Hreint ehf í Auðbrekku Kópavogi er ein elsta og stærsta ræstingarþjónusta landsins, en fyrirtækið var stofnað 12. desember 1983. Hjá Hreint starfar myndarlegur hópur fagfólks og stór hluti af honum hefur starfað hjá félaginu um langa hríð eða allt frá stofnun fyrirtækisins. Það má því segja að starfsmenn Hreint búi að mikilli reynslu auk þess sem starfsfólk fær markvissa þjálfun í þjónustu og samskiptum við viðskiptavini.
Ari Þórðarson er framkvæmdastjóri Hreint, en það kannast sjálfsagt margir knattspyrnuunnendur við Ara því hann klæddist dómaragallanum á sínum tíma og dæmdi m.a. tugi eða hundruð leikja í efstu deild.
En man Ari vel eftir þeim árum, hafði hann gaman af að dæma og af hverju hætti hann? ,,Dómaragallinn var skemmtilegur hluti af lífi mínu um 20 ára skeið. Ég fékk tækifæri að dæma fótbolta hér á landi í öllum flokkum karla og kvenna og í 20 löndum Evrópu. Dómaraferlinum lauk um síðustu aldamót þar sem erfitt var orðið að samtvinna dómgæsluna með vinnu, fjölskyldu og öðrum áhugamálum,” segir Ari.
Hættir aldrei að fylgjast með fótboltanum
Fylgist þú enn vel með fótboltanum í dag og þá kannski helst með störfum dómara? ,,Maður hættir líklega aldrei að fylgjast með boltanum og því sem honum fylgir. Ég hef t.d. mjög gaman af því að fylgjast með enskum liðum og á uppáhaldslið þar. Þá fylgist ég auðvitað með Kópavogsliðunum en viðurkenna að ég fer sjaldnar á völlinn en áður.”
En svona að öllu gamni slepptu, þá ert þú framkvæmdastjóri Hreint ehf og hver eru ykkar helstu verkefni hjá Hreint ehf? ,,Ég tók við starfi framkvæmdastjóra Hreint árið 2002. Hreint er ein elsta og stærsta ræstingaþjónusta landsins og veitir fyrirtækjum og stofnunum faglega alhliða ræstingaþjónusta. Hjá okkur starfa tæplega 200 starfsmenn og viðskiptavinir eru liðlega 300.”
Fyrirtækið er orðið 37 ára gamallt, hafa verkefnin orðið fjölbreyttari með árum? ,,Í gegnum árin hafa þrif og ræstingar, tæknilega og skipulagslega, tekið miklum breytingum, t.d. orðið mun vistvænni enda er starfsemi okkar vottuð norræna umhverfis- og gæðamerkinu Svaninum. Róbótavæðing ræstinga er svo innan seilingar.”
Kröfur um hreinlæti í fyrirtækjum munu vaxa
Og verkefnum hefur sjálfsagt fjölgað mikið og hratt með komu Covid? ,,Kórónuveiru-faraldurinn hefur margþætt áhrif á íslensk fyrirtæki eins og allir þekkja. Ræstingageirinn hefur ekki farið varhluta af því og sum fyrirtæki lent í erfiðleikum t.d. vegna fækkunar ferðamanna á meðan önnur hafa fengið fangið fullt af sótthreinsiverkefnum. Síðustu tvö ár hafa að mörgu leyti verið mjög góð fyrir rekstur Hreint en þau fólu líka í sér stórar áskoranir í starfsmannamálum. Við teljum hins vegar að heimsfaraldurinn muni til lengri tíma breyta kröfum til hreinlætis í fyrirtækjum í heiminum öllum og þær kröfur muni bara vaxa.”
Þið ræstið milljónir fermetra af atvinnuhúsnæði í hverri viku – það þarf væntanlega einhvern mannafla í þetta? ,,Hjá okkur starfa tæplega 200 starfsmenn og meirihluti þeirra eru í fullu starfi. Við veitum þjónustu á Akureyri, Selfossi, Akranesi, Hveragerði og Reykjanesbæ þannig að við erum mun víðar en á höfuðborgarsvæðinu.”
Og þið eruð með ákveðna jafnréttisáætlun í gangi innan fyrirtækisins þar sem stuðlað er að jafnréttis á milli kvenna og karla? ,,Gerðar eru auknar kröfur til fyrirtækja hér á landi á hverju ári og jafnréttisáætlun er einungis lítill hluti þeirrar þróunar. Við erum t.d. þessa dagana að klára jafnlaunavottun sem við erum mjög stolt af að innleiða í starfsemina.”
Og þið leggið líka mikla áherslu á gæði í þjónustinni ykkar þar sem þið eruð meðvituð um mikilvægi umhverfismála? ,,Eins og áður hefur komið fram er starfsemi Hreint vottuð norræna umhverfis- og gæðamerkinu Svaninum sem gegnir lykilhlutverki í báðum málaflokkum. Við gerum t.d. fyrirtækið upp mánaðarlega vegna notkunar á ræstingaefnum til að geta gripið sem hraðast inn í ef okkur verða á mistök í notkun efnanna.”
Reynum að láta gott af okkur leiða
Fyrirtækinu hefur gengið vel í gengum árin og þið hafið látið ykkur ýmis málefni varða og m.a. styrkt ýmis góðgerðarsamtök í gegnum tíðina eins og Parkinsonsamtökin, Krabbameinsfélagið? ,,Við erum mjög sátt með þróun félagsins á undanförnum árum og hefur það hægt en örugglega stækkað og styrkst. Samhliða því höfum við reynt að láta gott af okkur leiða og í gegnum árin hafa ýmis konar aðilar notið þess með okkur. Dæmi um þetta eru vissulega fyrrnefndir aðilar en einnig Íþróttafélagið Ösp, Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna, afreksfólk fatlaðra, Ljósið, Barnaspítali Hringsins o.fl.”
Fyrirtækinu mörkuð ný framtíðarsýn til næstu 4-6 ára
Og Hreint ehf ætlar halda áfram á sömu braut á komandi árum? ,,Okkar verkefni er áfram að viðhalda og byggja upp gott og farsælt fyrirtæki sem Hreint er. Á þessi ári mörkuðum við fyrirtækinu nýja framtíðarsýn til næstu 4-6 ára – ætlum að bæta hreinlæti í nýjum heimi. Samhliða því ætlum við að útvíkka starfsemina og stækka enn frekar sem byggist á nýjum gildum félagsins, sem eru: Hreinlæti – Samskipti –Skilvirkni. Það eru því mjög spennandi tímar framundan hjá Hreint,” segir Ari að lokum.