Á Íslandi fær meðaltekjufjölskylda með tvö börn engar barnabætur en annars staðar á Norðurlöndum nemur stuðningurinn allt að 50 þúsund krónur á mánuði fyrir sömu fjölskyldu. Frá árinu 1990 hefur stuðningur með hverju barni hér á landi minnkað um meira en helming í hlutfalli við landsframleiðslu. Þessu þarf að breyta og það vill Samfylkingin gera með því að stórauka stuðning við börn og fjölskyldur þeirra.
Samfylkingin mun í ríkisstjórn setja í forgang að hækka greiðslur til barnafjölskyldna, greiða þeim hærri barnabætur og gera það í hverjum mánuði til þess að þær nýtist betur. Fleiri munu njóta barnabóta en áður þar sem öllum fjölskyldum upp að meðaltekjum standa þær óskertar til boða. Þannig drögum við úr tekjutengingum og endurreisum stuðningskerfið fyrir barnafjölskyldur á Íslandi. Það munar um það á flestum heimilum. Í umræðunni um barnbætur vill gleymast að þær eiga að jafna stöðu þeirra sem eru með börn á sínu framfæri og þeirra sem eru það ekki. M.a. þess vegna er svo mikilvægt að draga úr tekjutengingunum sem hafa gengið allt of langt.
Hvað ætlar Samfylkingin að gera?
Við ætlum að greiða fullar barnabætur með öllum börnum til foreldra með allt að meðaltekjum (u.þ.b. 1200 þúsund á mánuði hjá pari eða 600 þúsund krónur fyrir einstætt foreldri) þannig að fjölskylda með tvö börn, sem nú fær engar barnabætur, fái 54 þúsund krónur í barnabótagreiðslu mánaðarlega.
Hækkun barnabóta til lág- og meðaltekjufólks er gífurlega áhrifarík aðferð til að draga úr misskiptingu á milli barna og auðvelda foreldrum að standa straum af útgjöldum t.d. vegna tómstundaiðkunar. Við vitum að börn efnalítilla foreldra hafa ekki sömu tækifæri til íþróttaiðkunar eða tónlistarnáms eins og börn foreldra sem eru í betri efnum. Það er ritað í DNA jafnaðarstefnunnar að fjárhagsstaða foreldra megi ekki koma í veg fyrir að börn og ungmenni njóti sjálfsagðra mannréttinda eins og heilbrigðisþjónustu, menntunar og tómstundaiðkunar. Hækkun barnabóta með þeim hætti sem Samfylkingin leggur til er jafnaðarstefnan í hnotskurn.
Þórunn Sveinbjarnardóttir leiðir framboðslista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi