugmyndin hafi komið frá öðrum flokki. Grunngildi sem tryggja að sérhagsmunir víki fyrir því sem er réttlátt og til góðs fyrir samfélagið.

Mikilvægast fyrir mig var þó sú staðreynd að Píratar horfa fram á veginn og sitja ekki fastir í viðjum fortíðarinnar. Píratar eru tilbúnir að laga það sem er ekki að virka og jafnvel hugsa hlutina alveg upp á nýtt, í stað þess að reyna endalaust að setja plástra ofan á plástra. Píratar eru fólk sem skilur hvað nýsköpun gengur út á og hvað þarf að gera til að styðja hana. Fyrir þeim er nýsköpun ekki bara nýjasta tískuorðið eins og skein í gegn hjá stjórnmálamönnum annarra flokka.

Nú þegar Alþingiskosningar fara í hönd eru stjórnmálaflokkarnir í óða önn að koma saman kosningastefnum og kosningaloforðum í von um að heilla kjósendur. Innantóm loforð gleymast fljótt um leið og völdin hafa verið tryggð. Hver man ekki eftir fallegum loforðum í bréfi Bjarna Ben til gamla fólksins um að bæta hag þeirra, sem hann virtist svo varla kannast við að hafa skrifað þegar hann var spurður hvenær ætti að koma að framkvæmdum loforðanna. Því miður er það bara eitt dæmi af ófáum loforðum sem gleymst hafa í tíð núverandi ríkisstjórnar.

Nú er tækifæri þitt kjósandi góður að velja framtíð byggða á réttum gildum. Ég er sannfærður um að þín niðurstaða verður sú sama og mín – að velja Pírata.

Gísli Rafn Ólafsson
Frambjóðandi Pírata í Suðvesturkjördæmi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar