Það er á allra vitorði að samgöngur hér á höfuðborgarsvæðinu mættu vera mun skilvirkari og öruggari. Stíflur á stofnbrautum verða sífellt algengari á öllum tímum dags og umferðin á háannatíma gengur hægar en við kærum okkur um. Slíkar umferðarteppur hafa áhrif á okkur öll, í og úr vinnu, skóla, sækja eða hvaða önnur brýn erindi sem við höfum á þessum tíma dags.
Nauðsynleg uppbygging á höfuðborgarsvæðinu
Á þessu kjörtímabili undir forystu Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, náðist tímamótasamkomulag, samgöngusáttmáli á milli ríkisins og 6 stærstu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Einkenni sáttmálans sem felur í sér afar metnaðarfulla uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu eru samvinna, raunhæfar framfarir og nauðsynleg uppbygging á mikilvægustu stöðum höfuðborgarsvæðisins. Þetta er víðtæk áætlun þar sem fleiri stofnbrautir verða byggðar, hugað verði að auknu umferðaröryggi, almenningssamgöngur verða efldar til muna og umferðarhnútar leystir. Uppbygging sem annars hefði ekki orðið að. Á öllu þessu byggjast þó raunhæfar lausnir.
Með sáttmálanum er í sátt og samvinnu við sveitarfélögin verið að bregðast við þeirri sprengingu sem í raun hefur orðið í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Þessar framkvæmdir eru ekki aðeins löngu þarfar heldur alger nauðsyn að klára. Framsókn leggur mikla áherslu á að hraða sem mest þessum framkvæmdum í anda sáttmálans t.a.m. að klára Sundabrú, Arnarnesveg milli Rjúpnavegs og Breiðholtsbrautar, Reykjanesbraut, Hafnafjarðarveg (stokk í Garðabæ).
Öfgakenndar töfralausnir
Við í Framsókn vitum að vandamál verða ekki leyst með öfgakenndum „töfralausnum“. Sáttmálinn liggur fyrir og felur í sér lausnir á þeim vanda sem við þekkjum í dag og flýtir mikilvægum framkvæmdum. Við drögum ekki kanínur úr hatti. Samvinna, raunhæfar aðgerðir og nauðsynleg uppbygging mun leiða okkur áfram.
Margt hefur tekist vel í samgöngumálum undir stjórn Framsóknar á þessu kjörtímabili. Við viljum halda áfram á þessari braut í átt að skilvirkari og öruggari umferð.
Höfundur er þingmaður Framsóknar og oddviti flokksins í Suðvesturkjördæmi