Einstaklega góð fjárhagsstaða Garðabæjar á Covid tímum

Ársreikningur Garðabæjar fyrir árið 2020, sem lagður var fram á fundi bæjarráðs Garðabæjar 16. mars 2021 lýsir sterkri fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Fyrri umræða um ársreikninginn var 18. mars og síðari umræða og afgreiðsla verður 15. apríl í bæjarstjórn Garðabæjar.

Rekstrarafgangur A og B sjóðs nemur 774 m.kr. en áætlun ársins gerði ráð fyrir 540 m.kr. rekstrarafgangi. Veltufé frá
rekstri er 2.605 m.kr. sem er um 14,4% í hlutfalli við rekstrartekjur, en var 12,5% árið 2019. Betri rekstrarafkoma skýrist fyrst og fremst af 4,0 % hærri rekstrartekjum en áætlun gerði ráð fyrir, en sala byggingaréttar nam 1.094 m.kr. Rekstrargjöld fóru 2,6% yfir/fram úr fjárhagsáætlun.

Rekstur málaflokka er í góðu samræmi við fjárhagsáætlun að viðbættum viðaukum sem bæjarstjórn samþykkti á árinu. Rekstrargjöld námu samtals 15,6 milljörðum en áætlun gerði ráð fyrir 15,2 milljörðum króna.

Skuldaviðmið og skuldahlutfall lækkar

Lántaka á árinu nam 2.675 m.kr. Framkvæmt var fyrir 3.516 m.kr. þar af námu framkvæmdir í A hluta 2.957 m.kr.
Helstu framkvæmdir ársins voru við byggingu fjölnota íþróttahúss í Vetrarmýri 1.955 m.kr., til skólabygginga og lóða var varið 464 m.kr., til gatnagerðar, hljóðvistar og stígagerðar 347 m.kr. og til vatns- og fráveituframkvæmda 559 m.kr., auk fjölmargra annarra smærri verkefna. Kennitölur í rekstri bera vott um trausta fjárhagsstöðu Garðabæjar.
Skuldaviðmið nemur 71% og skuldahlutfall 100% en var 104% árið 2019. Rekstrarniðurstaða er jákvæð um 4,3%
og fjárfesting ársins nam 19,4% af rekstrartekjum. Útsvar sem hlutfall af heildarrekstrartekjum nam 62%, en var 67% árið 2019. Aðrar tekjur námu 21% af heildarrekstrartekjum en námu 15,7% árið 2019. Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands voru íbúar í Garðabæ 17.672 þann 1. desember sl. og hefur fjölgað um 4,4% á árinu 2020.

Mikil uppbygging framundan

Traust og sterk fjárhagsstaða er undirstaða þess að Garðabær sé vel undir það búinn að mæta þjónustu við fjölgun nýrra íbúa samhliða uppbyggingu nýrra hverfa. Á næstu árum verður lokið við byggingu Urriðaholtshverfis auk þess sem uppbygging Vífilsstaðalands hefst. Einnig eru að hefjast byggingaframkvæmdir á miðsvæði Álftaness. Í þriggja ára áætlun sveitarfélagsins er gert ráð fyrir að lokið verði við byggingu á fjölnota íþróttahúsi í Vetrarmýri í lok árs
2021 og að áfram verði unnið að uppbyggingu íbúða- og þjónustukjarna fyrir fatlað fólk.
Hafinn er undirbúningur að byggingu nýs leikskóla í Urriðaholti, sem áætlað er að taka í notkun á byrjun árs 2023, jafnframt því sem unnið verður að áframhaldandi uppbyggingu Urriðaholtsskóla. Aðstaða fyrir eldri borgara í félagsmiðstöðvum verður bætt og glæsileg bygging útilífsmiðstöðvar í samstarfi með Skátafélaginu Vífli verður tekin í notkun innan tíðar. Áfram verður unnið að frágangi gatna og göngustíga í Urriðaholti jafnframt því sem unnið verður að viðhaldi gatna í eldri hverfum. Í byrjun árs 2021 var lýðræðisverkefnið Betri Garðabær sett af stað í annað sinn og leitað til íbúa Garðbæjar varðandi hugmyndir um smærri framkvæmdir í nærumhverfinu til að kjósa um í rafrænni íbúakosningu í vor. Verkefnin sem hljóta kosningu fara í framkvæmd á árunum 2021 og 2022.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar