Nú eru allir jafnaðarmenn!

Eins og haust fylgir sumri, þá er hægt að treysta því að tveimur vikum fyrir alþingiskosningar tali frambjóðendur flestra – nei, svei mér þá, allra – stjórnmálaflokka eins og þau séu nýstigin úr stjórnmálaskóla Samfylkingarinnar: jöfn tækifæri, jöfnuður, jafnrétti og kvenfrelsi, bæta kjör þeirra verst settu, draga úr skerðingum, hækka barnabætur, efla heilbrigðiskerfið, skiptum byrðunum með sanngjörnum hætti, nýtum skattkerfið til að létta undir með þeim sem raunverulega þurfa á því að halda, og þannig mætti áfram telja.

Um leið og ég gleðst yfir því að stjórnmálafólk skuli horfast í augu við þá staðreynd að almenningur vill búa í samfélagi sem einkennist af jöfnuði, réttlæti og mannsæmandi lífskjörum, þá verð ég líka að viðurkenna reynslan hefur kennt mér að hér fara tal og mynd ekki alltaf saman. Kjósendur þurfa að átta sig á því í tæka tíð fyrir kosningar. Það er nefnilega bara einn jafnaðarmannaflokkur á Íslandi, sósjaldemókratísk stjórnmálahreyfing sem stendur föstum fótum í femínisma og umhverfisvernd: Samfylkingin – Jafnaðarmannaflokkur Íslands.

Kosningaáherslur Samfylkingarinnar hverfast um lífskjör almennings og eru eins langt frá sérhagsmunagæslu og hægt er að hugsa sér. Við viljum bæta kjör barnafjölskyldna með því að hækka barnabætur. Það gerum við með því að færa skerðingarmörk þeirra úr kr. 351.000 í kr. 600.000. fyrir einstætt foreldri. Við leggjum til að grunnupphæð almannatrygginga hækki strax um áramótin í takt við lífskjarasamningana. Við ætlum að tvöfalda frítekjumark lífeyristekna hjá eftirlaunafólki og við ætlum að tvöfalda frítekjumark atvinnutekna hjá öllum lífeyrisþegum. Nú má heyra enduróm þessara áherslna Samfylkingarinnar víða.

Samfylkingin hefur lagt fram 50 metnaðarfullar tillögur um aðgerðir í loftslagsmálum og setur raunhæf markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030, eða 60% samdrátt. Við vitum að það er hægt og við viljum leiða saman í ríkisstjórn þá flokka sem deila þessum metnaði með okkur. Sem betur fer eru þeir nokkrir.

Allt tal um frelsi og jöfn tækifæri verður innantómt gaspur ef ekki fylgir pólitískur vilji til að reka sterkt velferðarkerfi sem kemur til móts við þarfir þeirra sem þurfa á stuðningi að halda. Það verður ekki fjármagnað nema þjóðin fái sanngjarnan arð af auðlindum sínum og hin efnameiri greiði skatt í samræmi við getu. Setjum X við S.

Þórunn Sveinbjarnardóttir leiðir lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar 25. september.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar