Skýrir valkostir

Um helgina göngum við til kosninga og veljum hvaða stefna á að ráða för næstu árin eftir kjörtímabil sem hefur einkennst af stórum áskorunum, en ekki síður stórum sigrum.

Við fengum í fangið náttúruhamfarir og heimsfaraldur sem reyndu á styrk og samstöðu okkar allra. Við höfum hins vegar fulla ástæðu til bjartsýni og horfurnar eru góðar. Ísland hefur farið betur í gegnum erfiða tíma en flest ríki og það gerðist ekki af sjálfu sér. Við höfðum greitt niður skuldir og búið í haginn fyrir óvænt áföll. Þess vegna gátum við staðið með heimilum og fyrirtækjum og gert þeim kleift að koma sterk til baka.

Afraksturinn sést svart á hvítu. Atvinnuleysi fer hríðlækkandi og atvinnulífið styrkist á ný. Afkoma ríkissjóðs fyrstu sex mánuði ársins var 27 milljörðum betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Ef fram heldur sem horfir má eiga von á kröftugum viðsnúningi þar sem við vöxum út úr kreppunni, frekar en að grípa til skattahækkana og skerðinga eins og við þekkjum frá árunum 2009-2013.

Mörghundruð þúsund krónum meira í vasann vegna skattalækkana

Við héldum áfram að lækka skatta þrátt fyrir heimsfaraldurinn og kjör heimilanna hafa stórbatnað fyrir vikið. Hjón á meðallaunum með þrjú börn hafa rúmlega 820 þúsund krónum meira milli handanna á ári vegna skattalækkana og hærri barnabóta frá árinu 2013 en þau hefðu ef skattkerfi vinstristjórnarinnar væri enn við lýði. Á vefnum skattalækkun.is geta allir slegið inn sín laun og fjölskyldumynstur og séð hvernig skattalækkanirnar snerta þeirra heimilisbókhald.

Með markvissum stuðningi við nýsköpun og hvetjandi skattkerfi hefur tekist að skapa nýja stoð undir íslenskt hagkerfi. Í hugverkageiranum hafa orðið til ógrynni nýrra fyrirtækja og spennandi starfa. Greinin skilaði um 160 milljörðum í gjaldeyristekjur í fyrra, en þær hafa tvöfaldast frá 2013.

Vörumst kanínur í höttum

Komandi kosningar snúast ekki um hvað hefur gerst, heldur hvað við ætlum að gera á komandi misserum. Þegar horft er fram veginn má þó ekki gleyma þeirri sýn sem blasir við í baksýnisspeglinum. Verkin tala og Sjálfstæðisflokkurinn mun halda áfram á sömu braut. Við ætlum ekki að draga kanínur upp úr höttum; lofa skattahækkunum, peningagjöfum eða öðrum útblásnum útgjaldaloforðum á kostnað almennings.

Þvert á móti ætlum við að sýna ábyrgð, varðveita stöðugleika og lága vexti. Þannig verður atvinnulífið sterkt, nýsköpun heldur áfram að blómstra og atvinnuleysi heldur áfram að minnka. Ekkert af þessu gerist ef hér verður sundurlaus fjölflokka ríkisstjórn sem hækkar skatta og safnar skuldum til að borga fyrir óábyrgan loforðalista.

Við ætlum að verða óháð olíu fyrst þjóða. Okkar stærsta framlag til umhverfisins felst í að nýta græna innlenda orku, bæði í innlendu orkuskiptin en ekki síður til framleiðslu og verkefna sem annars væru knúin mengandi orkugjöfum í öðrum ríkjum. Tækifærin eru á hverju strái.

Heilbrigðiskerfið okkar er öflugt og vel fjármagnað, en við ætlum að efla það enn frekar. Með nýrri þjónustutryggingu er öllum tryggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð rekstrarformi og loforð um þjónustu innan 90 daga. Raunverulegur árangur næst ekki undir forystu flokka sem hafa enga stefnu aðra en að kalla á sífellt meiri peninga, óháð útkomunni.

Af fleiri verkefnum sem verður ráðist í á nýju kjörtímabili má nefna áframhaldandi kjarabætur eldri borgara. Þannig ætlum við að stokka upp kerfi lífeyris almannatrygginga, en fyrsta skrefið felst í að tvöfalda frítekjumark atvinnutekna, í 200 þúsund krónur á mánuði. Sjálfstæðisstefnan snýst eftir allt um að hjálpa fólki til sjálfshjálpar, í stað þess að letja fólk til vinnu með skerðingum.

Kæru vinir,

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið burðarás í ríkisstjórn sem stóðst þrekprófið. Við erum á réttri leið og á næstu fjórum árum getum við vaxið, tekið risastór skref í loftslagsmálum með grænu orkubyltingunni, byggt upp okkar dýrmæta velferðarkerfi og fjárfest í fólki og hugmyndum. Höfum trú á framtíðinni og grípum tækifærin.

Höfundur er formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar