Allt innan seilingar, fyrir loftslagið og lýðheilsuna

Mig langar að búa í samfélagi þar sem við getum sinnt öllum helstu erindum okkar í grennd við heimilið, án þess að þurfa að grípa til bílsins. Það er ekki bara loftslagsvænt heldur líka mannvænt og heilsusamlegt. Þegar við svo þurfum á bíl að halda þá þarf að auðvelda öllum, óháð efnahag, að nota umhverfisvænni bíla en dísel og bensín.

Samfélag þar sem það er valkostur að nota ekki bíl alla daga

Nærri þriðjungur losunar gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands er frá vegasamgöngum. Þar eru því mikil tækifæri til samdráttar. Við erum nú þegar í 2. sæti í heiminum í nýskráningum rafbíla, sem er frábært. Skipulag byggðar er líka mjög stór þáttur. Við þurfum að skipuleggja hverfin okkar þannig að við getum komist í skóla, íþróttir, tómstundir og matvörubúð á 15-20 mínútum, gangandi eða hjólandi. Þetta er stórt loftslagsmál en hefur líka ýmislegt fleira jákvætt í för með sér, eins og bætta heilsu, loftgæði, minni hávaðamengun og meira mannlíf. Ég lagði fram tillögu um akkúrat þetta á þingi síðastliðið vor sem vonandi fær brautargengi á næsta kjörtímabili.

Borgarlína – öflugar almenningssamgöngur fyrir loftslagið

Við Vinstri græn viljum efla almenningssamgöngur á landinu öllu og flýta uppbyggingu Borgarlínu. Ríki og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu gerðu með sér tímamótasamkomulag á þessu kjörtímabili um samgöngumál. Á 15 árum verður ráðist samgönguframkvæmdir sem að óbreyttu hefðu tekið allt að 50 ár. Við viljum sjá Borgarlínu verða að veruleika hraðar en nú er gert ráð fyrir og efla Strætó í millitíðinni, svo almenningssamgöngur verði raunhæfur kostur fyrir alla, ekki síst þegar við þurfum að fara út fyrir 15-20 mínútna hverfið okkar.

Hversu langt kemstu á korteri?

Ps. Hefurðu prófað nýja appið sem heitir Korter? Það sýnir manni hvað maður kemst langt á korteri, annað hvort gangandi eða hjólandi, frá punktinum sem maður stendur á. Og ef maður er innan við korter að ganga eða hjóla frá A til B, þá getur oft hentað að sleppa bílnum? Bæði líkaminn og umhverfið njóta góðs af.

Efling almenningssamgangna og virkra ferðamáta, auk orkuskipta, eru mikilvægar aðgerðir til að ná markmiðum Íslands í loftslagsmálum. Við Vinstri græn höfum nú þegar náð árangri í loftslagsmálum fyrir samfélagið og framtíðar kynslóðir og ætlum að stíga enn stærri skref á næsta kjörtímabili ef við fáum til þess stuðning.
Það skiptir máli hver stjórnar.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson
Umhverfis- og auðlindaráðherra sem skipar 1. sæti á lista VG í suðvesturkjördæmi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar